Aðeins 26 bátar eru á grásleppuveiðum þessa dagana og ólíklegt að leyfilegur heildarafli náist. Það sem af er veiðitímabilinu er búið að veiða 2.865 tonn þannig að enn er um þriðjungur óveiddur af leyfilegum heildarafla, sem er 4.411 tonn.

Að sögn Arnar Pálssonar, framkvæmdastjóra Landssambands smábátaeigenda, er 141 bátur búinn að landa grásleppu á vertíðinni, sem nokkru færra en á síðasta ári þegar 158 bátar voru búnir að landa.

„Veiði í innanverðum Breiðafirði hófst 20. maí.  Veiðin byrjar mjög svipað og var á síðasta ári, en það eru mun færri sem eru að taka þátt í veiðunum. Alla vega eru þeir færri sem eru byrjaðir,“ segir hann.

Þorskurinn freistandi

Hann segist telja aðalástæðuna fyrir minni veiði nú vera þá að menn hafi ekki talið að verðið sem í boði var fyrir grásleppuna í ár vera ásættanlegt. Á hinn bóginn hafi verðið á þorskinum verið hátt þannig að menn hafi frekar drifið sig á strandveiðar.

Á tímabilinu frá byrjun grásleppuvertíðar, sem var 21. mars, fram til 1. júní hafa að meðaltali fengist 236 krónur fyrir kílóið hjá þeim sem selt hafa gegnum fiskmarkaði. Þetta er töluvert hærra verð en í fyrra þegar sama tímabil skilaði 167 krónum á kíló, en um 30% heildarveiðinnar hefur skilað þessu verði.  Þeir sem eru í beinum viðskiptum hafa einnig fengið verðhækkun, en þar er krónutalan aðeins lægri.

„Þó að verðið hafi hækkað á milli ára þá hefur það ekki nægt til að hvetja menn til þess að fara á veiðarnar.“

Dögunum fjölgað

Veiðidögum hefur verið fjölgað en fáir hafa samt nýtt sér það að vera lengur á veiðum. Á síðasta ári voru bara 25 dagar ætlaðir til grásleppuveiða en þeim hefur verið fjölgað í ár, fyrst upp í 35 daga og nú síðast upp í 45 daga.

„Þetta kom dálítið seint fram og margir voru hættir. Flestir létu sér nægja 35 dagana og jafnvel ennþá minna,“ segir Örn.

Að meðaltali er hver bátur búinn að veiða 20,3 tonn sem er litlu meira en í fyrra en mesti afli á bát til þessa er 62,4 tonn. Í Breiðafirði er nú búið að veiða 61 tonn en á sama tíma í fyrra, í byrjun júní, var búið að veiða 232 tonn þar.

Gaman þegar vel fiskast

Strandveiðar sumarsins hafa á hinn bóginn gengið mjög vel, svo vel reyndar að sjómenn óttast að gripið verði til þess ráðs að stöðva veiðarnar nokkru áður en veiðitímabilið er úti.

„Það er alltaf gaman þegar vel fiskast, en núna er búið að veiða 43% af þessum 10 þúsund tonnum og það sýnir þörfina á því að bæta við aflann og tryggja atvinnu út tímabilið svo jafnræðis sé gætt milli allra landshluta.“

Örn segir að óbreyttu verði veiðar stöðvaðar á svipuðum tíma og í fyrra, en þá var leyfilegum heildarafla náð þann 21. júlí.

Aðeins 26 bátar eru á grásleppuveiðum þessa dagana og ólíklegt að leyfilegur heildarafli náist. Það sem af er veiðitímabilinu er búið að veiða 2.865 tonn þannig að enn er um þriðjungur óveiddur af leyfilegum heildarafla, sem er 4.411 tonn.

Að sögn Arnar Pálssonar, framkvæmdastjóra Landssambands smábátaeigenda, er 141 bátur búinn að landa grásleppu á vertíðinni, sem nokkru færra en á síðasta ári þegar 158 bátar voru búnir að landa.

„Veiði í innanverðum Breiðafirði hófst 20. maí.  Veiðin byrjar mjög svipað og var á síðasta ári, en það eru mun færri sem eru að taka þátt í veiðunum. Alla vega eru þeir færri sem eru byrjaðir,“ segir hann.

Þorskurinn freistandi

Hann segist telja aðalástæðuna fyrir minni veiði nú vera þá að menn hafi ekki talið að verðið sem í boði var fyrir grásleppuna í ár vera ásættanlegt. Á hinn bóginn hafi verðið á þorskinum verið hátt þannig að menn hafi frekar drifið sig á strandveiðar.

Á tímabilinu frá byrjun grásleppuvertíðar, sem var 21. mars, fram til 1. júní hafa að meðaltali fengist 236 krónur fyrir kílóið hjá þeim sem selt hafa gegnum fiskmarkaði. Þetta er töluvert hærra verð en í fyrra þegar sama tímabil skilaði 167 krónum á kíló, en um 30% heildarveiðinnar hefur skilað þessu verði.  Þeir sem eru í beinum viðskiptum hafa einnig fengið verðhækkun, en þar er krónutalan aðeins lægri.

„Þó að verðið hafi hækkað á milli ára þá hefur það ekki nægt til að hvetja menn til þess að fara á veiðarnar.“

Dögunum fjölgað

Veiðidögum hefur verið fjölgað en fáir hafa samt nýtt sér það að vera lengur á veiðum. Á síðasta ári voru bara 25 dagar ætlaðir til grásleppuveiða en þeim hefur verið fjölgað í ár, fyrst upp í 35 daga og nú síðast upp í 45 daga.

„Þetta kom dálítið seint fram og margir voru hættir. Flestir létu sér nægja 35 dagana og jafnvel ennþá minna,“ segir Örn.

Að meðaltali er hver bátur búinn að veiða 20,3 tonn sem er litlu meira en í fyrra en mesti afli á bát til þessa er 62,4 tonn. Í Breiðafirði er nú búið að veiða 61 tonn en á sama tíma í fyrra, í byrjun júní, var búið að veiða 232 tonn þar.

Gaman þegar vel fiskast

Strandveiðar sumarsins hafa á hinn bóginn gengið mjög vel, svo vel reyndar að sjómenn óttast að gripið verði til þess ráðs að stöðva veiðarnar nokkru áður en veiðitímabilið er úti.

„Það er alltaf gaman þegar vel fiskast, en núna er búið að veiða 43% af þessum 10 þúsund tonnum og það sýnir þörfina á því að bæta við aflann og tryggja atvinnu út tímabilið svo jafnræðis sé gætt milli allra landshluta.“

Örn segir að óbreyttu verði veiðar stöðvaðar á svipuðum tíma og í fyrra, en þá var leyfilegum heildarafla náð þann 21. júlí.