Konráð Eggertsson hrefnuveiðimaður eða HrefnuKonni eins og hann er oftast kallaður sagði að vísindaveiðunum væri lokið í bili en eftir er að veiða nokkur dýr í september. Að þessu sinni voru veidd 33 dýr en eftir er að veiða 6 til viðbótar.
„Miðað við að um vísindaveiðar er að ræða hafa veiðarnar gengið vel. Það gilda allt öðruvísi reglur um vísindaveiðar en atvinnuveiðar og við hefðum getað veitt þessi dýr á fáeinum dögum ef um atvinnuveiðar hefði verið að ræða. Við vísindaveiðar þarf að elta dýrið í ákveðinn tíma áður en hægt er að snúa sér að öðru dýri. Reglurnar kveða á um að keyra verði 10 mílur áður en næsta dýr er skotið. Miðunum er líka skipt í svæði og sem dæmi um það nær eitt svæði frá Látrabjargi að Reykjafjarðarál og annað frá Reykjafjarðarál að Máná. Svo er svæðunum líka skipt í djúp og grunn. Þannig að reglurnar eru mjög strangar,“ sagði Konráð.
Allt kjötið selt
„Markaðurinn fyrir hrefnukjöt er mjög góður og við erum búnir að selja allt kjötið. Ég reikna með að bátar fari fljótlega til veiða að sækja meira. Auk dýranna sem veidd eru í vísindaskyni megum við veiða 30 hrefnur til viðbótar í atvinnuskyni sem eftir er að veiða af kvóta yfirstandandi fiskveiðiárs. Það á enn eftir að koma í ljós hvort við veiðum öll dýrin því við ætlum eingöngu að veiða eins og markaðurinn tekur á móti. Satt best að segja hefur markaðurinn hér heima verið vonum framar og allt kjötið selst innanlands enda um úrvalskjöt að ræða,“ sagði Konráð.
Vantar líf í sjóinn
„Ég er búinn að sigla um svæðið frá Látrabjargi og austur fyrir Héraðsflóa undanfarin fimm ár. Bæði fram og til baka, djúpt og grunnt, aftur og bak og áfram – alveg eins og höfuðsóttarveik rolla. Stundum hefur verið blankalogn og dauðasléttur sjór og það er ekkert líf að sjá svo langt sem augað eygir. Það vantar allt líf í sjóinn hvort sem það er á Hornbanka, Reykjafjarðarál, Sporða- eða Skagagrunni og í kringum Grímsey.“
Hnúfubakurinn étur allt sem að kjafti kemur
„Í gamla daga var þarna allt vaðandi í fuglum og lífi en í dag er ekkert að sjá. Ef við sjáum fugli bregða fyrir þá er hann á leiðinni norður eða norðaustur í leit að fæði en hvert hann fer veit enginn því okkur hefur aldrei tekist að elta hann nógu langt. Satt best að segja er ástandið á miðunum skelfilegt og enginn „spretta” og það er allt saman hnúfubakinum að kenna. Gríðarlegur fjöldi af hnúfubak er á miðunum og við höfum ekki hugmynd um hvað hann étur mikið en ég er sannfærður um það að hann er tækifærissinni í fæðuvali alveg eins og hrefnan og étur allt sem að kjafti kemur,“ sagði Konráð.
Skelfilegt að heyra umhverfisráðherra tala
„Mér þykir skelfilegt að heyra nýja umhverfisráðherrann segja að hún vilji hætta hvalveiðum. Fólk sem er kosið í ábyrgðarstöðu má ekki tala svona út í loftið áður en það kynnir sér málið. Þetta er ekkert annað en lýðskrum og skelfilegt að það skuli vera hægt að plata fólk í landi til að trúa hverju sem er.“
Hraðbyr til andskotans
„Í fyrsta skiptið í sumar sem ég sá loðnu á Hornbanka og í Reykjafjarðarál voru hnúfubakar svo þúsundum skipti allt í kringum hana eins og girðingar í allar áttir. Ég er ansi hræddur um að það sama sé að gerast hjá okkur eins og gerðist á miðunum við Nýfundnaland þegar þorskstofninn þar hrundi. Mennirnir og hnúfubakurinn hjálpuðust að við að klára loðnuna og í framhaldi af því hvarf þorskurinn. Ef niðurskurðurinn í þorskveiðum á næsta ári á að skila árangri verðum við að hefja veiðar á hnúfubak sem allra fyrst annars siglum við á hraðbyr til andskotans,“ sagði Konráð Eggertsson hrefnusjómaður að lokum.
