Barði NK kom til Neskaupstaðar í fyrrinótt með 1.800 tonn af kolmunna sem fékkst í færeyskri lögsögu.

Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Hjört Valsson skipstjóra og spurði hvernig veiðiferðin hefði gengið.

„Hún gekk ágætlega. Þegar við komum á miðin fyrir austan Færeyjar var bræla en við gátum byrjað að veiða síðastliðinn laugardag. Alls voru þetta sjö hol og var dregið frá 22 tímum og niður í 9-10 tíma. Þannig að það voru tekin eitt til tvö hol á sólarhring. Aflinn var þokkalegur og stærsta holið var 450 tonn. Að lokinni löndun verður haldið til loðnuveiða norður af landinu og það verður spennandi. Það verður gaman að taka þátt í því partíi,“ segir Hjörtur.

Fínn togarafli

Í öðrum fréttum frá Síldarvinnslunni segir að Ísfisktogarinn Bergey VE landaði í Neskaupstað í vikunni og Gullver NS kom einnig til löndunar á Seyðisfirði. Bæði skip komu með góðan afla eftir stuttar veiðiferðir.

Steinþór Hálfdanarson, skipstjóri á Gullver, segir í viðtali við heimasíðu Síldarvinnslunnar að þeir hafi einungis verið rúma tvo sólarhringa á veiðum í túrnum. „Aflinn hjá okkur var rúm 70 tonn og segja má að þetta sé allt þorskur. Þetta er fínn fiskur. Við tókum þetta allt á Glettinganesflakinu en þar hefur verið töluvert af fiski á ferðinni að undanförnu þó dálítið hafi dregið úr veiðinni undir lokin. Síðustu þrír róðrar hafa verið fínir og hafa einkennst af góðri veiði og tekið stuttan tíma. Það hafa fá skip verið á þessum slóðum því togaraflotinn er víst að mestu vestur á Dohrnbanka þar sem hefur verið hörku fiskirí. Í þessum túr voru bara fjögur skip að veiða þarna á Glettinganesflakinu,“ segir Steinþór. Bergey VE landaði um 65 tonnum í Neskaupstað eftir stuttan túr og hélt til veiða nánast strax að löndun lokinni. Heimasíðan ræddi við Jón Valgeirsson skipstjóra en þá var skipið að veiðum á Tangaflakinu í blíðu og þar var reitingsafli.

„Við fengum aflann í síðasta túr á Glettinganesflakinu og þar var bara fín veiði. Aflinn var mest þorskur og síðan dálítil ýsa. Þetta var góður fiskur sem þarna fékkst og allt gekk bara eins og í sögu,“ sagði Jón.