Íslenska félagið Novo ehf. sem stofnað var fyrir 16 árum og er í eigu Guðmundar Stefánssonar, Sigurðar Péturssonar og eiginkvenna þeirra, Þóru Völu Haraldsóttur og Ingibjargar Valgeirsdóttur eiga Novo Food í Frakklandi. Félagið er jafnframt stofnandi Arctic Fish á Íslandi og er enn þriðji stærsti eignaraðili fiskeldisfyrirtækisins.

„Við bjóðum viðskiptavinum okkar upp á heildarlausnir allra sjávarafurða úr eldi sem og villtum fisk, ferskt, frosið, reykt á heima markað okkar í Frakklandi,“ segir Guðmundur Stefánsson framkvæmdastjóri Novo Food.

Hjá Novo Food starfa í dag um 100 starfsmenn í Frakklandi og tveir starfsmenn á Íslandi, fyrirtækin sem tilheyra félaginu velta um50 milljónum evra, en það samsvarar sjö milljörðum íslenskra króna, og selja yfir 5 þúsund tonn af sjávarafurðum.

„Við unnum báðir í Frakklandi hjá SÍF og Alfesca,“ segir Sigurður. Hann hafði flutt þangað á vegum SÍF, síðar Alfesca, þar sem hann á árunum 2002 til 2006, var framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar samstæðunnar, en ákvað að shætta þar til að stofna Novo Food og vinna þar með viðskiptahugmynd sem ekki fékk hljómgrunn innan Alfesca. Guðmundur kom svo að félaginu með honum ári síðar og voru þeir þá einu starfsmenn félagsins fyrir 15 árum síðan.

Þeir segja Novo Food vera eina íslenska fyrirtækið sem rekur verksmiðju fyrir neytendavörur og hefur samninga við allar stærstu stórmarkaðskeðjur á þessum stærsta markað Íslands fyrir ferskar sjávarafurðir. Auk þess er fyrirtækið með dreifingarmiðstöð og þjónustu fyrir veitingahúsa-, stóreldhúsa-, heildsölu- og iðnaðarmarkaðinn í Frakklandi.

Hugsjónir

„Við byggjum Novo Food upp með sömu hugsjónum og þegar við förum síðar í að stofna Arctic Fish. Hvatinn er áhugi okkar á sjálfbærni og umhverfisvænni framleiðslu. Þannig að þegar við Gummi settumst saman og spurðum okkur hvað okkur langar að gera með fyrirtækið þá varð niðurstaðan að við ætlum að fara í neytendaumbúðir inn á stærsta fiskmarkað í heimi, sem er að vísu líka kröfuharður. Komast þannig lengra inn í aðfangakeðjuna en flestir hafa verið að gera.“

  • Vörur frá Novo Food á boðstólum í franskri verslun. Aðsend mynd

Eins og greint var frá í Fiskifréttum nýverið er Frakkland óðfluga að verða helsti markaður fyrir íslenskar sjávarafurðir en um áratuga skeið hefur Bretlandi verið þar í sérflokki. Þegar kemur að botnfiski er Frakkland nú þegar orðið stærsta viðskiptaland Íslendinga.

„Covid-19 faraldurinn hefur reyndar haft mikil áhrif á þennan markað. Áður skiptist hann nokkuð jafnt í sölu hjá Novo Food á milli stórmarkaðanna og HORECA-markaðarins (hótel, veitingarhús og mötuneyti). Faraldurinn varð hins vegar til þess að fólk fór að elda meira heima hjá sér og keypti þá fiskinn handa sér í verslunum frekar en að fara mikið út að borða,“ segir Guðmundur.

Breyttar venjur

Því til viðbótar segja þeir neytendur vera í auknum mæli farna að kaupa sjávarafurðir í neytendapakkningum frekar en að fara í fiskborðin til að velja sér í matinn.

„Þetta hefur tekið langan tíma en núna er það komið á það stig að það verður ekkert aftur snúið með sjálfsafgreiðslu format á vörunni. Þessu er pakkað í neytendapakka og það á bara eftir að aukast, og verslunarmynstur í Frakklandi er að breytast. Þetta er að fara aftur í smærri verslanirnar.“

Sigurður segir Frakka reyndar hafa farið hægar inn í þetta en nágrannalöndin. Bretland og Þýskaland hafi í mörg ár verið með stærsta hlutann í tilbúnum neytendapakkningum.

„Þannig að svolítið einkennilegt að þróunin hafi ekki gerst hraðar en þetta í Frakklandi. Það er bara ár síðan að 70% af allri sölu sjávarafurða fór í gegnum þessi ferskfiskborð í stórmörkuðunum, en núna er það að nálgast helming á móti sjálfsafgreiðslu í neytendaumbúðum,“ segir Guðmundur.

