Vinnuþjarkar íslenska tæknifyrirtækisins Sameyjar hafa vakið talsverða athygli hér á Seafood Expo í Barcelona. Kristján Ármannsson, vélatæknifræðingur hjá Samey, segir hlutverk fyrirtækisins að hjálpa öðrum fyrirtækjum með sjálfvirknilausnir og þar eru þjarkalausnirnar fyrirferðamestar.

Samey kaupir sjálfa þjarkana frá japanska fyrirtækinu Fanuc en smíðar alla stálvinnu í kringum þá og sér um hugbúnaðarlausnir. Fanuc er einn stærsti þjarkaframleiðandi heims. Samey hefur haslað sér völl í Noregi svo tekið hefur verið eftir meðal laxeldisfyrirtækja. Lausnir frá fyrirtækinu hafa verið settar upp í tengslum við laxaslátrun og meðferð á laxakössum.

„Við erum líka í góðu samstarfi við sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi og höfum sett upp talsvert af búnaði hjá nýrri landvinnslu Samherja á Dalvík, einnig á Akureyri og hjá sjávarútvegsfyrirtækjum um allt land. Við höfum líka boðið lausnir í uppsjávarkerfum og þá með róbóta sem lyfta hlutum og stafla á bretti og þess háttar. Þeir leysa ýmisleg störf sem eru ekki mjög vinsæl meðal manna.“

Þjarkar sem lyfta 2-3 tonnum

Samey hefur boðið fram lausnir með þjörkum í að verða 24 ár og á þeim tíma sett upp nálægt 200 þjarka víðs vegar um heim. Á þessum tíma hefur orðið mikil þróun í framleiðslunni, bæði hvað varðar hugbúnað og vélbúnað.

„Stærsta breytingin er þó kannski hugarfarið. Fyrirtækjastjórnendur eru farnir að þekkja þessar lausnir og vita hvað hægt er að gera með þeim. Eftirspurnin hefur því talsvert aukist eftir róbótalausnum,“ segir Kristján.

Bílaframleiðendur eru stærstu kaupendur þjarka og tæknin var upphaflega þróuð fyrir bílaframleiðslu fyrir mörgum áratugum. Nú eru þjarkar fjöldaframleidd vara og Kristján segir hana hagkvæma lausn til þess að framkvæma ýmsar hreyfingar. Samey býður þjarka sem lyfta allt frá 1 kg upp í 2-3 tonn. Tveir af stærstu gerðunum hafa verið settir upp á Íslandi, hjá Samherja á Dalvík og hjá Brim á Norðurgarði. Þessir þjarkar lyfta fiskkörum og sturta úr þeim inn á vinnslusvæði. Svo öflug tæki kosta á bilinu 60-70 milljónir kr. hvert.

„Róbótar geta framkallað mjög fjölbreyttar hreyfingar og það hefur orðið mikil þróun í hugbúnaði eins og myndgreiningar af ýmsu tagi.“

Fækkar ársverkum

Um 30 manns starfa hjá Samey og höfuðstöðvarnar eru í Garðabæ. Kristján segir ávinninginn af sýningu eins og Seafood Expo tvíþættan. Annars vegar kemst á endurnýjað samband við viðskiptavini fyrirtækisins og þar með tækifæri til að kynna þeim allt það nýjasta frá fyrirtækinu. Í annan stað verður til viðskiptasamband við aðra aðila sem hafa jafnvel ekki vitað af lausnum Sameyjar. Það skipti fyrirtækið að sjálfsögðu miklu máli að stækka viðskiptavinahópinn.

„Núna höfum við verið að fá til okkar menn frá Þýskalandi, Hollandi, Spáni og öðrum Evrópulöndum. Þeir hafa heyrt af okkur því við höfum boðið fram róbótalausnir til laxeldisins í Noregi. Áframvinnsla á laxi mjög víða í Evrópu er nær markaðnum. Þar eru mörg fyrirtæki sem hafa áhuga á þeirri lausn sem við köllum „Box destacker“ eða afstöflunarróbót,“ segir Kristján.

Algengt er að lausn af þessu tagi fækki ársverkum í hverri verksmiðjum um eitt til tvö. Kristján segir að í sjálfu sér hafi ekki verið gerðir samningar við viðskiptavini á sýningunni en málum sem hafa verið í undirbúningi hafi verið komið yfir á næsta stig.