Það er niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að ekki séu forsendur til íhlutunar vegna kaupa Síldarvinnslunnar í Neskaupstað á öllu hlutafé í útgerðarfélaginu Vísi í Grindavík. Greint var frá því í júlí síðastliðnum að Síldarvinnslan hefði keypt Vísi á 31 milljarð kr. og er greitt fyrir hlutinn með reiðufé og hlutabréfum í Síldarvinnslunni hf.

Samkeppniseftirlitið skoðaði málið einnig miðað við víðtækari eignatengsl Síldarvinnslunnar við Samherja hf. og Gjögur hf./Kjálkanes ehf. Leiddi sú skoðun til sömu niðurstöðu.

„Það er niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að ekki séu forsendur til íhlutunar, hvort sem litið er til hinna þrengri eða víðtækari yfirráða. Þannig eru ekki forsendur til þess að ætla að markaðsráðandi staða sé að myndast eða styrkjast, auk þess sem breyting á samþjöppun vegna kaupa á Vísi er undir þeim viðmiðum sem stuðst er við í evrópskum samkeppnisrétti. Þá gefa fyrirliggjandi gögn ekki til kynna að samkeppni raskist að öðru leyti,“ segir í frétt frá eftirlitinu.

Fundað með Fiskistofu

Í frétt eftirlitsins er líka sérstaklega vikið að því að það sé verkefni Fiskistofu að fylgja eftir að farið sé að ákvæðum fiskveiðistjórnunarlaga um hámarks aflahlutdeild.

„Fyrir liggur í málinu að aflahlutdeild samrunaaðila kunni að fara yfir hámarkshlutdeild samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða, hvort sem miðað er við þau yfirráð sem samrunaaðilar byggja á í samrunaskrá eða möguleg víðtækari yfirráð. Við mat og mögulega úrlausn á þessu kemur til kasta Fiskistofu. Í tilefni af málinu hefur Samkeppniseftirlitið átt fund með Fiskistofu og gert henni grein fyrir vísbendingum um víðtækari yfirráð. Mun Samkeppniseftirlitið veita Fiskistofu frekari upplýsingar, ef nauðsynlegt þykir.“

Þá segir að með ákvörðuninni sé ekki tekin endanleg ákvörðun um yfirráð yfir Síldarvinnslunni í skilningi samkeppnislaga. „Kunna málefni þessi því að koma til frekari rannsóknar á síðari stigum. Áður en rannsókn á samrunanum hófst kynnti Samkeppniseftirlitið jafnfram ákvörðun um að hefja heildstæða athugun á stjórnunar- og eignatengslum sjávarútvegsfyrirtækja.“