Í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað hefur verið sett upp lítil verksmiðja frá HPP Solutions ehf. en HPP er dótturfyrirtæki Vélsmiðjunnar Héðins. HPP hóf fyrir nokkrum árum framleiðslu á litlum fiskimjölsverksmiðjum sem nefndar eru próteinverksmiðjur. Fiskifréttir hafa undanfarin misseri nokkrum sinnum sagt frá þessum verksmiðjum.

Síldarvinnslan segir nýju verksmiðjuna standast allar væntingar hvað varðar afköst og gæði afurða. Á heimasíðu Síldarvinnslunnar segir enn fremur:

„Þessi litla verksmiðja í Neskaupstað samanstendur af tveimur línum og afkastar hvor 190 tonnum á sólarhring þannig að heildarafköst hennar eru 380 tonn. Að auki verður hin svonefnda stóra verksmiðja stækkuð og ætti framkvæmdum við hana að ljúka seint á næsta ári. Að framkvæmdum loknum mun stóra verksmiðjan afkasta 2.000 tonnum á sólarhring þannig að heildarafköst í verksmiðjunni verða 2.380 tonn að öllum framkvæmdum loknum.

Starfsmennirnir sáttir

Heimasíðan ræddi við Hafþór Eiríksson, rekstrarstjóra fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar, og spurði hvernig gangsetning litlu verksmiðjunnar hefði gengið. „Við byrjuðum á að reyna aðra línuna en sólarhringsafköst hennar eru 190 tonn. Nú hefur hún verið samfellt í gangi í um tvær vikur og allt hefur gengið vel. Það hefur tekið sinn tíma að stilla verksmiðjuna en það hefur ekki verið vandkvæðum bundið. Ljóst er að verksmiðjan skilar góðum afurðum og fyrstu mælingar vita á gott. Segja má að allar væntingar hvað varðar afköst og gæði afurða hafi staðist. Starfsmennirnir eru mjög jákvæðir og þeim finnst gott að keyra verksmiðjuna, en það skiptir auðvitað miklu máli. Til þessa hefur verið unnin síld í verksmiðjunni en í desember fáum við kolmunna til vinnslu og þá er ætlunin að nýta báðar línur verksmiðjunnar.“

Hráefnið unnið strax

„Þegar fiskiðjuverið er að vinna passar þessi litla verksmiðja vel til að vinna afskurð og brottkast frá því. Hingað til hefur afskurði og brottkasti frá verinu verið safnað saman og síðan hefur það verið unnið í stóru verksmiðjunni. Nú þarf hins vegar slík söfnun ekki að eiga sér stað heldur er hráefnið unnið strax þegar það er ferskt. Þetta skiptir miklu máli og hefur að sjálfsögðu áhrif á gæði afurða. Eins skapar tilkoma litlu verksmiðjunnar mikla möguleika á sviði orkuhagræðingar en gert er ráð fyrir að orkusparnaður með tilkomu hennar nemi allt að 30%. Þá er ljóst að unnt er að nýta litlu verksmiðjuna til ýmissa þróunarverkefna og það er ótvíræður kostur,“ segir Hafþór.

Hafþór segir að tilkoma litlu verksmiðjunnar skapi margvíslega möguleika og með tilkomu hennar verði unnt að keyra stóru verksmiðjuna og litlu verksmiðjuna á sitthvoru hráefninu. „Það skapast fjölmargir möguleikar með tilkomu litlu verksmiðjunnar og það verður spennandi að nýta þá í framtíðinni,“ segir Hafþór.

Fulltrúar HPP: Þórður Elefsen þjónustustjóri, Gunnar Pálsson þróunarstjóri og Ragnar Sverrisson framkvæmdastjóri. MYND/Smári Geirsson
Fulltrúar HPP: Þórður Elefsen þjónustustjóri, Gunnar Pálsson þróunarstjóri og Ragnar Sverrisson framkvæmdastjóri. MYND/Smári Geirsson

Öll vandamál leyst

Heimasíðan ræddi við þá Ragnar Sverrisson, framkvæmdastjóra HPP, Þórð Elefsen þjónustustjóra og Gunnar Pálsson þróunarstjóra. Voru þeir fyrst spurðir hvernig uppsetning litlu verksmiðjunnar hefði gengið. Fram kom í máli þeirra að uppsetningin hefði gengið afar vel og allt samstarf við Síldarvinnsluna hefði verið frábært. Öll vandamál, sem upp komu, voru leyst farsællega og töldu þeir verksmiðjuna lofa afar góðu. Þeir töluðu um að spennandi yrði að sjá hvernig verksmiðjan virkaði við framleiðslu úr mismunandi hráefni; nú sé verið að vinna síld í henni en í desember verði væntanlega unninn kolmunni og svo komi röðin að loðnu.

„Þetta er allt ákaflega spennandi,“ sögðu þeir félagar. Þórður hafði orð á því að allir sem komið höfðu að uppsetningu verksmiðjunnar hefðu skilað hlutverki sínu eins vel og hægt væri að hugsa sér. „Við höfum haft frábæra starfsmenn og verktaka sem unnið hafa að uppsetningunni og hönnuðirnir hafa unnið mjög gott starf. Þetta hefur nánast allt gengið eins og í sögu,“ segir Þórður.

Komnar í sex veiðiskip

Þeir Gunnar og Ragnar upplýstu að verksmiðjur frá HPP væru nú komnar í sex veiðiskip auk þess sem slíkar verksmiðjur væru teknar til starfa í Noregi og Færeyjum. Verksmiðjan hjá Síldarvinnslunni væri hins vegar fyrsta verksmiðjan hér á landi. Þá gátu þeir þess að ráðgert væri að nýta stóran HPP-þurrkara í stóru verksmiðju Síldarvinnslunnar til hliðar við hefðbundinn þurrkara og þar væri um að ræða merka og áhugaverða nýjung.

„Ef vel gengur má gera ráð fyrir að HPP- þurrkarar leysi hefðbundna þurrkara af hólmi með tímanum,“ segir Gunnar."