María Júlía BA-36 þjónaði lengi sem björgunarskúta Vestfirðinga auk þess að hafa verið bæði hafrannsóknaskip og landhelgisgæsluskip. Hún hefur árum saman legið undir skemmdum í Ísafjarðarhöfn þrátt fyrir að vera friðuð samkvæmt lögum.

Nýja björgunarskipið María Júlía, sem Íslendingar létu smíða fyrir sig í Danmörku, átti upphaflega að sigla inn í Reykjavíkurhöfn fimmtudaginn 20. apríl árið 1950, sama dag og vígsla Þjóðleikhússins fór fram. Á leiðinni heim frá Danmörku tók áhöfnin eftir hollenskum togara sem var að veiðum í landhelgi undan Hjörleifshöfða. Þessu þurfti að sinna og var farið með togarann til Vestmannaeyja, og þar með tafðist heimkoman um einn dag.

Skipinu var ætlað fjölþætt hlutverk. Það átti að annast eftirlits-, björgunar- og hafrannsóknastörf og gerði það með sóma áratugum saman. Eftir að því hlutverki lauk var það gert út til veiða allt til ársins 2003, en nú liggur það undir skemmdum í Ísafjarðarhöfn. Fáir hafa sýnt því áhuga þótt ýmis áhugafélög hafi staðið vörð um skipið, nú síðast Hollvinasamtök um Maríu Júlíu BA-36.

.
.

Vandræðalegt mál

„Þetta er að mörgu leyti svolítið vandræðalegt mál,“ segir Jón Sigurpálsson, fyrrverandi forstöðumaður Minjasafns Vestfjarða. „Mér finnst María Júlía vera svolítið táknmynd einhvers kerfis sem er bara ekkert að virka. Hún er sjósett 1948 og kemur til landsins 1950. Þar af leiðandi er hún friðuð. En hvað gerirðu við friðaða hluti? Þú setur ekkert lög um friðun ef ekki fylgir neitt fjármagn til að sinna því. Hvað verður þá um friðunina?“

Við fyrstu sýn virðist of seint að endurheimta skipið, en í reynd er meira í það spunnið en sjá má með berum augum. Mynd/Halldór Sveinbjörnsson
Við fyrstu sýn virðist of seint að endurheimta skipið, en í reynd er meira í það spunnið en sjá má með berum augum. Mynd/Halldór Sveinbjörnsson

Jón segir ástandið á Maríu Júlíu reyndar betra en ætla mætti. Hann er í forsvari fyrir Hollvinasamtökin sem berjast nú fyrir því að skipið verði gert upp og því fengið nýtt hlutverk.

„Hún er í Ísafjarðarhöfn og engum til sóma þar, blessunin. Það sem við erum að horfa til er að fá tækifæri í sumar til þess að koma henni í slipp á Akureyri og fjármagna það, til þess að gera við eða alla vega kíkja á skrokkinn. Við teljum að það sé lágmarksviðgerð. Hún er sterklega byggð en við fyrstu sýn er ástandið náttúrlega mjög bágborið. En nú höfum við fengið ágæta kunnáttumenn til að skoða skipið, skoða skrokkinn að innan og hann virðist nú vera mjög góður. Auðvitað þarf eitthvað að gera við en það er allt saman í lágmarki, að menn telja.“

Fyrirspurnir til ráðherra

Hollvinasamtökin hafa leitað til ráðamanna, fengu nýverið fund með Lilju Dögg Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra og nú síðast tók Lilja Rafney Magnúsdóttir málið upp á þingi þegar hún kom þangað inn sem varamaður.

Um miðjan síðasta mánuð bar hún fram fyrirspurnir til fjögurra ráðherra. Hún spurði þar forsætisráðherra, matvælaráðherra, dómsmálaráðherra og menningar- og viðskiptaráðherra hvort þeir telji fýsilegt að veita Hollvinasamtökum um Maríu Júlíu BA-36 brautargengi til að vinna að því að endurbyggja skipið.

Hollvinasamtök Maríu Júlíu hafa látið gera teikningu út frá hugmyndum um mögulega nýtingu skipsins til framtíðar. MYND/Sabdesign
Hollvinasamtök Maríu Júlíu hafa látið gera teikningu út frá hugmyndum um mögulega nýtingu skipsins til framtíðar. MYND/Sabdesign

Markmiðið er, að því er segir í greinargerð með fyrirspurnum Lilju Rafneyjar, að „finna því nýtt hlutverk sem því sæmir, ýmist til orkuskiptarannsókna, sem skólaskip, rannsóknaskip eða til að taka á móti opinberum gestum, ásamt því að varðveita menningararfleifð þessa fyrsta björgunarskips Íslands.“

Þegar blaðið fór í prentun hafði fyrirspurnum Lilju Rafneyjar ekki verið svarað, og Jón segist ekki vita hvar málið sé statt eftir ólguna í pólitíkinni undanfarnar vikur.

