ISA vírus var staðfestur eftir að sýni voru tekin á athafnasvæði Bakkafrost í Vágur, A-19 svæðinu, í Færeyjum.

Frá þessu segir meðal annars á fishfarmermagazone.com. Þar kemur fram að á því svæði öllu sé alls ein milljón laxa sem vegi að meðaltali 2,6 kílógrömm.

Veiran ítrekað skotið upp kollinum við Noreg

„Fréttirnar eru áfall fyrir fyrirtækið og færeyska laxeldisiðnaðinn í heild því þessi sjúkdómur er sér mjög fátíður við eyjarnar. Aftur á móti hefur sjúkdómurinn skotið reglulega upp kollinum í Noregi á undanförnum mánuðum,“ segir í frétt fishfarmermagazone.com.

Þá segir að færeyski eldisiðnaðurinn hafi lengi státað sig af því að vera að mestu laus við sjúkdóma um árabil.

Vegna veirusjúkdómsins mun framleiðsla Bakkafrost dragast saman um allt að þrjú þúsund tonn á þessu ári.

Slátra strax öllu úr tveimur kvíum

Vitnað er til tilkynningar Bakkafrosts sem segir að gripið hafi verið til ráðstafana til að hefta sjúkdóminn og takmarka útbreiðslu hans. Strax verði slátrað úr þeim tveimur kvíum sem sjúkdómurinn hafi greinst í og að laxi úr svæðinu í heild verði slátrað á næstu tveimur mánuðum.

Sagt er að ISA sjúkdómurinn hafi eingöngu áhrif á fisk og ekki á menn og að hann sé því ekki áhættuþáttur gagnvart matvælaöryggi. ISA hafi fyrst uppgötvast við Noreg fyrir fjörutíu árum og hafi síðan fundist við Skotland, Írland og Kanada.