„Það er ljóst að sindraskel hefur æxlast og dreift sér yfir nokkuð stórt svæði í Faxaflóa, eftir að hún nam fyrst land,“ segir Karl Gunnarsson hjá Hafrannsóknastofnun í umfjöllun á vef stofnunarinnar.
Sagt var frá landnámi sindraskeljar hér við land í Fiskifréttum þann 22. október 2021. Kom þá fram að nokkrar dauðar hnífskeljar hefðu fundist í fjöru í Hvalfirði á gamlársdag 2020. Skömmu síðar hafi fundist lifandi eintak við ósa Hafnarár í mynni Borgarfjarðar. Ljóst væri að um nýjan landnema væri að ræða. Var þar vitnað til frétta frá Náttúrustofu Suðvesturlands.
Í áðurnefndri umfjöllun á vef Hafrannsóknarstofnunar segir að um þessar mundir séu þekktar átta tegundir hnífskelja í Norður-Atlantshafi. Í mörgum tilfellum geti verið erfitt að greina á milli þeirra út frá útliti.
„Líklegast þótti að um væri að ræða tegund sem á upprunaleg heimkynni sín við Nýfundnaland sem var staðfest með erfðagreiningu. Þetta er í fyrsta sinn sem þessi tegund finnst utan við upprunaleg heimkynni sín við Nýfundnaland,“ segir um tegundina sem ber latneska heitið Ensis terranovensis en hefur fengið nafnið sindraskel.
„Áhugavert verður að fylgjast með því hvernig tegundinni reiðir af í sjónum við Ísland,“ er haft eftir Karli Gunnarssyni sem segir að ungviði sindraskeljar sé nú víða að finna innan um fullvaxnar skeljar.