„Ég hef ekki orðið var við áhuga íslenskra útgerðarmanna á kolmunnaveiðum enda brenndu þeir sig rækilega á tilraunum til þessara veiða við Færeyjar hérna um árið. Aðstaða Norðmanna til kolmunnaveiða er allt önnur en okkar. Þeir hafa leyfi til þess að athafna sig við Bretlandseyjar í lögsögu Evrópusambandsins, þar sem veiðarnar hafa aðallega farið fram á hrygningartímanum síðustu árin, og geta síðan fylgt kolmunnanum eftir inn í landhelgi Færeyja og Noregs þegar hann gengur norður á bóginn á sumrin í ætisleit,“ sagði Kristján Ragnarsson formaður LÍÚ í samtali við Fiskifréttir þann 2. desember 1994.
Ekki ferð til fjár
Á árunum í kringum 1980 var töluverður áhugi á því hérlendis að gera út á kolmunna og styrkti sjávarútvegsráðuneytið fimm skip, Börk, Eldborgu, Grindvíking, Jón Kjartansson og Júpiter, til veiða í færeyskri lögsögu. Afar lítið aflaðist og varð ferðin ekki til fjár.
Kolmunninn hentar mun síður í bræðslu en t.d. loðna, því fitan er aðeins 3-8% og fitufrítt þurrefni 18-20%. Gerð var tilraun til þess að flaka og frysta aflann um borð í Eldborgu en það dæmi gekk ekki upp.
Eins og kunnugt ætluðu bæði Færeyingar og Norðmenn að taka kolmunnavinnslu með trompi en sátu eftir með sárt ennið. Á þeim tíma voru menn að vonast til þess að fyrir flakaðan kolmunna fengist svipað verð og fyrir ufsa, en þær vonir brugðust.
Mokveiði í Bakkaflóadýpi
Börkur NK frá Neskaupstað var einna iðnastur við kolmunnaveiðarnar á sínum tíma, en Jóhann K. Sigurðsson framkvæmdastjóri hjá Síldarvinnslunni hf. tjáði Fiskifréttum að útgerðin hefði ekki hagnast af þessum veiðiskap. Hann hefði útheimt mikla olíueyðslu og álag á vélar, en eftirtekjan verið rýr.
Ekki væri á döfinni að senda Börk aftur á kolmunna enda væri skipið ekki lengur útbúið til flotvörpuveiða, auk þess sem Börkur og önnur skip Síldarvinnslunnar hefðu arðbærari verkefnum að sinna.
Magni Kristjánsson var skipstjóri á Berki flest árin sem skipið var á kolmunnaveiðum. Hann minnist árvissrar veiði í maímánuði sunnan við Færeyjar þegar kolmunninn var að ganga norður á bóginn og þá fékkst stundum ágætisafli í 2-3 túrum, en sigling til hafnar var löng og afurðaverð lágt.
Á árunum 1977 og 1978 gekk kolmunninn nær Íslandi og veiddist 20-45 mílur frá landi.
„Við vorum í Bakkaflóadýpinu á leið á loðnu árið 1977 þegar við lentum í miklum kolmunnalóðningum. Við höfðum flottrollsbúnaðinn meðferðis og mokveiddum, fengum 3-4 þús. tonn á 20 dögum. Eftir það hættum við veiðum, þótt áfram væri mokafli, og héldum þess í stað á loðnu því verðið fyrir kolmunnann var svo slakt,“ sagði Magni.
Veiðiheimildir við Færeyjar fáanlegar
Í samningi Íslendinga og Færeyinga um fiskveiðiheimildir hafa íslensk skip leyfi til að veiða síld og makríl í færeyskri lögsögu en ekki kolmunna. Að sögn Jóns B. Jónassonar, skrifstofustjóra í sjávarútvegsráðuneytinu, væri örugglega hægt að fá að veiða kolmunna við Færeyjar ef eftir því væri sóst.
„Við höfum hins vegar ekki orðið varir við neinn áhuga íslenskra útgerðarmanna á kolmunnanum,“ sagði Jón.
