• Nýja Kristrún RE við komuna til Íslands. Haldið verður til veiða fljótlega á nýju ári. Mynd/Guðmundur St. Valdimarsson

Útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Fiskkaup hefur staðið í umtalsverðum fjárfestingum að undanförnu. Í byrjun þessa árs tók fyrirtækið í notkun hátækni framleiðslukerfi frá Völku og fyrir skemmstu kom til landsins ný Kristrún RE sem leysir af hólmi samnefnt skip sem stundað hefur grálúðuveiðar fyrir norðan land.

Fiskkaup voru stofnuð árið 1983 af Jóni Ásbjörnssyni og var lengi með starfsemi við Geirsgötu í húsi sem áður var kennt við Ríkisskip. Jón er fallinn frá og hefur sonur hans Ásbjörn rekið fyrirtækið síðustu tvo áratugi og sonarsonurinn, Ásbjörn Daníel, er aðstoðarframkvæmdastjóri. Auk fiskvinnslunnar gerir Fiskkaup út krókaaflamarksbátinn Jón Ásbjörnsson RE og Kristrúnu RE á grálúðu. Flutt var í nýtt húsnæði fyrir fiskvinnsluna á Fiskislóð 34 árið 2009. Húsið er sérhannað fyrir starfsemina og er á 3.300 fermetrum og þar af sjálf vinnslan á um 2.800 fermetrum. Á milli 40-50 starfa við vinnsluna og um 6 manns eru á skrifstofunni sem er sambyggð vinnslusalnum.

Hráefni til vinnslunnar kemur frá Kristrúnu RE, þ.e.a.s. meðafli sem fæst með grálúðuveiðunum, og afli frá Jóni Ásbjörnssyni. En að stærstum hluta þurfa Fiskkaup að reiða sig á kaup á hráefni á fiskmarkaði.

Sérhæfing í grálúðu

„Við látum líka veiða fyrir okkur af okkar kvóta. Kvótastaða okkar hefur þó breyst talsvert á síðustu árum því við höfum verið að auka við okkur kvóta í grálúðu á kostnað annarra tegunda. Það gekk svo vel hjá okkur á grálúðunetunum með Kristrúnu að við ákváðum að freista þess að sérhæfa okkur í þessum veiðum og sækja inn á erlenda markaði með afurðirnar. Þetta hefur skilað sér ágætlega. En vinnslan hjá okkur líður óneitanlega dálítið fyrir þessa áherslu. Það getur nefnilega verið dálítið basl með hráefnisöflunina,“ segir Ásbjörn.

  • Ásbjörn Jónsson, framkvæmdastjóri fyrir miðju og Ásbjörn Daníel, aðstoðarframkvæmdastjóri, honum á hægri hönd. Með þeim á myndinni er Guðjón Gunnlaugsson framleiðslustjóri. Mynd/GuGu

Þeir Ásbjörn og Guðjón Gunnlaugsson framleiðslustjóri segja reyndar eindæma ógæftir og fremur litla veiði hafa sett strik í reikninginn hjá vinnslum í landinu að undanförnu. Guðjón kveðst ekki muna eftir jafn lélegum nóvembermánuði og raunar hafi verið viðvarandi brælur á flestum miðum nánast frá því í haust. Minnkandi framboð hefur auðvitað áhrif til verðhækkana á fiskmörkuðum og ekki bætir úr skák fyrir innlenda vinnslu að magn útflutnings á óunnum fiski í gámum til vinnslu erlendis eykst með hverju árinu og jafngildir um helmingi þess magns sem er á fiskmörkuðum á Íslandi.

Keppa við niðurgreiddan sjávarútveg

„Fiskvinnslan í landinu líður stórkostlega fyrir þennan óhefta útflutning á óunnum fiski. Þar með er innlend fiskvinnslan að keppa við niðurgreiddan sjávarútveg í öðrum löndum og samkeppnisstaðan er því rammskökk. Á árum áður var sett á 15% útflutningsálag á útflutning á óunnum fiski en samkvæmt EES samningum eru það ólöglegar hömlur á frjálsu flæði vöru og þess var útflutningsálagið aflagt. En staðreynd málsins er sú að það er vonlaust fyrir íslenska fiskvinnslu að keppa við niðurgreiddan sjávarútveg ,“ segir Ásbjörn.

Fiskkaup hefur farið þá leið að vera sveigjanlegir í vinnslu og eru jafnt í ferskum fiski, frosnum, saltfiski og léttsöltuðum fiski á Spán. Um 3.000 tonn af fiski fara í gegnum húsið á ári en það gæti annað um 5.000 tonnum á ári.

„Vatnskurðarvélin hefur líka skapað okkur fjölmörg tækifæri sem voru ekki til staðar áður. Við erum að gera mun verðmætari afurðir úr hráefninu sem gerir okkur samkeppnishæfari á fiskmarkaðnum.“

Einir á grálúðu í tíu ár

Útgerðarhluti starfseminnar hefur gengið vel undanfarin ár. Upphafið að grálúðuveiðunum voru kaup á skipi frá Kanada 2008, núverandi Kristrúnu sem brátt fyrir fyrrverandi, sem var útbúið til grálúðuveiða. Skipinu fylgdu veiðarfæri og búnaður og voru báðar Kristrúnirnar gerðar út samtímis um tíma.

„Á þessum tíma var grálúðukvótinn ónýttur á Íslandi og auðvelt að verða sér úti um kvóta. Það kom í ljós að við náðum miklu betri árangri við veiðarnar í netin sem fylgdu skipinu frá Kanada. Upp frá því höfum við fellt öll okkar net sjálfir og erum með þrjá menn í því.“

Ásbjörn Daníel segir að í um tíu ár hafi Fiskkaup verið þeir einu sem stunduðu grálúðuveiðar. Þetta er fjórða árið sem veiðarnar eru stundaðar allan ársins hring. Frá 2017 hafa fleiri farið að gera út á grálúðu en ekkert annað skip en Kristrún hefur fryst aflann um borð. Með aukinni sókn hefur veiðin minnkað. Ásbjörn Daníel segir grálúðustofninn ekki standa undir sókn margra netaskipa. Veiðisvæðið er frá Dohrn-banka, fyrir öllu Norðurlandi og langt austur fyrir Kolbeinseyjarhrygg. Úthaldið er einn mánuður og tvær áhafnir eru á skipinu. Með nýja skipinu, sem verður tekið í notkun í byrjun næsta árs, verður unnið á tveimur vöktum í stað einnar áður. Núna eru 16 manns á einni vakt en það verða 10-11 manns á tveimur vöktum þegar nýja Kristrún hefur veiðar. Þetta mun auka framleiðslugetuna til muna. Sett verða sjálfvirk frystitæki í skipið og það gert tæknilegra á allan hátt.