Hátæknifyrirtækið Skaginn 3X tapaði 2.659 milljónum króna á síðasta ári samanborið við 213 milljóna tap árið 2020. Í tilkynningu segir félagið að endurskipulagning og endurmat skuldbindinga og krafna frá fyrri tíð séu meðal skýringa á rekstrarniðurstöðu síðasta árs. Sagt er frá þessu á www.vb.is.

„Rekstur samstæðu Skagans 3X var þungur á síðasta ári og liggja meginskýringar í viðamikilli endurskipulagningu, endurmati á skuldbindingum og kröfum, afleiðingum af ólgu á mörkuðum í Covid heimsfaraldrinum auk stríðsátaka sem tengjast Rússlandi,“ segir í tilkynningu félagsins.

Þýska fyrirtækið Baader keypti 60% hlut í Skaganum 3X í ársbyrjun 2021 af I.Á.-Hönnun, félagi í eigu Ingólfs Árnasonar, stofnanda Skagans 3X, og Guðrúnar Agnesar Sveinsdóttir, eiginkonu hans. Baader keypti eftirstandandi 40% hlut í Skaganum 3X í byrjun þessa árs og er nú eigandi alls hlutafjár félagsins.

Ingólfur lét af störfum sem forstjóri í desember síðastliðnum. Sigsteinn Grétarsson, fyrrum forstjóri Arctic Green Energy, tók nýlega við sem forstjóri Skagans 3X.

Baader segir að í kjölfar kaupanna hafi verið ráðist í endurskipulagningu í því skyni að efla samkeppnishæfni á alþjóðamörkuðum, samþætta frekar starfsemina við alþjóðlega starfsemi Baader samstæðunnar og einfalda rekstur. Til stendur að samþætta starfsemi félaga í eigu Baader enn frekar með áherslu á framleiðslu véla og lausna fyrir fiskiðnaðinn.

„Baader hefur stutt fjárhagslega við Skagann 3X samstæðuna frá því að eignarhald fluttist til þeirra fyrr á þessu ári og mun gera það áfram með öflugum hætti líkt og kom skýrt fram á fundi æðstu stjórnenda Baader á dögunum með starfsfólki fyrirtækisins. Þá hefur verið endursamið um skuldbindingar og sterkur grunnur lagður að áframhaldandi starfsemi,“ segir Jeff Davis, stjórnarformaður Skagans 3X.

„Ytri aðstæður hafa verið fyrirtækjum á þessum markaði erfiðar síðustu misseri og við höfum ekki farið varhluta af því. Við höfum sem fyrr mikla trú á vörum okkar og lausnum, starfsfólki okkar og að við munum koma sterkari út úr þessari endurskipulagningu enda hefur verkefnastaðan þegar batnað.“