Fyrirtækið Öryggisstjórnun ehf. hefur gert samstarfssamninga til þriggja ára við þrjú útgerðarfélög um að koma á samræmdum og stafrænum áherslum í skipulagi og framkvæmda öryggismála í útgerðarstarfsemi fyrirtækjanna. Útgerðirnar eru Vísir hf., Skinney-Þinganes hf. og Gjögur hf. Sagt er frá þessu í sérblaði Fiskifrétta, Öryggi í sjávarútvegi, sem kom út í dag.

Gísli Níls Einarsson, eigandi Öryggisstjórnunar ehf., segir að á alþjóðavísu sé rætt um íslenskan sjávarútveg sem Kísildalinn (e Silicon Valley) hvað varðar veiðar, meðhöndlun fisks og vinnslu og tækni og hugvits. Markmiðið sé að gera öryggismál sjómanna hluta af þessum Kísildal. „Við höfum fækkað banaslysum til sjós en ennþá slasast á annað hundrað sjómenn á hverju ári og enn fleiri ef öll minniháttar slysin eru talin með.“

„Mín sýn er sú að samræma áherslur í skipulagi og framkvæmd öryggismála til sjós. Það er mín reynsla í gegnum fyrri störf að talsvert ósamræmi er milli útgerða og skipa innan sömu útgerðar á skipulagi og framkvæmd öryggismála sjómanna. Þar er átt við nýliðafræðslu, áhættumat, björgunaræfingar og eftirlit með búnaði.“

Virkja sjómenn

Til að einfalda allt skipulag á öryggismálum ætlar Öryggisstjórnun ehf. að nýta stafrænar lausnir og færa öryggismálin nær sjómönnunum með þeim hætti. Þær nýtast einnig skipstjórnendum að einfalda allt skipulag og umfang alls þess sem lýtur að öryggismálum. Sömuleiðis er fyrirtækið í þróunarsamstarfi við útgerðirnar með þróun stafrænna lausna sem verða í raun öryggisstjórnunarkerfi fyrir fiskiskipin. Markmiðið er að virkja sjómenn meira þegar kemur að öryggismálum.

„Ég hef beitt ákveðinni aðferðarfræði til þess að geta samræmt skipulag öryggismála hjá útgerðunum og hún felst í því að ég tek viðtöl við alla skipstjórnendur og lykilstjórnendur útgerðanna um þeirra upplifun og hvað megi betur fara. Upp úr viðtölunum greini ég hvernig skipulagið er um borð í skipunum og kalla eftir gögnum. Það sem hefur komið í ljós að talsverður munur er á þessu skipulagi milli skipa, jafnvel innan sömu útgerða.“

Öryggisvísitala sjómanna

Gísli hefur líka þróað mælitæki sem hann kallar öryggisvísitölu sjómanna. Um er að ræða könnun meðal sjómanna útgerðanna. Spurt er um ákveðna þætti sem mynda öryggisvísitöluna, eins og t.a.m. skuldbindingu þeirra við fyrirtækið, upplifun þeirra á samstarfsfélögunum hvað snertir öryggismálin, vinnuumhverfið, öryggisþjálfun og skipulag öryggismála. Könnunin var gerð meðal sjómanna hjá öllum útgerðunum þremur og svarhlutfallið var um 90%.

„Niðurstöður könnunarinnar endurspegla það sem kemur fram í viðtölunum við skipstjórnarmenn og þau gögn sem ég hef greint. Upp úr þessu hefur orðið til öryggisvísitala sjómanna sem leiðir í ljós á hvað eigi að leggja áherslu á í öryggisvegferð útgerðanna. Mælitækið hjálpar mér að nálgast hvert skip fyrir sig og útgerðina í heild sinni. Og nú er kominn samanburður milli þessara útgerða með öryggisvísitölunni. Það er munur milli útgerða en í grunninn eru þær líka að glíma við sömu grunn áskoranirnar í öryggismálum. Það er mín sýn að fá sem flestar útgerðir til að taka þátt í öryggisvísitölunni því það gæfi heildsætt yfirlit yfir stöðu þessara mála um landið allt.“