Það má að sjálfsögðu leiða rök að því að fiskimjölsverksmiðjurnar í landinu séu of margar, en hafa verður í huga að loðnuvertíð stendur aðeins yfir í skamman tíma og á þarf mikil afköst ef kvótinn á að nást. Loðnuvertíðin í ár er algjör undantekning. Það var til dæmis álit forsvarsmanna SR-Mjöls á þeim tíma sem við byggðum verksmiðjuna upp að tilkoma hennar myndi gera út af við fiskimjölsiðnaðinn í landinu og að verksmiðjan myndi aldrei standa undir sér. Þeir gerðu sérstaka skýrslu um málið og hún var svo send inn í Landsbankann, af þeim sem sögðust unna frelsinu. Þessi ótrúlegu vinnubrögð voru ekki til að auðvelda málið og hefðu nú ekki verið talin góð á einhverjum öðrum bæjum.
Þetta segir Gísli Jónatansson, kaupfélagsstjóri á Fáskrúðsfirði og framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar í samtali við Fiskifréttir um viðbrögð keppinautanna við áformum Fáskrúðsfirðinga fyrir rúmum áratug um að reisa nýja fiskimjölsverksmiðju á staðnum.
Þessir spádómar hafa hins vegar ekki gengið eftir því fiskimjölsverksmiðja Loðnuvinnslunnar hefur alltaf staðið við skuldbindingar sínar og segir Gísli að aðeins hvíli um 200 milljónir á henni í dag.
„Hagnaður Loðnuvinnslunnar á síðasta ári nam 44 milljónum króna, en var um 80 milljónir króna árið áður. Þetta er fyrst og fremst háu gengi og háu eldsneytisverði að kenna,“ segir hann.
Illa staðið að loðnurannsóknunum í vetur
Frá því fiskimjölsverksmiðja Loðnuvinnslunnar var byggð á Fáskrúðsfirði hafa flestar þær verksmiðjur, sem enn eru starfræktar, verið stækkaðar til muna og nýjar byggðar, þótt aðrar minni og ófullkomnari hafi verið lagðar af. Um nýliðna loðnuvertíð segir Gísli:
„Ég held að ekki hafi verið staðið nægilega vel að loðnuleitinni í ár. Það hefði átt að gefa út einhvern lágmarkskvóta, til dæmis 100 þúsund tonn. Þá hefðu fleiri skip farið af stað og menn náð mun betur utan um þetta. Sumarveiðar á loðnu ætti ekki að leyfa því eftir að þær byrjuðu hvarf stóra loðnan,sem fór fyrir göngunum.“
Staða íslensku krónunnar hefur valdið erfiðleikum í sjávarútvegi og menn ekki á eitt sáttir, en Gísli býst þó við að þar rætist úr fyrr en síðar.
„Já það er rétt. Þetta háa gengi íslensku krónunnar hefur staðið útflutningsgreinunum mjög fyrir þrifum, ásamt hinu gífurlega háa eldsneytisverði. Trúlega á þó krónan eftir að slakna nokkuð þegar líður á árið. Ég býst fastlega við því.“
Samruni fyrirtækja
Loðnuvinnslan hf. á Fáskrúðsfirði varð til í núverandi mynd á haustmánuðum árið 2001 og rekstur hófst 1. janúar árið eftir. Áður hafði fyrirtæki með sama nafni verið stofnað árið 1994 og rekið nýja fiskimjölsverksmiðju á staðnum frá því í ársbyrjun 1996. En árið 2001 rann rekstur þess saman við sjávarútvegshluta og iðnaðarstarfsemi Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga, sem á sér yfir 70 ára sögu, var stofnað í ágúst árið 1933.
Eftir samrunann varð Kaupfélagið að eignarhaldsfélagi, sem komið hefur sínum rekstri fyrir í hlutafélagi eins og algengast er í dag. Kaupfélagið er nú móðurfélag og aðaleigandi Loðnuvinnslunnar hf. með ríflega 82% eignarhlut. Hluthafar eru þó mun fleiri, eða vel á þriðja hundrað en þeir 10 stærstu eiga ríflega 96% hlut.
Langstærsti vinnuveitandinn
Loðnuvinnslan rekur nú fyrrgreinda fiskimjölsverksmiðju en að auki starfsemi sem Kaupfélagið sá um áður, þ.e. frystihús, síldarsöltun, vélaverkstæði, rafmagnsverkstæði og trésmíðaverkstæði. Þá gerir fyrirtækið út tvö fiskiskip, ísfisktogarann Ljósafell SU-70 og nóta- og flotrollsskipið Hoffel SU-80.
Til viðbótar þessu starfrækir Loðnuvinnslan frysti- og kæligeymslu á viðlegukanti Fáskrúðsfjarðarhafnar og ísframleiðslu með sjálfvirkri afgreiðslu. Auk þess er fyrirtækið með umboð fyrir Olíufélagið hf. Nálægt 160 manns starfa að jafnaði hjá fyrirtækinu en hátt í 100 til viðbótar komast árlega á launaskrá þess. Þetta er ekki lítið þegar horft er til stærðar samfélagsins en íbúar í þéttbýlinu á Fáskrúðsfirði voru rúmlega 620 þann 1. desember síðastliðinn.