„Hér eru lítil atvinnusóknarfæri og þetta er náttúrlega hrein viðbót við atvinnulífið,“ segir Hjálmar Bogi Hafliðason, forseti sveitarstjórnar Norðurþings, um aukin umsvif fiskeldisfyrirtækisins Rifóss í Öxarfirði.

Rifós, sem er í eigu Fiskeldis Austfjarða, fékk nýlega samþykkta breytingu á deiliskipulagi til að geta stækkað lítillega byggingarreit fyrir eldisstöð sína á Röndinni við Kópasker.

Að sögn Fannars Helga Þorvaldssonar, framleiðslustjóra Rifóss, þurfti betra vinnurými við kerin. Vegna sprungu á svæðinu hafi borsvæði eftir jarðsjó sömuleiðis verið stækkað  til að koma í veg fyrir of mikið álag á sama blettinn. Framleiðslugeta eldisins á að verða um 8.800 tonn af laxaseiðum á ári 32 kerjum. Fyrsti áfangi með átta kerjum er kominn í gagnið. 

„Næsti áfangi er annað hús með átta kerjum. Við erum að leita að verktökum og vonum að við getum farið í hann á næsta ári,“ segir Fannar.

Flöskuháls og leit að verktökum

Seiðin sem alin eru í nýju stöðinni koma úr ferskvatni í eldri stöð Rifóss í Lóni í Kelduhverfi og eru flutt á milli stöðvanna er þau hafa náð um 70 gramma þyngd. Á Kópaskeri eru seiðin alin í volgum jarðsjó upp í 200 til  600 grömm áður en þau eru flutt í sjókvíar Fiskeldis Austfjarða á Austurlandi.

Fannar Helgi Þorvaldsson, framleiðslustjóri Rifóss. Mynd/Aðsend
Fannar Helgi Þorvaldsson, framleiðslustjóri Rifóss. Mynd/Aðsend

„Flöskuhálsinn í framleiðslunni hjá okkur er í rauninni Kópasker. Við getum framleitt meira í ferskvatninu í Lóni,“ segir Fannar.

Í dag er Rifós með 21 starfsmann. Fannar segir að þegar stöðin á Kópaskeri verði fullbyggð þurfi í allt um þrjátíu starfsmenn. Mjög vel hafi gengið að fá fólk til vinnu.

„Það koma margir frá Húsavík og Kópaskeri. Við keyrum á milli,“ segir hann. Um 45 kílómetrar eru frá Húsavík að Lóni og síðan 55 kílómetrar þaðan á Kópasker.

Hækkandi fasteignaverð

„Þetta er bara mjög jákvætt og eitt af því sem valdið hefur hækkandi fasteignaverði. Það er verið að byggja parhús á Kópasker en þar hefur ekki verið byggt í mörg ár. Þetta eru því mjög jákvæðar breytingar og styrkir vonandi það sem fyrir er á Kópaskeri og í Öxarfirði,“ segir Hjálmar um áhrif þessarar auknu starfsemi Rifóss.

Nýti auðlindir vil velferðar

„Vonandi stækkar þetta verkefni þannig að við séum að nýta þær auðlindir sem við höfum til að skapa atvinnu og standa undir velferð,“ heldur Hjálmar og vísar til þess að á svæðinu sé gnægð af jarðsjó.

HHjálmar Bogi Hafliðason, forseti sveitarstjórnar Norðurþings. Mynd/Aðsend
HHjálmar Bogi Hafliðason, forseti sveitarstjórnar Norðurþings. Mynd/Aðsend

Seiðin eru á endanum alin upp í sláturstærð í sjókvíum Fiskeldis Austfjarða við Berufjörð og Fáskrúðsfjörð. Engum fiski er því slátrað úr þessu eldi við Öxarfjörð. Hjálmar sér þó gjarnan að breyting verði á því.

„Miðað við alla umræðuna um sjókvíaeldi er spurning hvort við séum sem samfélag að fara að færa eldi upp á land,“ segir Hjálmar.

Mikil uppbygging hjá Samherja

Forseti sveitarstjórnarinnar bendir á að Samherji hafi stækkað landeldi sitt undir merkjum Silfurstjörnunnar mjög mikið í Öxarfirði. Að því er einmitt vikið í tilkynningu frá Samherja þar sem sagt er frá afkomu ársins 2022.

„Framkvæmdir við stækkun landeldisstöðvarinnar Silfurstjörnunnar í Öxarfirði hófust í byrjun árs 2022 og er áætlað að framkvæmdum ljúki í nóvember á þessu ári. Segja má að stækkun Silfurstjörnunnar sé nokkurs konar undanfari uppbyggingarinnar á Reykjanesi,“ segir í tilkynningu Samherja þar sem vísað er til áforma fyrirtækisins um að byggja upp allt að 40.000 tonna landeldi við Reykjanesvirkjun.

Verður áfram sambland

Starfsmenn Rifóss taka á móti hrognum frá Benchmark.  Mynd/Aðsend
Starfsmenn Rifóss taka á móti hrognum frá Benchmark. Mynd/Aðsend

„Þetta er náttúrlega kjörið svæði til þess að byggja upp flott landeldi,“ segir Hjálmar um Öxarfjörð og Kópasker. Þar sé mjög stutt niður á heitt vatn.

„Það eru mikil tækifæri í Öxarfirði í hvers konar framleiðslu, hvort sem það er grænmeti eða fiskeldi. Það er mín persónulega skoðun að eldi muni færast upp á land í framtíðinni,“ segir Hjálmar. Öxarfjörður og Kópasker séu kjörinn staður fyrir það.

„Það verður seint. Þetta verður áfram í samkurli landeldis og sjóeldi,“ svarar Fannar hins vegar þegar hann er spurður hvort fiskarnir hjá Rifósi verði hugsanlega aldir upp í sláturstærð í Öxarfirði.

Samtal við ríkið um hafnarmál

Laxaseiðunum er dælt um rör um borð í seiðaflutningaskip sem leggst við akkeri. Mynd/Að
Laxaseiðunum er dælt um rör um borð í seiðaflutningaskip sem leggst við akkeri. Mynd/Að

Er fiskarnir hafa náð réttri stærð í stöðinni á Kópaskeri er þeim dælt um plaströr út í brunnbát sem leggst við akkeri á hafnarsvæðinu.

„Í höfninni eru lítil umsvif í sjávarútvegi og við þurfum að ræða við ríkið um uppbyggingu hennar. Brunnbáturinn er bara á legu fyrir utan, dælir seiðunum og það fara ekki tekjur í hafnarsjóðinn af því,“ nefnir Hjálmar Bogi sem málefni sem þurfi að huga að.