Hafrannsóknastofnun stefnir að því að halda áfram makrílmerkingum á komandi sumri en þær hófust hér við land árið 2015. Messufall varð í fyrra þar sem makríll gekk ekki vestur fyrir land þar sem merkingarnar hafa farið fram. Ef göngur makríls verða með líkum hætti og síðastliðið sumar verður þess ef til vill freistað að merkja makrílinn fyrir austan land.

Rannsóknin er samstarfsverkefni þar sem útgerðarfyrirtæki og rannsóknastofnanir í fjórum löndum vinna saman að merkingum og gagnasöfnun. Þau liggja að baki svokallaðri merkingarvísitölu; einni af fimm gagnaröðum sem notaðar eru í árlegu stofnmati makríls innan vébanda Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES). Þau Anna Heiða Ólafsdóttir og Sigurður Þór Jónsson, fiskifræðingar á Hafrannsóknastofnun, hafa annast rannsóknirnar fyrir Íslands hönd.

Breyttar göngur

Tilgangur merkinga er tvíþættur, að sögn Önnu Heiðu.

„Til að fá vísitölu til að nota í árlegu stofnmati á makrílnum. En jafnframt til að rannsaka gönguleiðir makríls að sumarlagi í Norðurhöfum. Merkingar við Ísland hjálpa okkur að svara spurningum eins og gengur makríll sem er merktur við Snæfellsnes upp að vesturströnd Noregs að haustlagi, eða gengur hann beint suðaustur að vesturströnd Írlands.“

Eins og Fiskifréttir hafa fjallað um þá varð grundvallarbreyting á makrílgöngum inn á íslenskt hafsvæði í sumar, þegar saman eru bornar göngur hans mörg undanfarin ár. Mikið magn mældist af mak­ríl í ís­lenskum sjó árin 2015-2017 sem minnkaði svo snögg­lega árin 2018 og 2019. Brá svo við í sumar sem leið að aðeins lítill hluti göngunnar mældist í íslenskri landhelgi í árlegum fjölþjóðlegum uppsjávarvistkerfisleiðangri í Norðurhöfum. Um ástæður þessara breytinga á göngumynstri er í raun lítið vitað þó kenningarnar séu margar.

Þá vaknar spurningin um framhald rannsóknanna hér við land en báturinn Geisli SH frá Ólafsvík var notaður fyrir merkingar í fjögur sumur, eða árin 2016-2019. Allt var tilbúið til að merkja aftur á Geisla sumarið 2020 við Snæfellsnes, en makríllinn kom aldrei vestur fyrir landið.

„Við hjá Hafrannsóknastofnun stefnum á að merkja makríl við Ísland sumarið 2021 ef hann gengur upp að ströndum landsins,“ svarar Anna.

„Við Ísland er makríll merktur á litlum strandveiðibát þannig að makríll þarf að ganga nálægt ströndinni, svo hægt sé að nota standveiðibát til merkinga,“ segir Anna en það hefur ekki verið rætt sérstaklega hvort möguleiki sé að merkja makríl við austurströnd Íslands. Það kemur þó vel til greina ef bátur fæst til slíkra mælinga og makríllinn gengur upp að ströndinni eða inn á firði.

23 vinnslur skrá

Rannsóknastofnanir á Íslandi og í Noregi merkja makrílinn og sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi, í Færeyjum, á Bretlandseyjum og í Noregi hafa sett upp merkjaskanna í verksmiðjum sínum sem skrá endurheimtur merktra fiska sjálfvirkt. Á Íslandi taka þrjár verksmiðjur þátt í verkefninu, það eru Brim á Vopnafirði, Síldarvinnslan í Neskaupstað og Skinney-Þinganes á Höfn í Hornafirði. Fyrirtækin borga allan kostnað við kaup, uppsetningu og viðhald á merkjaskönnum, og útvega upplýsingar um aflamagn sem fer í gegnum þá. Um þetta fjölluðu Anna og Sigurður m.a. í grein sem nýlega birtist í ritinu Sjávarafli .

Þar kemur fram að Hafrannsóknastofnunin í Bergen í Noregi hóf merkingar á hrygningarslóð makríls vestur af Írlandi vorið 2011. Síðan þá hafa Norðmenn merkt á bilinu 23.000 til 56.000 fiska árlega á þeirri slóð. Hafrannsóknastofnunin á Íslandi hóf merkingar á makríl sumarið 2015 við Snæfellsnes og hefur alls merkt þar ríflega 15.000 fiska. Árlegur fjöldi er á bilinu ríflega 800 til tæplega 5.000 fiskar.

