„Ég var úti á dekki og var að fylgjast með netaspilinu þegar ég sá tvo mjög stóra og fallega þorska koma upp undir yfirborðið. Sá stærri losnaði úr netinu þegar hann kom upp úr sjónum en sem betur fer var ég með haka í hendinni og mér tókst á síðustu stundu að krækja í hann áður en hann hvarf í djúpið. Við náðum honum við borð við illan leik og þá kom í ljós að þetta var stærsti þorskur sem við höfðum nokkru sinni séð,“ segir Gunnlaugur Konráðsson, skipstjóri á Naustavík EA.
Gunnlaugur og áhöfn hans fengu 167 sentímetra langan og 46 kílóa þungan þorsk á netaveiðum undan Eystrahorni í mars 1993. Gunnlaugur segir að þótt skipverjum hafi þótt þorskurinn merkilega stór þá haft ekki annað staðið til en að gera að honum í landi og verka hann í salt á hefðbundinn hátt.
Hafró hirti 46 kílóa þorsk
„Af einhverjum ástæðum langaði mig þó til þess að vita hvað þorskurinn væri þungur áður en gert væri að honum. Við blóðguðum fiskinn úti á sjó en síðan var gert að aflanum í aðgerðaraðstöðu sem við höfðum á Höfn í Hornafirði. Það var engin nægilega stór vigt í aðgerðaraðstöðunni þannig að ég hringdi í verkstjórann hjá frystihúsi KASK og spurði hann að því hvort hann gæti ekki vigtað þorskinn fyrir okkur. Það var auðsótt mál og ég fór með þorskinn á pallbíl niður í KASK þar sem vigtin var.
Þegar þangað var komið biðu mín skilaboð frá Jakobi Jakobssyni, fiskifræðingi og þáverandi forstjóra Hafrannsóknastofnunar, þess efnis að hann vildi gjarnan fá fiskinn sendan til Reykjavíkur. Ég gat ekki annað en orðið við þeirri beiðni og því var þorskurinn heilfrystur hjá KASK áður en hann var sendur til Hafrannsóknastofnunar. Það var nú aldrei meiningin að gefa stofnuninni þorskinn enda taldi ég að hægt hefði verið að fá um 20 kíló af saltfiski í hæsta gæðaflokki úr þessum eina fiski,“ segir Gunnlaugur.
Sendi aldrei reikning
Þess má geta að við rannsóknir hjá Hafrannsóknastofnun kom í ljós að þorskurinn var 20 ára gamall. Að loknum rannsóknum var þorskurinn stoppaður upp og er hann nú varðveittur í húsakynnum Hafrannsóknastofnunar að Skúlagötu 4.
„Ég sendi aldrei reikning vegna fisksins en eftir að ég sá hann uppstoppaðan og ómerktan hjá Hafró þá setti ég mig í samband við Jóhann Sigurjónsson, sem nú er forstjóri, og sagði honum að það væri lágmark að sett væri smá skilti við fiskinn þar sem greint væri frá því hvenær hann hefði veiðst og hverjir hefðu þar verið að verki. Við því var orðið og við það er ég sáttur.“
Þorskanótin veiddi þessa stóru þorska
Gunnlaugur segir að þegar stóri þorskurinn veiddist hafi verið frekar leiðinlegt veður, fimm stiga frost og hálfgerð bræla. Netin voru með 7,5 tommu riðli og því hefði sá stóri aldrei ánetjast nema vegna þess að gat var á netinu.
„Hann festi hausinn í gati sem samsvaraði stærð fjögurra möskva og því má segja að við höfum veitt hann í 15 tommu riðil. Hinn þorskurinn, sem kom strax á eftir, var fastur í tveggja möskva gati og sá vó 37 kíló óaðgerður. Ég er þeirrar skoðunar að við hefðum ekki náð þessum fiskum ef við hefðum verið á stærra skipi. Á stærri netabátunum eru oft um tveir metrar frá yfirborðinu og upp að borðstokknum og fiskar af þessari stærð hefðu örugglega dottið úr netunum og sloppið ef reynt hefði verið að hífa þá svo hátt,“ segir Gunnlaugur.
Nú orðið segir Gunnlaugur að mjög sjaldgæft sé að fá þorska sem eru meira en 25 kíló að þyngd.
„Þegar ég var á þorskanót á Þorbirni II árið 1961 þá vorum við oft að fá tvö til þrjú tonn í kasti af þorskum sem voru örugglega 30 til 40 kíló að þyngd og sumir hafa örugglega verið þyngri. Ég man það að það hélt enginn þessum fiskum á dekkinu. Það var sama hvernig menn reyndu að koma höndum á þá, þeir sneru sig alltaf lausa. Eina leiðin til þess að stoppa þá af var að setja hnífinn í hausinn á þeim þar sem þeir veltust um á dekkinu,“ segir Gunnlaugur en hann segist einu sinni hafa fengið stóran þorsk í net fyrir norðan land en Gunnlaugur er frá Árskógssandi.
Forljótur og rýr
Sá þorskur var 36 kíló að þyngd, forljótur og rýr á skrokkinn eftir því sem Gunnlaugur segir frá.
Gunnlaugur segist vera þeirrar skoðunar að þessir risastóru þorskar séu enn til en hann telji að þeir fari sínar eigin leiðir í ætisleit þótt hann skili sér upp að ströndinni á hrygningartímanum.
„Þorskar af þessari stærð þurfa örugglega að éta gríðarlega mikið. Þeir éta allt sem kjafti kemur og eru sannkallaðir ránfiskar. Ég held að stóru þorskarnir séu ekki mjög botnlægir heldur séu þeir uppi í sjó og til þess að hægt sé að veiða þá í net þá þyrfti sennilega að vera 14 til 16 tommu möskvi í netunum,“ segir Gunnlaugur.