„Eldistilraunin gekk vel, en varð því miður nokkuð endasleppt í kjölfar þess að HS Orka tók upp á því að stöðva jarðvarmavirkjun sína föstudaginn 28. október vegna viðhalds á hverflum. Þar með fór allur hiti af eldisstöðinni og gullinrafinn drapst í kjölfarið,“ segir í ársskýrslu dýralæknis fisksjúkdóma hjá Mast fyrir árið 2022.

„Óvíst er með framhaldið, en enginn innflutningur seiða hefur átt sér stað síðan þetta kom upp.“

Jóhann Snorri Sigurbergsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar HS Orku, gerir athugasemdir við orðalag í ársskýrslu dýralæknis, segir það „óvenjulegt svo ekki sé meira sagt, auk þess sem ástæða stöðvunarinnar í lok október var ekki viðhald á hverfum.“

Engin önnur leið

HS Orka hafi ekki ekki „tekið uppá því“ að stöðva jarðvarmavirkjun sína heldur hafi þetta verið „nauðsynleg aðgerð þar sem Landsnet þurfti að fara í vinnu við tengivirki sitt hjá virkjuninni. Sú vinna, sem upphaflega var álitið að myndi taka 2 daga tók nokkru lengur. Sú lenging varð raunar ljós nokkru fyrir stöðvunina en HS Orka var upplýst um hana og var í góðu samband við fulltrúa Stolt Sea Farm í aðdraganda þessarar nauðsynlegu aðgerðar. Engin önnur leið var fær til að þessi vinna gæti farið fram.“

Jóhann Snorri segir HS Orku og Stolt Sea Farm vera í góðu samstarfi. Svo hafi verið bæði „áður en að þessu kom, meðan á þessu stóð og frá því að þessu lauk.“

Ekki var áhugi hjá Stolt Sea Farm að tjá sig um málið þegar eftir því var leitað.

Vinsæll í sushi

Stolt Sea Farm hafði ætlað að prófa gullinrafa í litlum skala samhliða eldi á senegalflúru, annarri framandi fisktegund sem Stolt Sea Farm hefur alið í stöð sinni á Reykjanesi. Fyrirtækið hefur á árunum 2021 og 2022 fjórum sinnum flutt inn gullinrafaseiði frá kynbótastöð Futuna Blue Espaňa í Andalúsíu á Spáni. Alls eru það um 25.000 seyði.

„Gullinrafi hefur hlotið aukna athygli á liðnum árum, ekki síst vegna mikilla vinsælda innan sushi geirans,“ segir í skýrslu dýralæknis fisksjúkdóma. „Gullinrafi er tvöfaldur að værðmæti miðað við lax og vex hraðar, en framleiðslukostnaður er hærri. Verðmæti fisksins felst fyrst og fremst í háum holdgæðum til sushi matargerðar, en gerð er sú krafa að fiskurinn sé alinn í lokuðu landeldi til að komast hjá sníkjudýrasmiti.“