Fiskeldisfyrirtækið Hábrún hefur verið rekið á Hnífsdal í rúma tvo áratugi, fyrst í þorskeldi en síðar í regnboga. Davíð Kjartansson framkvæmdastjóri segir eldið hafa gengið vel en undanfarin fjögur ár hafi baráttan við kerfið reynst erfið. Alþingi gerði breytingar á lögum um fiskeldi árið 2019, ekki síst vegna þess að lagaumhverfið hafði boðið upp á kapphlaup umsækjenda um eldissvæði, eins og það er orðað í greinargerð með frumvarpinu. Gerðar voru breytingar á afgreiðslu umsókna um rekstrarleyfi fiskeldis, og þar þurfti meðal annars að taka á því hvernig fara ætti með umsóknir sem höfðu hrúgast inn en ekki var búið að afgreiða.

„Sko. Á árunum 2016 til 2018 þá gerist eitthvað hérna í Djúpinu,“ segir Davíð. „Erlendu félögin stóru sækja um hérna út um allt. Djúpið er bara teppalagt. Ég sótti um líka hérna í Djúpinu, 11.500 tonn, sem er bara eðlilegt. Maður þurfti rými til að stækka og annað.“

Erfið saga

„Síðan er það dálítið sérstök saga, erfið og mikilvæg, af því sem hefur gengið á hérna síðustu fjögur ár,“ segir Davíð síðan og víkur máli sínu að breytingum sem Alþingi gerði á lögum um fiskeldi árið 2019 og þeim breytingum sem þar með voru gerðar á afgreiðslu umsókna um rekstrarleyfi fiskeldis.

Hábrún hafði skilað inn tillögu að matsáætlun til Skipulagsstofnunar, en alls voru 62 rekstrarleyfi í gildi þarna á vormánuðunum 2019 þegar frumvarpið var lagt fram, og að auki lá 21 umsókn fyrir hjá Matvælastofnun, og reiknað með a.m.k. 6 umsóknum til viðbótar. Kristján Þór Júlíusson ráðherra hafði lagt til að þeir sem væru búnir að skila inn tillögu að matsáætlun fyrir gildistöku laganna héldu þeim svæðum.

Engin svör

„Þetta hljómaði bara vel, þá væru allir inni og jafnir,“ segir Davíð um tillögu Kristjáns Þórs. „Við skiluðum inn tillögu okkar í byrjun árs 2018. Það fer inn til Skipulagsstofnunar og fer í umsögn þar. Við fáum hana til baka, leiðréttum hana eitthvað smávegis og sendum hana svo aftur. Allt í góðu bara. En svo á vormánuðum 2019, þegar verið er að vinna í nýju fiskeldislögunum, þá gerist eitthvað á milli annarrar og þriðju umræðu á Alþingi. Þá er öllu breytt þannig að í staðinn fyrir að miða við innsenda tillögu á matsáætlun var ákveðið að þau fyrirtæki héldu sínu svæði sem væru búin að skila inn frummatsskýrslu. Ég hef aldrei fengið svör um af hverju þetta var gert, en þetta gerir það að verkum að Skipulagsstofnun neitaði að klára mína tillögu að matsáætlun innan tiltekins tíma. Svo þegar nýju lögin voru að koma inn þá sögðu þeir: Ja, þið eruð bara of seinir.“

Heilu verkfræðistofurnar

Davíð segir þessar lagabreytingar hafa valdið því að Háafell og Arctic Fish héldu sínum svæðum í Djúpinu en Hábrún sat eftir með sárt ennið. Arnarlax hafi einnig orðið útundan í fyrstu, en engu að síður náð að tryggja sér sín svæði áfram.

„Þeir hjá Arnarlax ráða náttúrlega til sín heilu verkfræðistofurnar í vinnu til að ná sér inn á gömlu lögunum. Þetta var allt eitthvað mjög undarlegt. Þeir komust inn og eru að vinna eftir gömlu lögunum núna. Með 30 þúsund tonna burðarþolsmat. Hábrún situr eitt eftir og fær bara ekkert að vera með. Skipulagsstofnun neitaði bara að klára okkur. Við fórum í það að kæra þetta. Það voru gríðarlega mikil samtöl Skipulagsstofnunar og Hábrúnar um hvað gerðist innan atvinnuveganefndar, af hverju hlutirnir fóru svona. Það vissi enginn neitt, vildi enginn svara neinu.“

Men hrista bara hausinn

„Við erum búnir að tala við alla þingmenn á landinu og allar nefndir um þetta, og allir segja: Þetta er algerlega galið og átti ekki að fara svona. En svo hrista menn bara hausinn og segja sorrí.“

Davíð segir framhaldið vera í mikilli óvissu en gerir sér vonir um að Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra muni mögulega greiða úr málinu.

„Hún er búin að boða endurskoðun bæði á sjávarútveginum og fiskeldinu. Þetta er að stefna í óefni og ég held að hún hljóti að sjá það. Við erum að gefa Norðmönnum allt okkar fiskeldi nánast. Þetta er íslenskt félag sem er búið að vera í samfelldu eldi hérna, búið að byggja upp mannauð og er með fullt af manns í vinnu. Við höfum verið að fullvinna silunginn hérna, flaka hann og beinhreinsa, setja í neytendapakkningar. Og þó það sé ekkert mikið magn þá höfum við byggt upp dýrmæta markaði í Frakklandi og út um allan heim,“ segir hann.

