Árleg vöktun grjótkrabba á vegum Náttúrustofu Suðvesturlands og Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurnesjum leiddi í ljós að grjótkrabba vex ásmegin í íslenskri náttúru og var hann 95% alls afla í gildruveiðum í sumar. Dr. Sindri Gíslason, forstöðumaður Náttúrustofu Suðvesturlands, segir grjótkrabbann mögulegan vágest og útbreiðslu hans á um 80% allrar strandlengju Íslands hafa gerst á undrahraða.

Eins og Fiskifréttir greindu frá í ársbyrjun 2018 hafa verið leiddar að því líkur að grjótkrabbi, sem er norður-amerísk krabbategund, hafi borist hingað til lands með kjölfestuvatni flutningaskips rétt fyrir aldamótin 2000. Pálmi Dungal áhugakafari fann fyrsta fullorðna grjótkrabbann árið 2006 í Hvalfirði. Hann hefur hvergi fundist utan náttúrulegra heimkynna sinna nema hér við Ísland. Nú hefur hann breiðst út á um 80% allrar strandlengju Íslands og er í miklu magni á vöktunarsvæðum Náttúrustofu Suðvesturlands og Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurnesjum í Faxaflóa.

Úr 50% í 95% af öllum afla

Vöktunin fer þannig fram að yfir sumarmánuðina, júní, júlí og ágúst, eru lagðar gildrur í Hvalfirði á ákveðnu sniði með dýptarfallanda frá 10 m niður á 60 metra dýpi. Einnig eru svifsýni tekin í uppsjó með þartilgerðum háf. Fer sá hluti vöktunarinnar fram á föstum stöðvum í Hvalfirði og innanverðum Faxaflóa. Vöktunin hefur farið fram árlega allt frá árinu 2007 að árinu 2016 undanskildu.

„Við sjáum það yfir þennan árafjölda að hlutdeild grjótkrabba í gildruveiðum er stöðugt að aukast. Á vöktunarstöðum okkar er grjótkrabbi orðinn yfir 90% af heildarafla en var í upphafi vöktunarinnar rétt yfir 50%. Hlutdeild grjótkrabba í afla hefur því aukist mikið en ekki er vitað hvort það sé á kostnað annarra krabbategunda, eins og bogkrabba og trjónukrabba, því vöktun á þeim var engin áður en vöktun á grjótkrabba hófst,“ segir Sindri.

Mesti þéttleiki sem þekkist

Hann segir að grjótkrabbi sé hugsanlega ágeng tegund. Náttúrustofa Suðvesturlands, Rannsóknasetur Háskóla Ísland og Hafrannsóknastofnun stóðu fyrir tilraun til fjögurra ára, árin 2011-2014. til að meta þéttleika á sundunum við Reykjavík. Merktir voru hátt í 6 þúsund krabbar. Á kjörbúsvæði á mjúkum botni reyndist vera hálfur krabbi á fermetra sem er einn mesti þéttleiki sem þekkist fyrir tegundina í náttúrulegum heimkynnum. Grjótkrabbinn verður stærstur um 15 cm. Óskráð heimsmet á íslenskur grjótkrabbi, 15,3 cm á skjaldarbreidd og 576 grömm á þyngd. Það er því ljóst að þetta er tegund sem þarf mikla fæðu. Hún hefur því klárlega áhrif á lífríkið en engar rannsóknir hafa verið gerðar sem sýna bein áhrif á aðrar tegundir.

Alæta

Grjótkrabbi er alæta eins og margar aðrar krabbategundir. Talsverður hluti fæðunnar eru burstaormar og samlokutegundir eins og t.d. kræklingur sem er ofarlega á óskalistanum. Hann étur líka fisk og hræ og raunar allt sem til fellur. Stór grjótkrabbi getur brotið allt að fjögurra cm stórar kræklingsskeljar. Sindri segir að hann hafi alla burði til þess að verða skaðvaldur, sérstaklega ef hann nær viðlíka þéttleika og á sundunum við Reykjavík.

Ekki hefur tekist að halda uppi stöðugum atvinnuveiðum á grjótkrabba hér við land en tilraunir hafa verið gerðar í þá átt. Atvinnuveiðar eru stundaðar í Kanada en þeim er stýrt og ástæðan er meðal annars sú að grjótkrabbi er ein helsta fæða ameríska humarsins sem er mun stærri og verðmætari tegund. Íslenski leturhumarinn ræður ekki við fullorðna grjótkrabba sem fæðu.

