„Við erum að skoða þann möguleika að byggja sjálfstæða einingu við Bakkaskemmu,“ segir Þór Sigfússon, stofnandi og stjórnarformaður Íslenska sjávarklasans, um stækkunaráform fyrirtækisins.
Ólafur Melsted, skipulagsfulltrúi Faxaflóahafna, kynnti nýlega á stjórnarfundi hafnarinnar hugmyndir um stækkun á aðstöðu fyrir Sjávarklasann sem hefur verið starfræktur í Bakkaskemmu við Grandagarð í um þrettán ár.
„Hafnarstjóri og Reykjavíkurborg hyggjast undirrita viljayfirlýsingu við Sjávarklasann sem felur í sér skoðun á nýtingu húsnæðis í eigu Faxaflóahafna samhliða skoðun á nýbyggingu í nágrenni núverandi húsnæðis,“ segir um málið í fundargerð stjórnar Faxaflóahafna.
Miklu fleiri erlendir gestir
Að sögn Þórs Sigfússonar er núverandi húsnæði Sjávarklasans tæplega 3.000 fermetrar. Fyrirtækið hugi að stækkun um 2.000 til 2.500 fermetra og horft sé til svæðisins norður af húsinu þar sem nú er bílastæði.
„Þar hef ég áhuga á að fá hús sem við myndum kalla hundrað prósent húsið og væri með rannsókna- og sýningaraðstöðu. Mögulega líka aðstöðu fyrir fyrirtækin þegar þau eru að stækka því mörg þessi frumkvöðlafyrirtæki hafa þurft að fara frá okkur vegna þess að við höfum ekki haft nægilega stórt rými fyrir þau. Við erum að fá miklu fleiri erlenda gesti en nokkru sinni áður,“ segir Þór og nefnir sömuleiðis áframhaldandi uppbyggingu frumkvöðlarýmisins.
Samvinna við nágranna
Nýju bygginguna segir Þór mundu verða tengda við núverandi hús með eins konar röri. Hann ítrekar að áformin feli í sér að áfram yrði hægt að keyra mjög auðveldlega út á höfnina. Fái þau brautargengi í kerfinu segir hann að hægt yrði að hefjast handa við framkvæmdir á næsta ári.
„Við höfum líka áhuga á að hafa nágranna okkar með okkur í þessu. Við höfum hug á því að ræða við þau fyrirtæki um það hvernig við getum mögulega gert þetta í meiri samvinnu,“ undirstrikar Þór Sigfússon.