  • Síðan vorið 2011 hafa ríflega 450.000 makrílar verið merktir með innvortis rafaldskennimerkjum. Mynd/Jostein Røttingen.

Fyrsti makríllinn merktur með rafaldskennimerki endurheimtist 1.maí 2012 í norskri verksmiðju. Síðan hafa alls 6.643 merktir makrílar endurheimst, sem er um 1.5% af merktum fiski. Endurheimtur á merktum makríl hófust 2012 í átta verksmiðjum í Noregi og alls endurheimtust 67 merktir makrílar það ár. Árið 2014 bættist við verksmiðja Brims á Vopnafirði og þrjár verksmiðjur á Bretlandseyjum. Síldarvinnslan og Skinney-Þinganes bættust við árið 2015 ásamt þremur verksmiðjum á Bretlandseyjum. Árið 2020 voru 14 verksmiðjur í Noregi, sex verksmiðjur á Bretlandseyjum og þrjár á Íslandi með virka skanna eða 23 verksmiðjur alls.

1,8 milljón tonn skönnuð

Af löndunum þremur, þá hafa flest merki endurheimst í norskum verksmiðjum eða 3.391 merki, 2.159 í verksmiðjum á Bretlandseyjum og 1.093 í íslenskum verksmiðjum. Tekið skal fram að ein verksmiðja í Færeyjum var búin merkjaskanna árin 2014-2017. Merkin hafa komið fram í gríðarmiklu magni makríls sem hefur farið í gegnum merkjaskanna verksmiðjanna á tímabilinu. Af þeim 1,8 milljónum tonna af makríl sem hafa verið skönnuð fóru tólf prósent í gegnum verksmiðjurnar þrjár á Íslandi, tvö prósent í Færeyjum, 25 prósent á Bretlandseyjum og 60 prósent í Noregi.

Af þeim fiski sem hefur endurheimst voru 262 fiskar merktir við Snæfellsnes og er endurheimtuhlutfall úr þeim merkingum 1,7%. Makríll merktur fyrir vestan Ísland hefur endurheimst meðfram suður og suðaustur strönd Íslands, í Noregshafi, við vesturströnd Noregs, í norðurhluta Norðursjávar og við strendur Skotlands.

„Þetta sýnir að makríll sem gengur vestur fyrir Ísland að sumarlagi gengur alla leið austur að strönd Noregs og inn í Norðursjó. Makríll merktur vestan við Írland, á hrygningartíma, hefur veiðst á svipuðum slóðum og fiskur merktur við Ísland en nær þó yfir stærra svæði þar sem mun fleiri fiskar hafa endurheimts, alls 6.381 fiskur. Endurheimtustaðsetning makríls endurspeglar veiðislóð skipa sem landa í verksmiðjunum 23 sem eru búnar merkjaskanna. Þetta skýrir hvers vegna enginn fiskur endurheimtist sunnar á útbreiðslusvæði makríls sem nær suður til strandar Marokkó,“ skrifa þau Anna og Sigurður.

Krókaveiddur á litlu dýpi

Síðan vorið 2011 hafa ríflega 450.000 makrílar verið merktir með innvortis rafaldskennimerkjum. Merkið er lítill glerhólkur, tæpir 2 sentímetrar á lengd og um 0.25 sentímetrar á breidd, með örflögu sem geymir einkennisnúmer fisksins. Þegar fiskurinn kemur inn í rafsvið merkjaskanna kviknar á merkinu og það sendir frá sér upplýsingar um einkennisnúmer fisksins sem skanninn áframsendir sjálfvirkt í alþjóðlegan gagnagrunn.

Við merkingarnar er makríll krókaveiddur á litlu dýpi, settur í kar um borð í skipinu, síðan er fiskurinn lengdarmældur, merki skotið í kviðarhol hans, nálægt gotraufinni, og fisknum sleppt. Hvert merki er með einkennisnúmer sem er tengt lengd fisksins ásamt upplýsingum um hvar og hvenær hann er merktur. Þessum upplýsingum er hlaðið inn í alþjóðlegan gagnagrunn daglega.