Það er getur stundum verið nútíma Íslendingnum gagnlegt að rifja upp sögu sjómennsku og fiskvinnslu hér við land. Þó að við höfum flest lítil tengsl við sjávarútveginn nú orðið - sérstaklega við sem lifum hér á suðvesturhorninu - þá hefur hann sterk ítök meðal þjóðarinnar og er furðu samofinn sögu og menningu Íslendinga.

Eftir Sigurð Má Jónsson

Lengst af var sjósókn lítið annað en erfiði þar sem sjómenn lögðu gríðarlega mikið á sig, hættu lífi og limum og uppskáru oft heldur lítið. Nú er öldin önnur og fagmennska, þekking og skipulag hefur leyst erfiði þeirra sem á undan komu af hólmi. Það er hins vegar sjálfsagt að heiðra minningu þeirra með því að setja okkur inn í hvernig háttaði til áður fyrr. Góð leið til þess er að lesa ævisögu Theódórs Friðrikssonar, Í verum. Fyrir þá sem vilja hlusta á hana er hún til í lestri Gils heitins Guðmundssonar þingmanns og rithöfundar. Enginn verður svikinn af því að hlusta á þann lestur.

Theódór Friðriksson, sjómaður og rithöfundur skrifaði meðal annars sjálfsævisöguritið Í verum.
Theódór Friðriksson, sjómaður og rithöfundur skrifaði meðal annars sjálfsævisöguritið Í verum.

Bjó alla tíð við kröpp kjör

Theódór (1876–1948) starfaði alla tíð sem sjómaður en er í dag helst minnst sem rithöfundar. Hann fæddist á árabátaöldinni en starfaði á skútum og vélbátum. Nánast alla sína ævi vann hann við sjómennsku eða fiskverkun í landi, í stöðugri baráttu við að sjá sér og sínum farboða. En líf hans var líka sigur andans yfir efninu því það stýrðist af óslökkvandi fróðleiksþorsta og lifandi áhuga á umhverfinu sem hann var einstaklega næmur á, bæði mannlíf og náttúrufar. Theódór byrjaði snemma að fást við skriftir, oft við nánast ómögulegar aðstæður en á síðasta æviskeiði sínu var hann afkastamikill rithöfundur og er helst kunnur fyrir sögu sína Í verum. Það er einstök heimild sem lýsir viðburðaríkri ævi Theódórs og er jafnframt ómetanleg lýsing á lifnaðarháttum alþýðunnar og þeim erfiðleikum sem steðjuðu að þorra fólks á þeim tíma þegar lífsbaráttan var í senn hörð og miskunarlaus. Auk ævisögunnar skrifaði Theódór skáldsögur og smásögur að ekki sé minnst á bókina Hákarlalegur og hákarlamenn sem Bókadeild Menningarsjóðs gaf út 1933.

Myndina tók Magnús Ólafsson af fiskibát í höfn í Vestmanneyjum, sennilega frostaveturinn mikla 1918. Theódór varði drjúgum hluta starfsævinnar í Vestmannaeyjum.
Myndina tók Magnús Ólafsson af fiskibát í höfn í Vestmanneyjum, sennilega frostaveturinn mikla 1918. Theódór varði drjúgum hluta starfsævinnar í Vestmannaeyjum.

Theódór fæddist 27. apríl árið 1876 í Flatey á Skjálfanda og ólst þar upp fram yfir fermingu. Eins og tíðkaðist í bændasamfélagi þess tíma var sjórinn fast sóttur og Theódór réri ungur með föður sínum. Hugur hans stefndi á sjóinn fyrir honum virtist ekki annað liggja en erfiðisvinna. Ungur gerðist Theódór sjómaður á opnum bátum og um tíma var hann í hákarlalegum sem þótti mikil erfiðisvinna og stórhættuleg. Alla ævi bjó hann við afar kröpp kjör og þurfti að strita myrkranna á milli til að sjá fjölskyldu sinni farborða. Þrátt fyrir það var svo komið, að þegar þau hjón skilja þegar Theódór stóð á sextugu, að hann var í raun gjaldþrota. Hann átti ekki þak yfir höfuð sér, hafði horft á eftir tveimur dætrum í gröfina, missti einn son í fæðingu og heilsan tekin að bila. Ef tekið er mið af því er með ólíkindum að hann skyldi hafa afrekað það að verða rithöfundur, hvað þá jafn mikilvægur sem hann var. En það var með hann eins og marga aðra höfunda að þörfin fyrir að skrifa var sterkari en allt mótlætið.

Ljósmynd Kjartans Guðmundssonar, tekin einhvern tíma á árunum 1905-1915, af konu vaska saltfisk í bala við Fjarðará á Seyðisfirði.
Ljósmynd Kjartans Guðmundssonar, tekin einhvern tíma á árunum 1905-1915, af konu vaska saltfisk í bala við Fjarðará á Seyðisfirði.

