Um 94% af fiski Arctic Fish í eldisstöðinni Hvestu í Arnarfirði hefur farið í fyrsta gæðaflokk, að því er fram kemur á Facebook-síðu Arctic Fish. Þar segir:

„Fyrsta október síðastliðinn hófst slátrun á laxi úr eldisstöð okkar Hvestu í Arnarfirði. Slátrun stendur enn yfir en gert er ráð fyrir að henni ljúki fyrir páska.

Fiskurinn í Hvestu fór í sjó vorið 2022 þá um 150 g stór. Nú við slátrun er hann um 5 kg. Um 94% af fiskinum hefur farið í fyrsta gæðaflokk en það sem fer í annan gæðaflokk er flakað hjá Odda á Patreksfirði. Þar verða svo um 95% af annars flokks fiskinum að flökum sem fara í hæsta gæðaflokk og því má segja að um 99% af fiskinum okkar fari í hæsta gæðaflokk.

Nýting fóðurs hefur einnig verið frábær. Sem dæmi er kví 3 í Hvestu. Þar framleiddum við stærsta fisk sem farið hefur í gegn um sláturhúsið okkar Drimlu í Bolungarvík en hann var að 6,1 kg slægður. Hlutfall fóðurs á móti fiski var 1,18 sem er frábær árangur með svona stóran fisk.

Verð eru einnig í hæstu hæðum þessa dagana eða frá 1.200-1.800 kr/kg eftir stærð. Í meðal kví eru um 450 tonn og því getur aflaverðmæti úr einni kví þegar laxinn er kominn til kaupenda í Evrópu eða Ameríku verið um 600 milljónir króna. Verð á laxi sveiflast mikið en að öllu jöfnu eru hæstu verð á þessum árstíma."