Verður ekki upprættur

„Fullvaxinn grjótkrabbinn á sér ekki marga afræningja hér við land. Ýmsar fisktegundir s.s. flatfiskar og þorskfiskar éta hann þegar hann er á ungstiginu. Það er ekki nema helst steinbítur sem ræður við hann fullorðinn. Eins éta æðarfuglar og máfar grjótkrabba sem og aðra krabba. Almennt höfum áhyggjur af áhrifum framandi tegunda í lífríkinu og full ástæða til því framandi ágengar tegundir eru önnur helsta ógnin við líffræðilegan fjölbreytileika á heimsvísu á eftir búsvæðaeyðingu. Grjótkrabbinn fannst fyrst árið 2006 og hefur breiðst út um 80% af strandlengjunni á þrettán árum sem er gríðarlegur útbreiðsluhraði. Það hringja varúðarbjöllur þegar hann finnst í þéttleikanum hálfur krabbi á fermeter. Þegar tegundir berast á ný búsvæði af mannavöldum viljum við helst uppræta þær ef hægt er. En grjótkrabbinn verður ekki upprættur. Hann er orðinn það útbreiddur og í það miklum þéttleika að það er ekki raunhæft. Staðbundið væri hugsanlega hægt að takmarka áhrif hans á vistkerfið með veiðum. Til að skilja umfangið og hvernig stofninn er að breiðast út og haga sér er sérlega mikilvægt að halda úti rannsóknum á þessari tegund og öðrum framandi tegundum.“

5 nýjar framandi tegundir bætast við

Skráðar eru sextán framandi tegundir sjávarlífvera við Ísland og á síðasta ári hafa bæst við fimm nýjar tegundir sem Náttúrustofa Suðvesturlands hefur fundið en enn ekki birt upplýsingar um. Sindri segir að sumar þeirra séu þekktir skaðvaldar erlendis, þar á meðal nokkrar möttuldýrategundir.

„Framandi sjávarlífverum hefur fjölgað við Ísland á síðustu áratugum vegna aukinna sjóflutninga og hækkandi hitastigs sjávar sem gerir fleiri tegundum kleift að setjast hér að. Eins hefur rannsóknaverkefnum og vöktun aukist hér við land fyrir tilstilli Náttúrustofu Suðvesturlands og Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurnesjum.“

Náttúrustofa Suðvesturlands heldur núna úti vöktun um allt land svo unnt sé að meta umfang og útbreiðslu framandi tegunda í sjó.

Árleg vöktun grjótkrabba á vegum Náttúrustofu Suðvesturlands og Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurnesjum leiddi í ljós að grjótkrabba vex ásmegin í íslenskri náttúru og var hann 95% alls afla í gildruveiðum í sumar. Dr. Sindri Gíslason, forstöðumaður Náttúrustofu Suðvesturlands, segir grjótkrabbann mögulegan vágest og útbreiðslu hans á um 80% allrar strandlengju Íslands hafa gerst á undrahraða.

Eins og Fiskifréttir greindu frá í ársbyrjun 2018 hafa verið leiddar að því líkur að grjótkrabbi, sem er norður-amerísk krabbategund, hafi borist hingað til lands með kjölfestuvatni flutningaskips rétt fyrir aldamótin 2000. Pálmi Dungal áhugakafari fann fyrsta fullorðna grjótkrabbann árið 2006 í Hvalfirði. Hann hefur hvergi fundist utan náttúrulegra heimkynna sinna nema hér við Ísland. Nú hefur hann breiðst út á um 80% allrar strandlengju Íslands og er í miklu magni á vöktunarsvæðum Náttúrustofu Suðvesturlands og Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurnesjum í Faxaflóa.

Úr 50% í 95% af öllum afla

Vöktunin fer þannig fram að yfir sumarmánuðina, júní, júlí og ágúst, eru lagðar gildrur í Hvalfirði á ákveðnu sniði með dýptarfallanda frá 10 m niður á 60 metra dýpi. Einnig eru svifsýni tekin í uppsjó með þartilgerðum háf. Fer sá hluti vöktunarinnar fram á föstum stöðvum í Hvalfirði og innanverðum Faxaflóa. Vöktunin hefur farið fram árlega allt frá árinu 2007 að árinu 2016 undanskildu.

„Við sjáum það yfir þennan árafjölda að hlutdeild grjótkrabba í gildruveiðum er stöðugt að aukast. Á vöktunarstöðum okkar er grjótkrabbi orðinn yfir 90% af heildarafla en var í upphafi vöktunarinnar rétt yfir 50%. Hlutdeild grjótkrabba í afla hefur því aukist mikið en ekki er vitað hvort það sé á kostnað annarra krabbategunda, eins og bogkrabba og trjónukrabba, því vöktun á þeim var engin áður en vöktun á grjótkrabba hófst,“ segir Sindri.