Færði sjómanninn inn í bókmenntaheiminn

Flestar bækur Theódórs eru samtímasögur þar sem hann lýsir því samfélagi sem hann lifir og hrærist í, sjómannslífinu, hokrinu til sveita en ekki síður mannraunum og hrakningum sem hann oft upplifði sjálfur. Alls staðar skín í gegn þrautseigja, mennskan og að mörgu leyti einstök bjartsýni því margir hefðu látið hugfallast í sporum Theódórs. Það er til dæmis makalaust að lesa hvað Theódór var upprifinn yfir aldamótunum 1900 og bjartsýnn fyrir sína hönd og mannkynsins þarna í miðju allsleysisins. Hann taldi sig skynja nýja tíma og heldur sína fyrstu opinberu ræðu á baðstofulofti í Eyjafirðinum. Hann þurfti að mana sig til þess en lét sig hafa það.

Engin skólaganga

Staða Theódór í bókmenntasögunni er sú að hann ljær því fólki rödd í íslenskum bókmenntum sem ekki hafði átt þar neinn málsvara. Stefán Einarsson, prófessor í Baltimore, bendir á það í bókmenntasögu sinni um fyrstu bók Theódórs, Utan frá sjó (1908), að það sé eftirtektarvert að í þessum sögum stígur fiskimaðurinn í þorpinu fyrst fram á sjónarsvið skáldsögunnar og íslenskra bókmennta. Það var merkilegt að Stefán tæki eftir skrifum Theódórs, búandi alla sína starfsævi fyrir vestan haf. Í fjarlægðinni sá hann mikilvægi höfunda eins og Theódórs. En það er líka eftirtektarvert að fylgjast með Theódór brjótast inn í íslenskan bókmenntaheim því hann virðist fremur hafa litið á sig sem rithöfund en skáld og stíll hans ber það með sér. Frásögnin er hnitmiðuð og knöpp, nánast í Íslendingasagnastíl. Lýsingar hans á vinnuaðferðum er ekki eins og þar fari þjóðháttasafnari heldur spretta þær fram lifandi, áreynslulaust og án tilgerðar. Það er líka forvitnilegt hve margir tóku honum vel. Hann hlaut enga skólagöngu og birtist á dyrahellu margra helstu fræðimanna og skálda og undantekningalaust höfðu þeir áhuga á starfi hans og reyndu að styðja hann. Það var helst að sumir meðal heimamanna tortryggðu tilgang hans með skrifum.

Ljósmynd tekin einhvern tíma á árunum 1916-1920, líklega við Ánanaustavör í Reykjavík. Fjöldi árabáta, sexæringar og fjögurra manna för í lendingunni í Ánanaustum. Í flæðamálinu eru menn að snúast með bát. Líklegt er að Geir G Zoëga vegamálastjóri hafi tekið myndina.
Ljósmynd tekin einhvern tíma á árunum 1916-1920, líklega við Ánanaustavör í Reykjavík. Fjöldi árabáta, sexæringar og fjögurra manna för í lendingunni í Ánanaustum. Í flæðamálinu eru menn að snúast með bát. Líklegt er að Geir G Zoëga vegamálastjóri hafi tekið myndina.

Baráttan við þann gráa

Theódór flutti snemma yfir í Eyjafjörðinn og þar var eitt sterkasta vígi hákarlaveiða hér við land. Það lá því beint við að hann munstraði sig á hákarlaveiðibát. Það var raunar viðtekin venja á tímum hákarlaveiðanna, að þá fóru menn í Fljótum, Eyjafirði og við Skjálfanda seinnipart vetrar á hákarlaskip, jafnt bændur sem unglingar, fyrirvinnur heimilanna. Það var erfið aðstaða á þessum skipum, kalsamt á opnum, vélarlausum seglbátum, skútunum svokölluðu, sem sóttu hákarlinn, sem menn kölluðu þann gráa, í öllum veðrum frá því í febrúar fram á vor. Fyrir kom að það þurfti að hleypa undan veðri, til dæmis ef það gerði snögga og slæma suðvestanátt. Þá þurfti að hleypa undan allt norður að Kolbeinsey og jafnvel norðar. Verstu áttirnar voru að suðvestan og ef gerði harða norðaustanátt. Skipskaðar voru tíðir og áhættan mikil en menn urðu að láta sig hafa það. Theódór lenti oft í hættu en bjargaðist alltaf og hann lýsir þessum mannraunum af fádæma karlmennsku. Í bók sinni um hákarlaveiðar lýsir hann veiðunum eins og þær voru stundaðar norðanlands, einkum frá Eyjafirði. Inn í frásögnina er fléttaður ýmislegur fróðleikur um nafnkennda hákarlaformenn og aðra einkennilega menn sem á vegi Theódórs urðu.

