Ekki er stuðningur meðal þingmanna Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi við bann við laxeldi í sjó. Þetta kemur fram í frétt Bæjarins besta af fundi sem þingmennirnir héldu á Ísafirði í gærkvöldi.

„Stefán Vagn Stefánsson, 1. þingmaður kjördæmisins sagði að í fjölmiðlum væri óvægin umræða um sjókvíaeldi en af hálfu Framsóknar væri ekki tekið undir að banna eldið heldur lögð áhersla á að standa vel að eldinu. Efla þyrfti eftirlit og það væri tómt mál að tala um að fara að banna sjókvíaeldið,“ segir í bb.is.

Þá segir að Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir hafi tekið undir þetta og sagst ekki mundu tala fyrir því að banna sjókvíaeldið. „Sagði hún að aðeins einn flokkur talaði fyrir banni en aðrir flokkar legðu áherslu á að gera þetta vel. Lilja nefndi sem dæmi um mögulegar aðgerðir til að vinna gegn slysasleppingum að koma upp svokölluðum árvökum sem myndu koma í veg fyrir að eldislaxar færu upp árnar,“ segir á bb.is.