Mesti þéttleiki sem þekkist

Hann segir að grjótkrabbi sé hugsanlega ágeng tegund. Náttúrustofa Suðvesturlands, Rannsóknasetur Háskóla Ísland og Hafrannsóknastofnun stóðu fyrir tilraun til fjögurra ára, árin 2011-2014. til að meta þéttleika á sundunum við Reykjavík. Merktir voru hátt í 6 þúsund krabbar. Á kjörbúsvæði á mjúkum botni reyndist vera hálfur krabbi á fermetra sem er einn mesti þéttleiki sem þekkist fyrir tegundina í náttúrulegum heimkynnum. Grjótkrabbinn verður stærstur um 15 cm. Óskráð heimsmet á íslenskur grjótkrabbi, 15,3 cm á skjaldarbreidd og 576 grömm á þyngd. Það er því ljóst að þetta er tegund sem þarf mikla fæðu. Hún hefur því klárlega áhrif á lífríkið en engar rannsóknir hafa verið gerðar sem sýna bein áhrif á aðrar tegundir.

Alæta

Grjótkrabbi er alæta eins og margar aðrar krabbategundir. Talsverður hluti fæðunnar eru burstaormar og samlokutegundir eins og t.d. kræklingur sem er ofarlega á óskalistanum. Hann étur líka fisk og hræ og raunar allt sem til fellur. Stór grjótkrabbi getur brotið allt að fjögurra cm stórar kræklingsskeljar. Sindri segir að hann hafi alla burði til þess að verða skaðvaldur, sérstaklega ef hann nær viðlíka þéttleika og á sundunum við Reykjavík.

Ekki hefur tekist að halda uppi stöðugum atvinnuveiðum á grjótkrabba hér við land en tilraunir hafa verið gerðar í þá átt. Atvinnuveiðar eru stundaðar í Kanada en þeim er stýrt og ástæðan er meðal annars sú að grjótkrabbi er ein helsta fæða ameríska humarsins sem er mun stærri og verðmætari tegund. Íslenski leturhumarinn ræður ekki við fullorðna grjótkrabba sem fæðu.

Verður ekki upprættur

„Fullvaxinn grjótkrabbinn á sér ekki marga afræningja hér við land. Ýmsar fisktegundir s.s. flatfiskar og þorskfiskar éta hann þegar hann er á ungstiginu. Það er ekki nema helst steinbítur sem ræður við hann fullorðinn. Eins éta æðarfuglar og máfar grjótkrabba sem og aðra krabba. Almennt höfum áhyggjur af áhrifum framandi tegunda í lífríkinu og full ástæða til því framandi ágengar tegundir eru önnur helsta ógnin við líffræðilegan fjölbreytileika á heimsvísu á eftir búsvæðaeyðingu. Grjótkrabbinn fannst fyrst árið 2006 og hefur breiðst út um 80% af strandlengjunni á þrettán árum sem er gríðarlegur útbreiðsluhraði. Það hringja varúðarbjöllur þegar hann finnst í þéttleikanum hálfur krabbi á fermeter. Þegar tegundir berast á ný búsvæði af mannavöldum viljum við helst uppræta þær ef hægt er. En grjótkrabbinn verður ekki upprættur. Hann er orðinn það útbreiddur og í það miklum þéttleika að það er ekki raunhæft. Staðbundið væri hugsanlega hægt að takmarka áhrif hans á vistkerfið með veiðum. Til að skilja umfangið og hvernig stofninn er að breiðast út og haga sér er sérlega mikilvægt að halda úti rannsóknum á þessari tegund og öðrum framandi tegundum.“

5 nýjar framandi tegundir bætast við

Skráðar eru sextán framandi tegundir sjávarlífvera við Ísland og á síðasta ári hafa bæst við fimm nýjar tegundir sem Náttúrustofa Suðvesturlands hefur fundið en enn ekki birt upplýsingar um. Sindri segir að sumar þeirra séu þekktir skaðvaldar erlendis, þar á meðal nokkrar möttuldýrategundir.

„Framandi sjávarlífverum hefur fjölgað við Ísland á síðustu áratugum vegna aukinna sjóflutninga og hækkandi hitastigs sjávar sem gerir fleiri tegundum kleift að setjast hér að. Eins hefur rannsóknaverkefnum og vöktun aukist hér við land fyrir tilstilli Náttúrustofu Suðvesturlands og Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurnesjum.“

Náttúrustofa Suðvesturlands heldur núna úti vöktun um allt land svo unnt sé að meta umfang og útbreiðslu framandi tegunda í sjó.