Síldarvinnslan hf., sem er eigandi 34,2% hlutar í Arctic Fish Holding AS, hyggst taka þátt í 35 milljóna evra hlutafjáraukningu laxeldisfyrirtækisins, eða sem nemur 5 milljörðum íslenskra króna. Vb.is segir frá þessu.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar kemur fram að hlutur Síldarvinnslunnar í hlutafjáraukningunni verði um 40% eða samtals 14 milljónir evra. Það samsvarar um 2 milljörðum króna. Síldarvinnslan keypti 34,2% hlut í Arctic Fish fyrir tæplega 15 milljarða króna í júní 2022. Við það tilefni sagði Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar að félagið telji mikil tækifæri til staðar í laxeldi.

Mowi, sem er stærsta fiskeldisfyrirtæki heims, varð nokkrum mánuðum síðar stærsti hluthafi Arctic Fish með kaupum á 51,3% hlut í laxeldisfyrirtækinu fyrir 26 milljarða íslenskra króna.