Hagnaður Síldarvinnslunnar á árinu nam 44,1 milljón Bandaríkjadala, sem samsvarar um 5,9 milljörðum íslenskra króna en félagið hagnaðist um 73,4 milljónir dala árið 2023.

Afkoma Síldarvinnslunnar hf. árið 2024 bar merki af áföllum sem höfðu áhrif á sjávarútveg á Íslandi. Loðnubrestur og eldsumbrot á Reykjanesi höfðu áhrif á afkomu fyrirtækisins og leiddu til samdráttar í rekstrartekjum og EBITDA.

Rekstrartekjur Síldarvinnslunnar drógust saman um 19,7% milli ára og námu 325,1 milljón dala á árinu 2024, samanborið við 404,7 milljónir dala árið 2023.

Helstu skýringar eru engar loðnuveiðar á árinu og skerðing á starfsemi bolfiskvinnslu vegna jarðhræringa við Grindavík. Í uppgjörinu segir að eldgosin höfðu áhrif á aðgang að víðtækri innviðastarfsemi og var til bráðabirgða sett upp saltfiskvinnsla í Helguvík, auk þess sem fiskur var fluttur til vinnslu erlendis. Nánar er sagt frá þessu á vef Viðskiptablaðsins.