Eins og fram kom hér að framan stendur tvennt aðallega í vegi fyrir því að kolmunnaveiðar séu fýsilegur kostur fyrir Íslendinga. Annars vegar það að veiðin á undanförnum árum hefur aðallega farið fram í lögsögu ESB og hins vegar að erfiðlega hefur gengið að vinna úr kolmunnanum verðmæta vöru til manneldis.
Forsendur gætu hins vegar gjörbreyst ef til dæmis tækist að gera fyrsta flokks surimi úr þessum fiski, eins og stefnt er að í sameiginlegu tilraunaverkefni Norðmanna, Japana og Færeyinga, sem áður var minnst á.
Harðfiskur úr kolmunna
En fleiri vinnslumöguleikar eru fyrir hendi. „Ég held að skynsamlegasta nýtingin á kolmunnanum sé sú að þurrka hann og selja ýmist sem skreið eða harðfisk,“ sagði Grímur Valdimarsson, forstjóri Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, í samtali við Fiskifréttir.
„Við gerðum á sínum tíma tilraun til að þurrka kolmunna fyrir Nígeríumarkað og þessi vara fékk góðar móttökur þar syðra. Hins vegar held ég að það sé ekki síður áhugavert að gera úr kolmunnanum harðfisk og harðfiskflök til sölu í Suðaustur-Asíu. Mér vitanlega hafa engir prófað að fara með þurrkaðan kolmunna inn á þennan stóra harðfiskmarkað. Kolmunninn er magur fiskur og gott að þurrka hann og við kunnum verklagið,“ sagði Grímur.
Grímur telur ástæðulaust fyrir Íslendinga að afskrifa kolmunnann sem nytjafisk þótt ýmsir aðrir möguleikar virðist fýsilegri fyrir íslenska útgerð.
„Ég tel að full ástæða sé til þess að gefa kolmunnanum gaum, en það þarf að styrkja útgerðirnar til slíkra verkefna, því áhættan er of mikil fyrir einstakar útgerðir.“
„Ég hef ekki orðið var við áhuga íslenskra útgerðarmanna á kolmunnaveiðum enda brenndu þeir sig rækilega á tilraunum til þessara veiða við Færeyjar hérna um árið. Aðstaða Norðmanna til kolmunnaveiða er allt önnur en okkar. Þeir hafa leyfi til þess að athafna sig við Bretlandseyjar í lögsögu Evrópusambandsins, þar sem veiðarnar hafa aðallega farið fram á hrygningartímanum síðustu árin, og geta síðan fylgt kolmunnanum eftir inn í landhelgi Færeyja og Noregs þegar hann gengur norður á bóginn á sumrin í ætisleit,“ sagði Kristján Ragnarsson formaður LÍÚ í samtali við Fiskifréttir þann 2. desember 1994.
Ekki ferð til fjár
Á árunum í kringum 1980 var töluverður áhugi á því hérlendis að gera út á kolmunna og styrkti sjávarútvegsráðuneytið fimm skip, Börk, Eldborgu, Grindvíking, Jón Kjartansson og Júpiter, til veiða í færeyskri lögsögu. Afar lítið aflaðist og varð ferðin ekki til fjár.
Kolmunninn hentar mun síður í bræðslu en t.d. loðna, því fitan er aðeins 3-8% og fitufrítt þurrefni 18-20%. Gerð var tilraun til þess að flaka og frysta aflann um borð í Eldborgu en það dæmi gekk ekki upp.
Eins og kunnugt ætluðu bæði Færeyingar og Norðmenn að taka kolmunnavinnslu með trompi en sátu eftir með sárt ennið. Á þeim tíma voru menn að vonast til þess að fyrir flakaðan kolmunna fengist svipað verð og fyrir ufsa, en þær vonir brugðust.
Mokveiði í Bakkaflóadýpi
Börkur NK frá Neskaupstað var einna iðnastur við kolmunnaveiðarnar á sínum tíma, en Jóhann K. Sigurðsson framkvæmdastjóri hjá Síldarvinnslunni hf. tjáði Fiskifréttum að útgerðin hefði ekki hagnast af þessum veiðiskap. Hann hefði útheimt mikla olíueyðslu og álag á vélar, en eftirtekjan verið rýr.