Guðmundur segir þetta hafa „tekið kipp í Covid en þróunni hefur hægt og bítandi verið í þessa átt. Menn hafa alltaf verið að bíða eftir því hvenær franski markaðurinn tæki þetta stökk inn á sjálfsafgreiðsluformatið.“

Hraður vöxtur

Starfsemin hefur vaxið hratt á þeim 15 árum eða svo sem liðin eru frá stofnun Novo Food. Stefnan var strax sett á framleiðslu sjávarafurða fyrir franska markaðinn. Árið 2008 keyptu þeir félagar hlut í framleiðslufyrirtæki í Póllandi sem hafði einbeitt sér að kældum og virðisaukandi afurðum. Árið 2014 keyptu þeir dreifinga- og sölufyrirtækið Nordvik í Boulogne-sur-Mer sem var í eigu laxeldisfyrirtækisins Leroy. Ári síðar keyptu þeir hollenska félagið Fishpartners France og síðan stofnuðu þeir fullvinnslufyrirtækið Boulogne Seafood árið 2018.

„Við erum þá núna að reka þrjú fyrirtæki í Frakklandi,“ segir Guðmundur. „Novo food er innkaupafyrirtæki og selur inn á bæði smásölumarkað og heildsölumarkað. Síðan með erum við með Nordvik sem er í viðskiptum með bæði ferskan og reyktan fisk en sér líka um okkar logistic platform eða dreifingarmiðstöð með samantekt pantana og trukka til þess að afhenta vörur. Síðan í þriðja lagi er það Boulogne Seafood sem er með vinnslu á neytendavörum fyrir franska stórmarkaði. Það getur tekið nokkur ár að byggja upp viðskiptasambönd við þessar stórmarkaðskeðjur og við erum stolt að því að vera í dag með samninga við öll stærstu keðjurnar á þessu sviði. Við erum stærsta íslenska fyrirtækið að vinna og markaðssetja neytendavörur á franska markaðinum með yfir 100 tonn af vörum í smásölupakkningum á mánuði. Þessi þrjú fyrirtæki eru öll sjálfstæð en við stýrum þessu nokkuð sameiginlega og ávinningur okkar felst í að geta boðið heildarlausnir fyrir alla viðskiptavini sjávarafurða.“

Síðan eru tveir starfsmenn á Íslandi, með skrifstofu í húsi Hafrannsóknastofnunar í Hafnarfirði, sem sjá um innkaup og dreifingu frá Íslandi.

„Við höfum rekið okkar fyrirtæki frá stofnun með hagnaði en það hefur allt farið í áframhaldandi uppbyggingu,“ tekur Sigurður fram.

Söguleg tengsl

Boulogne-sur-Mer er 40 þúsund manna bær á norðurströnd Frakklands og stærsta miðstöð sjávarafurða inn á franska markaðinn.

„Þetta er kröfuharður markaður en þessi markaður þekkir Ísland og hann er samofinn sögu Íslands, sérstaklega hérna á þessu svæði þar sem ég bjó í tæp 9 ár og Gummi er búinn að búa síðan 2002. Það vita allir hvað pecheur d‘Islande eða „íslensku fiskimennirnir“ sem í raun voru franskir en sóttu gjöful mið með hágæða afurðir við Ísland, það hjálpar okkur í markaðssetningunni.“

  • Eigendur Novo Food, þau Sigurður Pétursson, Ingibjörg Valgeirsdóttir, Guðmundur Stefánsson og Þóra Vala Haraldsdóttir ásamt Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur í Brussel fyrir nokkrum árum. Aðsend mynd.

Franski markaðurinn fyrir ferskar sjávarafurðir skiptist í grófum dráttum í tvo hluta, segja þeir. Annars vegar er það markaðurinn inn á veitinga- og hótelgeirann, horeca-markaðurinn svonefndi, en þangað fara nú um 30% allra ferskra sjávarafurða. Hins vegar eru það stórmarkaðirnir sem taka um 70%.

Þeir segjast þó ekkert eingöngu kaupa hráefni frá Íslandi lengur, þótt áherslan sé vissulega áfram lögð á Ísland. Guðmundur segir að um það bil 80% af þeim sjávarafurðum sem Novo Food kaupir núna komi frá Íslandi.

„Við erum að taka inn rúmlega 5.000 tonn af afurðum, mest ferskt en líka aðeins að frystu . Við erum í samstarfi við íslenska framleiðendur og erum með skrifstofu á Íslandi, en síðan erum við líka að kaupa beint héðan frá Frakklandi og einnig frá Noregi, Póllandi, Hollandi og Bretlandi. Bara eftir því sem hentar hverju sinni.“

Þá hafi lax verið að aukast verulega hjá þeim undanfarin ár: „Þetta eru eitthvað rúmlega 1500 tonn af laxi núna sem við erum að selja á síðasta ári og lang mest frá Íslandi enda sérhæfum við okkur í að markaðsetja vörur með íslenskum uppruna.“ segir Guðmundur að lokum.