Tekjur Arnarlax á síðasta ári urðu 157,6 milljónir evra og jukust um 74% frá árinu á undan, þegar þær voru 90,9 milljónir evra. Þetta kemur fram í vefmiðlinum bb.is sem vitnar í upplýsingar úr kauphöllinni í Ósló.

Umreiknað í íslenskar krónur á núverandi gengi jafngildir þetta að tekjurnar hafi verið 24 milljarðar króna og hafi aukist um 10 milljarða króna frá 2021. Framlegðin, þ.e. tekjur að frádregnum rekstrarkostnaði varð í fyrra um 5,5 milljarðar ísk króna og fimmfaldaðist frá fyrra ári.

Fyrirtækið Iceland Salmon , sem er eignarhaldsfélagið um Arnarlax, birti í kauphöllinni í Osló fjárhagsupplýsingar í síðustu viku um fjórða ársfjórðung 2022 og samanlagða afkomu ársins. Þar kemur einnig fram að framlegðin af hverju kg af eldislaxi á síðasta ári var 2,24 evrur eða 345 ísk kr/kg og jókst verulega frá fyrra ári þegar hún var 0,856 evrur/kg.

Alls var slátrað 6.008 tonnum á fjórða ársfjórðungi 2022 og hefur aldrei verið meiru slátrað. Jókst framleiðslan úr 4.272 tonn á fjórða ársfjórðungi 2021.

Framleiðslan í fyrra varð 16.138 tonn af eldislaxi og jókst um 40% frá 2021. Áætlað er að framleiðslan á þessu ári verði 16.000 tonn og að hún aukist verulega á næsta ári 2024.

Í tilkynningu Arnarlax er haft eftir Birni Hembre, forstjóra að fjárhagsstaða fyrirtækisins sé sterk, eldið hafi gengið vel á síðasta ári og að fyrirtækið leggi sitt af mörkum til þess að styrkja efnahag og samfélag landsins.

Vakin er athygli á sérstöðu Íslands sem geri það að verkum að afurðirnar eru fluttar sjóleiðis á Bandaríkjamarkað en annars svo sem frá Færeyjum, Noregi og Skotlandi er meirihluti þeirra fluttur með flugi. Vegna þess verður kolefnisspor flutninganna mun lægra ásamt því að kostnaðurinn lækkar verulega. Þessar aðstæður skapi Arnarlax sóknarfæri á markaðnum.

Markaðsvirði Arnarlax var um 66 milljarðar króna í kauphöllinni í Osló við lokun markaða á föstudaginn og hafði gengi hlutabréfanna hækkað um 4% þann daginn.