Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa gagnrýnt niðurstöðu í samningaviðræðum við Breta um fríverslun með sjávarafurðir.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), segir að niðurstaðan úr samningaviðræðum um fríverslun við Bretland hafi sannarlega komið á óvart.

„Við töldum okkur vera að sjá til lands og höfðum vonir um að tollar yrðu felldir niður á eitthvað af þeim sjávarafurðum sem við erum með,“ segir hún. Ekkert varð hins vegar úr því að betri kjör næðust fram, þótt vissulega verði hægt að athuga með endurskoðun á samningnum eftir fimm ár.

Þegar undirbúningur að samningaviðræðum við Breta var að hefjast hér heima fór ekkert á milli mála að stefnt yrði að algjörri fríverslun um sjávarafurðir. En „til vara að það verði ekki lakari kjör en okkur bjóðast í dag,“ eins og Sigurgeir Þorgeirsson orðaði það í viðtali við Fiskifréttir árið 2017.

Hagsmunaflækjur

Niðurstaðan varð sú að samið var um óbreytt kjör, enda voru hagsmunaflækjurnar miklar bæði hér innanlands, þar sem semja þurfti samhliða um sjávarafurðir og landbúnaðarafurðir, og einnig innan Bretlands þar sem stjórnvöld hafa setið undir harðri gagnrýni fyrir að hafa ekki varið nógu vel hagsmuni sinna manna í sjávarútvegi.

„Ég ætla ekkert að gera lítið úr því að þarna vegast á hagsmunir, og það er flókið að leysa úr því,“ segir Heiðrún Lind.

Engu að síður hafi vonir staðið til þess að tollar yrðu felldir niður á einhverjar af þeim sjávarafurðum sem við erum að selja til Bretlands.

„Bretar eru mikil samstarfsþjóð og þetta er okkar stærsta útflutningsland fyrir sjávarafurðir, þannig að auðvitað höfðum við miklar væntingar um að okkur tækist að ná góðum samningi við Breta. Betri en við höfðum haft þegar þeir voru innan Evrópusambandsins.“

Tollar hindra fullvinnslu

Heiðrún segir að sóknarfærin hafi vissulega verið til staðar.

„Það hefði alveg mátt sækja fram í töluvert mörgum tegundum og þá líka með áherslu á aukinn metnað okkar í fullvinnslu afurða hér heima, og það er ekki nýtilkomið verkefni. Tollar eru tiltölulega háir enn sem komið er á tilteknar unnar fiskafurðir unnar, bæði til ESB og Bretlands. Þannig að þarna voru klárlega sóknarfæri.“

Mikill og hraður vöxtur í laxeldi hér á landi vekur upp spurningu hvort þar hafi kannski ekki verið stærstu hagsmunirnir, sem ekki tókst að tryggja.

„Laxinn er auðvitað mjög stórt hagsmunamál til lengri framtíðar litið,“ segir Heiðrún, „en það má heldur ekki gleyma þeim tegundum sem við erum að flytja út í verulegum mæli óunnar. Þar er auðvitað karfi og flatfiskur. Steinbíturinn gæti verið þar líka og bleikja, þessar tegundir sem við getum séð vöxt í. En aðstæður eru því miður þannig og verðið að það er ekki rekstrarlega fýsilegt að vinna hann hér heima. Þar með flyst hann úr landi.“