Þetta eru niðurstöður úr makrílmerkingum sem norska hafrannsóknastofnunin, Havforskningsinstituttet, segir frá á vef sínum. Jafnframt er sagt frá þessum niðurstöðum í vísindagrein sem birtist í Frontiers of Marine Science þann 11. nóvember síðastliðinn. Meðal höfunda greinarinnar eru þau Sigurður Þór Jónsson og Anna Heiða Ólafsdóttir frá Hafrannsóknastofnun Íslands, en aðrir höfundar eru frá Noregi, Færeyjum og Bretlandi.

„Hafrannsóknafólkið sá að stærsti makríllinn fór lengst til vesturs til Íslands og Grænlands og lengst norður á bóginn til Svalbarða í fæðuleit yfir sumarið,“ segir í frásögn norsku hafrannsóknastofnunarinnar. „Um haustið sneri hann aftur til Hjaltlandseyja til að hafa þar vetursetu síðar en minni makríllinn.“

Göngumynstrið breyttist

Stærstu fiskarnir héldu líka fyrr af stað suður á bóginn til hrygningarslóða en þeir minni. Einnig kom í ljós að eftir því sem makríllin varð eldri og stærri þá breyttist göngumynstrið. Hann fór að fikra sig æ lengra með hverju árinu sem bættist við aldurinn.

Norska hafrannsóknastofnunin hefur í fórum sínum gögn úr makrílmerkingum allt aftur til ársins 1980 og hér við land hófust makrílmerkingar á vegum Hafrannsóknastofnunar árið 2015. Með nýrri tækni sem tekin var í notkun 2011 og auknu samstarfi ríkja hefur orðið auðveldara að safna gögnum úr þessum merkingum og vinna úr þeim.

Samstarf við greinina

Sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi, í Færeyjum, á Bretlandseyjum og í Noregi hafa sett upp merkjaskanna í verksmiðjum sínum sem skrá endurheimtur merktra fiska sjálfvirkt. Á Íslandi taka þrjár verksmiðjur þátt í verkefninu, það eru Brim á Vopnafirði, Síldarvinnslan í Neskaupstað og Skinney-Þinganes á Höfn í Hornafirði. Fyrirtækin borga allan kostnað við kaup, uppsetningu og viðhald á merkjaskönnum, og útvega upplýsingar um aflamagn sem fer í gegnum þá. Um þetta fjölluðu Anna og Sigurður m.a. í grein í ritinu Sjávarafli, eins og sagt var frá í Fiskifréttum fyrir nærri tveimur árum.

Anna Heiða Ólafsdóttir og Sigurður Þór Jónsson að merkja makríl um borð í Geisla SH sumarið 2016. Mynd/Hafrannsóknastofnun
Anna Heiða Ólafsdóttir og Sigurður Þór Jónsson að merkja makríl um borð í Geisla SH sumarið 2016. Mynd/Hafrannsóknastofnun

Upphaflega var tilgangur merkinganna einkum sá að fá gögn til að nota í árlegu stofnmati á makrílnum, en jafnframt hafa þær nýst til að rannsaka gönguleiðir makríls að sumarlagi í Norðurhöfum.

Lítill glerhólkur

Merkið er lítill glerhólkur með örflögu sem geymir einkennisnúmer fisksins. Þegar fiskurinn kemur inn í rafsvið merkjaskanna kviknar á merkinu og það sendir frá sér upplýsingar um einkennisnúmer fisksins sem skanninn áframsendir sjálfvirkt í alþjóðlegan gagnagrunn.

Við merkingarnar er makríll krókaveiddur á litlu dýpi, settur í kar um borð í skipinu, síðan er fiskurinn lengdarmældur, merki skotið í kviðarhol hans, nálægt gotraufinni, og fisknum sleppt. Hvert merki er með einkennisnúmer sem er tengt lengd fisksins ásamt upplýsingum um hvar og hvenær hann er merktur.