„Alla vega er þetta komið á blað á þingi,“ segir hann.

Kökubasar dugar ekki

„Sjó- og strandminjar hafa alla tíð verið svolítið afskiptur hlutur í íslenskri menningarpólitík. En meðan ég var starfandi í safninu þá börðumst við í Sambandi íslenskra sjóminjasafna fyrir því að fá bátaminjasóð sem yrði með svipuðum hætti og húsafriðunarsjóður.“

Hann segir Hollvinasamtökin hafa farið tekið sig til og þrifið skipið en nú er orðið nokkuð síðan.

„Öll okkar orka hefur farið í að berjast fyrir þessari áheyrn, af því verkefnið er það stórt að það tekur ekkert áhugamannafélag þetta að sér. Það er alveg ljóst. Þú fjármagnar þetta ekki með kökubasar.“

Jón var um árabil forstöðumaður Byggðasafns Vestfjarða. Á þeim tíma eignaðist safnið skipið, ásamt byggðasafninu á Hnjóti, þannig að eigendurnir urðu tveir.

„Síðan fór þetta nú eiginlega einvörðungu í fangið á okkur hér á Ísafirði.“

Eftir að hann hætti á safninu gat hann ómögulega sagt alveg skilið við málefni íslenskra fornbáta, ekki síst Maríu Júlíu.

„Það er ákveðin tegund af þráhyggju líka, en mér almennt finnst mér þetta bara vera þjóðinni til skammar hvernig farið er með sjóminjar og aðrar strandminjar.“

Núna er gluggi

Hann segir að vissu leyti ákveðna örlagastund runna upp í málefnum Maríu Júlíu. Hafnaryfirvöld á Ísafirði séu farin að þrýsta á að skipið verði flutt burt.

Jón Sigurpálsson. Aðsend mynd
Jón Sigurpálsson. Aðsend mynd

„Þetta er náttúrlega ekkert augnayndi. Ég get alveg skilið það. En aftur á móti er enginn slippur hérna sem getur tekið hana. Það þyrfti að gerast annars staðar. Í raun er samt ekki hægt að flytja hana nema Landhelgisgæslan vildi taka það að sér og ég hef þá trú að þeir vilji það enn, svona sem virðingarvott við sitt gamla skip, og flytja hana yfir. En það er ekki hægt nema í blíðviðri.“

Hann vonast til þess að einhver góðviðrakaflinn nú í sumar verði nýttur til þess að flytja skipið til Akureyrar: „Núna er gluggi.“

Gáfu aleiguna

María Júlía var nefnd eftir Maríu Júlíu Gísladóttur á Ísafirði, en hún og maður hennar, Guðmundur Brynjólfur Guðmundsson, áttu einna stærstan þátt í því að af smíði skipsins gat orðið. Slysavarnasveitir á Vestfjörðum stóðu árum saman fyrir fjársöfnun til þess að standa straum af smíði björgunarskips fyrir Vestfirði, og mest munaði þar um framlag hjónanna sem gáfu aleigu sína í björgunarskútusjóðinn.

Sögulegt og menningarlegt gildi skipsins ætti varla að vefjast fyrir neinum.

María Júlía ásamt bresku freigátunni HMS Russell þann 1. september 1959 þegar eitt ár var liðið frá upphafi fyrsta þorskastríðsins. MYND/Ólafur K. Magnússon/Morgunblaðið
María Júlía ásamt bresku freigátunni HMS Russell þann 1. september 1959 þegar eitt ár var liðið frá upphafi fyrsta þorskastríðsins. MYND/Ólafur K. Magnússon/Morgunblaðið

„Þetta er fyrsta hafrannsóknaskip þjóðarinnar, og fyrir utan björgunarhlutverkið þá er er hún í landhelgisbaráttunni alveg frá upphafi. Þannig að við lítum á Maríu eiginlega sem skip-ið,“ segir Jón og leggur sérstaka áherslu á ákveðna greininn. „Þess vegna erum við að standa í þessu.“

Umfjöllunin birtist upphaflega í sjómannadagsblaði Fiskifrétta 9. júní sl.

Uppfært:

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum 22. júní tillögu forsætisráðherra og umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um að veita 15 milljónum króna af ráðstöfunarfé til að styrkja flutning skipsins í slipp á Húsavík.

Kostnaður við flutning, hreinsun, botnmálun, frágang í tímabundna geymslu og áætlunargerð um næstu skref í endurgerð skipsins er áætlaður um 30 milljónir króna. Ráðgert að útgerðarfyrirtæki á svæðinu muni kosta það sem upp á vantar.