Töluvert færri eru á grásleppuveiðum í ár heldur en á sama tíma í fyrra. Núna hafa um 103 bátar landað afla en í fyrra voru þeir 123 á sama tíma.

Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, segir að helsta ástæðan fyrir þessari fækkun sé sú að þegar menn voru að undirbúa vertíðina hafi þeim gengið illa að fá upplýsingar um hvað þeir gætu selt og á hvaða verði.

Óvissan var því algjör," segir Örn er Fiskifréttir heyrðu í honum á þriðjudag.

„Nú stefnir í mikinn samdrátt frá vertíðinni í fyrra, sem þarf ekki að koma á óvart þar sem um metvertíð var að ræða. Ef við tökum fyrstu 30 daga vertíðarinnar þá var veiðin helmingi minni núna en á sama tíma í fyrra.“

Hann segir aflann í hverri löndun vera rúmlega 30% minni en í fyrra

„Mælingarnar hjá Hafrannsóknastofnun gáfu okkur þau skilaboð líka að minna væri af þeirri gráu.“

Lítill áhugi

Grásleppunefnd LS fundaði um stöðuna sem upp var komin að sjómenn fundu ekki fyrir miklum áhuga hjá kaupendum. Markaðurinn ætlaðist greinilega ekki til þess að fá mikið af hrognum. Það var einróma niðurstaða að það þjónaði engum tilgangi að keyra á marga daga.“

„Skilaboð kaupenda voru sama verð og í fyrra um 130 krónur fyrir hrognin, en það fór hratt upp í 150 krónur og nú er farið að greiða 180 krónur fyrir kíló af óskorinni grásleppu.“

Við eigum samt von á því að verðið muni hækka enn frekar. Vertíðin í ár mun því að öllum líkindum minnka bilið milli framboðs og eftirspurnar, sagði Örn

Grænlendingar ósáttir

Grænlenskir sjómenn hafa verið ósáttir við þau verð sem bjóðast, enda þótt skrifað hafi verið undir samkomulag á annan í páskum um 22 danskar krónur, og eina krónu að auki fyrir kíló af steinbítshrognum.

Vertíðin þar átti að hefjast 1. apríl, en vegna ágreiningsins dróst það. Sjómenn höfðu farið fram á 53 danskar krónur. Grænlenski miðillinn Sermitsiaq greinir frá þessu.

Að sögn Landssamband smábátaeigenda hafa Grænlendingar og Íslendingar venjulega verið samtals með um 90% af grásleppuveiðum hvers árs.