Skipulagsstofnun kærð

Það var í júní 2021 sem Hábrún kærir Skipulagsstofnun til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Niðurstaða nefndarinnar varð sú að Skipulagsstofnun hafi verið óheimilt að hafna því að taka tillögu að matsáætlun til meðferðar og beri stofnuninni að taka til formlegrar afgreiðslu án frekari tafa tillögu kæranda að matsáætlun.

Málinu er þó ekki lokið með sigri Hábrúnar, því eftir stendur að tillagan hafði ekki verið afgreidd þegar nýju lögin tóku gildi.

Sanngirnismál dauðans

„Ég vil bara að hlutirnir séu sanngjarnir. Þetta er sanngirnismál dauðans. Ég trúi því að við viljum hafa einhver íslensk fyrirtæki í fiskeldi líka og jafnræðisregla og meðalhóf er mér ofarlega í huga. Staðan í Ísafjarðardjúpi núna er þannig að fjögur fyrirtæki eru mjög nálægt hvort öðru, lítil fjarlægðarmörk virt við þá sem fyrir eru og eitt fyrirtækið búið að halda svæðum jafnvel í áratugi með einhverjum tæknilegum útfærslum og aldrei sett fisk í sjó. Þetta skiptir bara miklu máli varðandi sjúkdómavarnir og annað. Ég lít svo á að erlendu fyrirtækin á íslandi séu komin í góða stærðar hagkvæmni sem er mikilvægt en íslensku fyrirtækin þurfa að komast þangað líka.“

Slátrun hjá Sjávareldi
Slátrun hjá Sjávareldi

Byrjuðu með þorskeldi

Davíð rekur sögu Hábrúnar til þess að hann stofnaði, ásamt Hallgrími bróður sínum, útgerðar- og fiskeldisfyrirtækið Sjávareldi.

„Þá var ég að veiða á línu. Við byrjuðum í þorskeldi og erum með kvíar hérna á firðinum.“

Davíð byrjaði á því að taka smáþorsk lifandi og setja í kvíarnar.

„Ég flokka smáfiskinn frá og held honum lifandi um borð og set hann í kvíar á leiðinni í landi, fóðra hann og hann stækkar um sumarið alveg um helming eða meira. Þannig byrjar það.“

Í framhaldinu fóru þeir bræður í aleldi á þorski.

„Við létum veiða fyrir okkur smáfisk í snurvoð og net, ólum hann og vorum með fleiri hundruð tonn hérna af þorski í kvíum. Þorskeldið gekk rosalega vel, og það er dálítið skemmtileg saga í kringum það. En um leið og hætt var að setja kvóta í það var grundvellinum kippt undan því.“

Sótti fisk eftir pöntun

Meðan best gekk í þorskeldinu veiddi Davíð 200 tonn af smáþorski og seldi hann á haustin þegar hann var búinn að stækka í kvíunum yfir sumarið.

„Ég var alltaf með fleiri hundruð tonn af þorski sem ég seldi á mörkuðunum. Fór bara á fiskmarkaðina hérna þegar voru brælur fyrir sunnan og við sögðumst vera með kannski tíu tonn af þorski af þessari stærð. Svo sæki ég hann bara ef hann selst. Setti alltaf fyrirvara, lágmarksverð og menn keyptu af því þá vantaði fisk. Ég fékk alltaf hæstu verð og fiskurinn var svo góður að þeir voru farnir að hringja í mig og panta fisk. Borguðu það sem ég setti upp af því ég gat afhent hann þegar þeir þurftu.“

Þurfti kvóta

„Þetta var verðlaus fiskur sem ég notaði í þetta, smáfiskur sem menn eru ekkert að hirða mikið en hentaði vel í þetta. Við tókum hann sem meðafla en kvótakerfið er bara þannig að það þarf kvóta í þetta. Þetta fékk ekkert rosa mikinn stuðning, en þetta gekk vel og skapaði mikið af störfum. Í kringum þetta hérna hjá mér eru búnir að vera 12 til 17 manns í vinnu síðan 2000. Í þorskeldinu og svo silungseldinu.“

Starfsemin breyttist árið 2014 þegar þeir bræður stofnuðu Hábrún og fóru í silungseldi.

„Þá koma inn í þetta fleiri aðilar, sterkir fjárfestar með taugar hingað vestur. Þetta eru félagar okkar sem eru búsettir hérna eða hafa tengingu og taugar hingað. Við förum í silunginn og þetta gekk bara út á að byggja upp öflugt fiskeldi. Við bræður vorum með silungseldi líka í Dýrafirði árið 2011, þannig að við erum búnir að vera viðloðandi þetta lengi.“

Komnir í silunginn

Hábrún er ekki með umfangsmikið eldi. Framleiðslan er um 200-400 tonn á ári en Hábrún er með samtals 900 tonna leyfi í dag, þar af 250 tonn af þorski og 650 tonn af silungi.

„Við erum enn með starfsleyfi í þorskeldi en erum ekkert að nýta það eftir að grundvellinum var kippt undan því. Hábrún var stofnuð 2014 og sameinaðist Sjávareldi og þá var hugurinn bara í því að efla fiskeldið. Hætta í þorskinum en fara í silungseldið. Auðvitað vantar gríðarmikinn pening en við höfum verið að safna með okkur fólki til að koma í þetta. Um tíma var ekkert auðvelt að fá aðila til að fjárfesta í fiskeldi, bankarnir vildu ekkert skoða þetta. En þetta var hópur sem hafði mjög mikinn áhuga á að byggja upp fiskeldi, flottur hópur.“