Samkomulag hefur náðst um kaup Vélsmiðju Orms og Víglundar á Stálsmiðjunni-Framtak, að því er kemur fram í fréttatilkynningu sem fjallað er um á www.vb.is. Eru kaupin gerð með fyrirvara um niðurstöðu áreiðanleikakönnunar og samþykki Samkeppniseftirlits. KPMG er ráðgjafi beggja aðila í viðskiptunum.

Bæði fyrirtækin hafa annast viðgerðar- og viðhaldsþjónustu á skipum ásamt málmsmíði og þjónustu við stóriðju og iðnaðarfyrirtæki.

„Með kaupunum eru aðilar sannfærðir um að til verði sterkari eining sem gerir aðilum betur kleift að takast á við alþjóðlegan samkeppnismarkað í skipaviðgerðum ásamt því að veita viðskiptavinum sínum betri þjónustu og hafi bolmagn til þess að takast á við stærri verkefni,“ segir í tilkynningunni.

Vélasmiðja Orms og Víglundar ehf. velti 634 milljónum króna árið 2021 og félagið hagnaðist um 34 milljónir króna. Eignir félagsins námu hálfum milljarði í lok síðasta árs og eigið fé var 376 milljónir. Vélasmiðja Orms og Víglundar er í eigu Eiríks Orms Víglundssonar.

Stálsmiðjan-Framtak velti 1,9 milljörðum króna á síðasta ári og hagnaðist um 161 milljón. Eignir félagsins voru bókfærðar á 1,8 milljarða í lok síðasta árs. Eigið fé nam 1.242 milljón í árslok 2021.

Stálsmiðjan-Framtak er í jafnri eigu Bjarna Thoroddsen, Björns Steingrímssonar, Hermanns Baldvinssonar, Hilmars Kristinssonar, Óskars Olgeirssonar og Páls Kristinssonar, samkvæmt síðasta ársreikningi félagsins.