Makrílfundi strandríkjanna við Norðaustur-Atlantshaf, sem haldinn var 10.-11. maí, lauk án þess að samkomulag tækist.

Kristján Freyr Helgason, aðalsamningamaður Íslands í þessum viðræðum, segir þetta engu að síður hafa verið ágætis fund og viðræðum verði haldið áfram. Næstu fundir hafi verið ákveðnir 8.-9. júní og svo aftur 22.-23. júní.

Þessi miklu fundarhöld eru nokkur nýlunda. Til þessa hafa fulltrúar strandríkin hist að haustlagi og reynt að ná samkomulagi, en síðan ekki komið saman aftur til fundarhalda fyrr en ári síðar þótt ekkert samkomulag hafi tekist.

Spurður hvort menn séu harðákveðnir í að reyna til þrautar að finna lausn, og hvort almenn bjartsýni ríki á að það takist, segir Kristján að Bretar séu verkstjórar samningaviðræðnanna þetta árið og vilji halda mönnum við efnið. Möguleiki sé alltaf til staðar.

Ofveiði árum saman

Sérlegur áhugi Bretlands á því að ná samkomulagi verður væntanlega að skiljast í ljósi brotthvarfs Breta úr Evrópusambandinu, sem varð að veruleika í lok janúar árið 2020. Strandríkin sem veiða makríl í Norðaustur-Atlantshafi eru þannig Ísland, Noregur, Færeyjar, Grænland og Bretland ásamt aðildarríkjum Evrópusambandsins, en auk þess hafa Rússar veitt makríl á alþjóðlegu hafsvæði.

Undanfarin ár hafa strandríkin komið sér saman um að miða heildarveiði úr makrílstofninum við ráðgjöfina frá Alþjóðahafrannsóknaráðinu (ICES), en ekkert samkomulag hefur verið um hvernig þau ætli að skipta heildaraflanum á milli sín. Þess í stað hafa þau tekið sér einhliða kvóta, hvert fyrir sig, með þeim afleiðingum að samtals hafa þau veitt töluvert meira en ráðgjöfin segir til um.

Árið 2020 nam heildarveiðin 120 prósentum af ráðgjöfinni, og árið 2021 varð hún rúm 140%. Umframveiðin árið 2020 nam 182 þúsund tonnum og 2021 nam hún 354 þúsund tonnum.