Ekki væri á döfinni að senda Börk aftur á kolmunna enda væri skipið ekki lengur útbúið til flotvörpuveiða, auk þess sem Börkur og önnur skip Síldarvinnslunnar hefðu arðbærari verkefnum að sinna.
Magni Kristjánsson var skipstjóri á Berki flest árin sem skipið var á kolmunnaveiðum. Hann minnist árvissrar veiði í maímánuði sunnan við Færeyjar þegar kolmunninn var að ganga norður á bóginn og þá fékkst stundum ágætisafli í 2-3 túrum, en sigling til hafnar var löng og afurðaverð lágt.
Á árunum 1977 og 1978 gekk kolmunninn nær Íslandi og veiddist 20-45 mílur frá landi.
„Við vorum í Bakkaflóadýpinu á leið á loðnu árið 1977 þegar við lentum í miklum kolmunnalóðningum. Við höfðum flottrollsbúnaðinn meðferðis og mokveiddum, fengum 3-4 þús. tonn á 20 dögum. Eftir það hættum við veiðum, þótt áfram væri mokafli, og héldum þess í stað á loðnu því verðið fyrir kolmunnann var svo slakt,“ sagði Magni.
Veiðiheimildir við Færeyjar fáanlegar
Í samningi Íslendinga og Færeyinga um fiskveiðiheimildir hafa íslensk skip leyfi til að veiða síld og makríl í færeyskri lögsögu en ekki kolmunna. Að sögn Jóns B. Jónassonar, skrifstofustjóra í sjávarútvegsráðuneytinu, væri örugglega hægt að fá að veiða kolmunna við Færeyjar ef eftir því væri sóst.
„Við höfum hins vegar ekki orðið varir við neinn áhuga íslenskra útgerðarmanna á kolmunnanum,“ sagði Jón.
Eins og fram kom hér að framan stendur tvennt aðallega í vegi fyrir því að kolmunnaveiðar séu fýsilegur kostur fyrir Íslendinga. Annars vegar það að veiðin á undanförnum árum hefur aðallega farið fram í lögsögu ESB og hins vegar að erfiðlega hefur gengið að vinna úr kolmunnanum verðmæta vöru til manneldis.
Forsendur gætu hins vegar gjörbreyst ef til dæmis tækist að gera fyrsta flokks surimi úr þessum fiski, eins og stefnt er að í sameiginlegu tilraunaverkefni Norðmanna, Japana og Færeyinga, sem áður var minnst á.
Harðfiskur úr kolmunna
En fleiri vinnslumöguleikar eru fyrir hendi. „Ég held að skynsamlegasta nýtingin á kolmunnanum sé sú að þurrka hann og selja ýmist sem skreið eða harðfisk,“ sagði Grímur Valdimarsson, forstjóri Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, í samtali við Fiskifréttir.
„Við gerðum á sínum tíma tilraun til að þurrka kolmunna fyrir Nígeríumarkað og þessi vara fékk góðar móttökur þar syðra. Hins vegar held ég að það sé ekki síður áhugavert að gera úr kolmunnanum harðfisk og harðfiskflök til sölu í Suðaustur-Asíu. Mér vitanlega hafa engir prófað að fara með þurrkaðan kolmunna inn á þennan stóra harðfiskmarkað. Kolmunninn er magur fiskur og gott að þurrka hann og við kunnum verklagið,“ sagði Grímur.
Grímur telur ástæðulaust fyrir Íslendinga að afskrifa kolmunnann sem nytjafisk þótt ýmsir aðrir möguleikar virðist fýsilegri fyrir íslenska útgerð.
„Ég tel að full ástæða sé til þess að gefa kolmunnanum gaum, en það þarf að styrkja útgerðirnar til slíkra verkefna, því áhættan er of mikil fyrir einstakar útgerðir.“