Mælingum á sumargotssíldinni er nú lokið en rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson RE kom úr um hálfs mánaðar síldarleiðangri fyrir vestan land nú í byrjun vikunnar. Fyrr í vetur var austursvæðið kannað.

„Lokaniðurstöður liggja ekki enn fyrir en í almennum orðum má segja að ástand síldarstofnsins sé í góðu lagi. Tveir árgangar eru mjög góðir, einkum þó 1999 árgangurinn sem er að koma inn í hrygninguna,“ sagði Páll Reynisson, leiðangursstjóri um borð í Bjarna Sæmundssyni RE, í samtali við Fiskifréttir.

Demantssíldin lét ekki sjá sig

Í leiðangrinum að þessu sinni  var svæðið frá Grindavíkurdjúpi og allt norður að Hornbanka kannað. Páll sagði að töluvert hefði fundist af síld í Kolluálnum,  Dritvíkurgrunni og nyrst í Jökuldjúpi, en demantssíldin hefði ekki látið sjá sig. Þá fannst nokkuð af kræðu við Hornbankann.

Fyrir áramótin var mæld síld fyrir austan land. Þar fannst töluvert af millisíld og smásíld. Eitthvað fannst af stærri síld á Vopnafjarðargrunni en síldin smækkaði eftir því sem sunnar dró.

Páll var spurður hvort stóra síldin væri uppurin þar sem hún kom lítið fram í veiðinni á vertíðinni?

„Við fundum enga demantssíld í leiðöngrum okkar og það er lítið af stóru síldinni yfirleitt. Menn rákust þó aðeins á hana í byrjun vertíðarinnar á Halanum og á Vopnafjarðargrunni. Að öðru leyti hefur stóra síldin ekki fundist á þessari vertíð, hvorki af veiðiskipum né í rannsóknaleiðangrinum.“

Smærri síld

Samsetning síldarinnar sem fannst í leiðangrinum var með svipuðu sniði og í  leiðangrinum fyrir ári síðan. Þó var heldur minna af síld yfir 33 sentímetrar að lengd en mun meira af síld milli 28 og 30 sentímetra. Er þar um að ræða árganginn frá 1999 en ljóst er að sá árgangur er mjög stór.

Fram kom hjá Páli að við mat á hrygningarstofninum er reiknað með að síldin verði kynþroska fjögurra ára. Svo virðist einnig vera í stóra árganginum frá 1999, en þó virðist sem hann hafi vaxið hægar en verið hefur hjá undanförnum árgöngum og má hugsanlega tengja það stærð árgangsins. Það er meðal annars ástæðan fyrir breyttum viðmiðunarmörkum við veiðarnar, en þau voru eins og kunnugt er lækkuð síðast liðið haust.

Bjartsýnn á veiðar á næstu árum

Eftir er að rannsaka þau sýni sem tekin voru í leiðangrinum og vinna nánar úr þeim gögnum sem safnað var áður en endanlegt mat á stærð síldarstofnsins verður gefið út.

Páll sagðist vera bjartsýnn á síldveiðar á næstu árum.

„Við fundum töluvert magn af eins árs síld eða kræðu fyrir norðan land í loðnuleiðangri síðast liðið haust, það er 2002 árganginn. Miðað við hvað 1999 árgangurinn mældist stór sem kræða árið 2000 og það hvað hann hefur skilað sér vel í veiðinni sem fjögurra ára síld er ekki ástæða til svartsýni. Það eru sterkir árgangar að vaxa upp. Síldin er því ekki að hverfa af miðunum þótt ekki sé mikið af demantssíld.“