Hákarl lifrarinnar vegna

Nýting hákarls til matar á sér langa sögu á Íslandi. Þegar á 14. öld voru hákarlaveiðar orðnar allmiklar og fóru svo vaxandi. Farið var í svokallaðar hákarlalegur á opnum árabátum og tók hver veiðiferð tvo til fjóra daga eða allt upp í eina til tvær vikur ef afli var tregur eða veður óhagstætt. Þóttu þessar sjóferðir erfiðar. Í bókinni Sjósókn og sjávarfang eftir Jón Þ. Þór segir að á 17. og 18. öld hafi Vestfirðingar og Norðlendingar verið mestir hákarlaveiðimenn hér á landi. Veiðarnar náðu svo hámarki á 19. öldinni þegar þilskip komu til sögunnar auk áraskipanna.

Á tímum Theódórs var hákarlinn fyrst og fremst veiddur vegna lifrarinnar. Hann var hífður upp að lunningunni, skorið á kviðinn, lifrin tekin inn í bátinn og hákarlinum hent aftur í hafið. Hákarlalifrin var mikilvæg útflutningsvara en hún var brædd og notuð meðal annars í götulýsingar stórborga erlendis. Fyrir lifrina fékkst gott verð og margir efnuðust vel á þessari útgerð eins og má sjá í sjávarbæjum fyrir vestan og norðan þar sem hákarlaskipstjórar byggðu myndarleg hús sem mynduðu þannig upphaf byggðar. Mörg þessi hús eru enn í dag bæjarprýði en erfiðið við veiðarnar var miskunnarlaust. Eftir fyrri heimsstyrjöldina gekk hins vegar rafvæðing hratt yfir, eftirspurn eftir lýsi minnkaði, verðið féll og smám saman hvarf þessi atvinnugrein sem hafði verið Íslendingum ábatasöm um skeið.

15 vertíðir í Vestmannaeyjum

Theódór reyndi víða fyrir sér í verum. Hann réri frá Siglufirði, Húsavík, Bolungarvík, Reykjanesi og Vestmannaeyjum. Lýsingar hans eru einstakar heimildir um hve ólíkt var staðið að sjómennskunni á þessum stöðum og ekki síður hve ólíkir Íslendingar voru og hve mikið dám þeir drógu af sinni heimasveit. Ferðalögin í verið voru mannraunir. Oft fór hann fótgangandi og hann virðist ekki hafa vílað fyrir sér að leggja á fjallvegi þó bylur væri í aðsigi. Alltaf komst hann heill í gegnum þetta, hann virðist í senn hafa verið kappsfullur en þó aðgætinn. Einnig notaði hann mikið strandsiglingar og eru áhugaverðar lýsingar af þeim ferðalögum og aðbúnaði fólks um borð.

Einstök sýn í líf vertíðarmanns

Í Vestmannaeyjum vann Theódór þó mest. Lengst af stóð hann þar í aðgerð þó oft færi hann á sjóinn líka. Oft var það þannig að þegar vertíðinni lauk þá fór hann á sjó frá Húsavík þegar hann loksins komst heim. Theódór kom fyrst á vertíð til Vestmannaeyja árið 1920, en hann var alls 15 vertíðir í Eyjum, lengi vel í Stakkagerðiskrónni hjá Gísla Lárussyni en hann kynnist mörgum skipstjórum og útgerðamönnum í Eyjum. Frásögn hans gefur einstaka innsýn í líf vertíðarmanns á þeim umbrotatímum sem urðu í kjölfar vélbátaútgerðar og þeirrar byltingar í lifnaðarháttum sem henni fylgdi. Theódór vann sem aðgerðarmaður. Þurfti hann að sækja allan fisk á handvagni og koma í hús og ægði þá öllu saman við bryggjuna þegar vel fiskaðist. Sjómennirnir köstuðu fiski upp á bryggjuna og þar mynduðust fiskkasir sem fjöldi aðgerðamanna sótti í, hver í kös sinnar útgerðar. Tugir og jafnvel hundruð handvagna gátu verið þarna á ferð á sama tíma og lýsingar Theódórs sýna vel þvílík þrælavinna þetta var allt saman.

Ljósmynd eftir Karl Nielsen, tekin einhvern tíma á árunum 1915-1930, af sjómönnum við lítinn árabát. Einn þeirra er með körfu, sennilega til að ferja fiskinn í land. Maðurinn með körfuna er líklega Kristján Sæmundsson fósturfaðir ljósmyndarans.
Ljósmynd eftir Karl Nielsen, tekin einhvern tíma á árunum 1915-1930, af sjómönnum við lítinn árabát. Einn þeirra er með körfu, sennilega til að ferja fiskinn í land. Maðurinn með körfuna er líklega Kristján Sæmundsson fósturfaðir ljósmyndarans.

Þegar hann sneri heim aftur norður í land eftir sína fyrstu vertíð hafði hann aflað meiri tekna en nokkru sinni áður. Í bjartsýni sinni hvatti hann unga menn til þess að feta í sín fótspor en hraðar breytingar voru þá að eiga sér stað í útgerðarsögu þjóðarinnar um leið og Theódór tók að skrá sögu sína.