Konráð Eggertsson hrefnuveiðimaður eða HrefnuKonni eins og hann er oftast kallaður sagði að vísindaveiðunum væri lokið í bili en eftir er að veiða nokkur dýr í september. Að þessu sinni voru veidd 33 dýr en eftir er að veiða 6 til viðbótar.
„Miðað við að um vísindaveiðar er að ræða hafa veiðarnar gengið vel. Það gilda allt öðruvísi reglur um vísindaveiðar en atvinnuveiðar og við hefðum getað veitt þessi dýr á fáeinum dögum ef um atvinnuveiðar hefði verið að ræða. Við vísindaveiðar þarf að elta dýrið í ákveðinn tíma áður en hægt er að snúa sér að öðru dýri. Reglurnar kveða á um að keyra verði 10 mílur áður en næsta dýr er skotið. Miðunum er líka skipt í svæði og sem dæmi um það nær eitt svæði frá Látrabjargi að Reykjafjarðarál og annað frá Reykjafjarðarál að Máná. Svo er svæðunum líka skipt í djúp og grunn. Þannig að reglurnar eru mjög strangar,“ sagði Konráð.
Allt kjötið selt
„Markaðurinn fyrir hrefnukjöt er mjög góður og við erum búnir að selja allt kjötið. Ég reikna með að bátar fari fljótlega til veiða að sækja meira. Auk dýranna sem veidd eru í vísindaskyni megum við veiða 30 hrefnur til viðbótar í atvinnuskyni sem eftir er að veiða af kvóta yfirstandandi fiskveiðiárs. Það á enn eftir að koma í ljós hvort við veiðum öll dýrin því við ætlum eingöngu að veiða eins og markaðurinn tekur á móti. Satt best að segja hefur markaðurinn hér heima verið vonum framar og allt kjötið selst innanlands enda um úrvalskjöt að ræða,“ sagði Konráð.
Vantar líf í sjóinn
„Ég er búinn að sigla um svæðið frá Látrabjargi og austur fyrir Héraðsflóa undanfarin fimm ár. Bæði fram og til baka, djúpt og grunnt, aftur og bak og áfram – alveg eins og höfuðsóttarveik rolla. Stundum hefur verið blankalogn og dauðasléttur sjór og það er ekkert líf að sjá svo langt sem augað eygir. Það vantar allt líf í sjóinn hvort sem það er á Hornbanka, Reykjafjarðarál, Sporða- eða Skagagrunni og í kringum Grímsey.“
Hnúfubakurinn étur allt sem að kjafti kemur
„Í gamla daga var þarna allt vaðandi í fuglum og lífi en í dag er ekkert að sjá. Ef við sjáum fugli bregða fyrir þá er hann á leiðinni norður eða norðaustur í leit að fæði en hvert hann fer veit enginn því okkur hefur aldrei tekist að elta hann nógu langt. Satt best að segja er ástandið á miðunum skelfilegt og enginn „spretta” og það er allt saman hnúfubakinum að kenna. Gríðarlegur fjöldi af hnúfubak er á miðunum og við höfum ekki hugmynd um hvað hann étur mikið en ég er sannfærður um það að hann er tækifærissinni í fæðuvali alveg eins og hrefnan og étur allt sem að kjafti kemur,“ sagði Konráð.
Skelfilegt að heyra umhverfisráðherra tala
„Mér þykir skelfilegt að heyra nýja umhverfisráðherrann segja að hún vilji hætta hvalveiðum. Fólk sem er kosið í ábyrgðarstöðu má ekki tala svona út í loftið áður en það kynnir sér málið. Þetta er ekkert annað en lýðskrum og skelfilegt að það skuli vera hægt að plata fólk í landi til að trúa hverju sem er.“
Hraðbyr til andskotans
„Í fyrsta skiptið í sumar sem ég sá loðnu á Hornbanka og í Reykjafjarðarál voru hnúfubakar svo þúsundum skipti allt í kringum hana eins og girðingar í allar áttir. Ég er ansi hræddur um að það sama sé að gerast hjá okkur eins og gerðist á miðunum við Nýfundnaland þegar þorskstofninn þar hrundi. Mennirnir og hnúfubakurinn hjálpuðust að við að klára loðnuna og í framhaldi af því hvarf þorskurinn. Ef niðurskurðurinn í þorskveiðum á næsta ári á að skila árangri verðum við að hefja veiðar á hnúfubak sem allra fyrst annars siglum við á hraðbyr til andskotans,“ sagði Konráð Eggertsson hrefnusjómaður að lokum.