Guðmundur H. Gunnarsson, nýsköpunarstjóri hjá Skinney-Þinganesi á Hornafirði, hvetur öll fyrirtæki í sjávarútvegi til nýsköpunar. Hann segir óbreytt ástand vera „versta ástand sem öll fyrirtæki geta verið í.“ Það sé þjóðarbúinu „mjög mikilvægt að við séum alltaf að leita lausna til að verða skilvirkari.“

Sindri Sigurðsson, verkefna- og þróunarstjóri hjá Síldarvinnslunni, tekur í sama strend en leggur áherslu á að í þessum efnum eigi það við, eins og víðar, að þolinmæði er dyggð.

Þeir tóku þátt á sjávarútvegserindi á vegum Þekkingarseturs Vestmannaeyja þriðjudaginn 19. janúar, en setrið hefur nú um nokkurt skeið efnt reglulega til erinda um ýmis málefni er tengjast sjávarútvegnum.

Kolbrún Bjargmundsdóttir, sérfræðingur hjá Rannís, fjallaði þar um Rannís-styrki fyrir sjávarútveg og ræddi einnig um skattafrádrátt rannsókna- og þróunarverkefna.

Milljarðar

Hún sagði sjóðinn hafa stækkað verulega og er hann núna þrír milljarðar.

„Hvað sjávarútveg áhrærir þá hafa verkefni tengd honum hlotið um 20 prósent styrkveitinga úr sjóðnum á árunum 2011 til 2019, og raunar meira til því sumt af því fellur undir aðra flokka svo sem verslun og þjónustu eða heilbrigðistækni og lækningatæki,“ sagði hún.

„Heildarfjármagnið til sjávarútvegstengdra verkefna á þessu árabili nemur nærri 2,5 milljörðum króna.“

Guðmundur segir að lengst af hafi sjávarútvegurinn staðið aðeins til hliðar við fyrirtæki sem stunda nýsköpun af krafti en lausnir frá þeim hafi síðan komið inn í sjávarútveginn. Til þess að sjávarútvegsfyrirtækin geti sjálf tekið þátt í nýsköpun á markvissan hátt þurfi þau „að læra ákveðið tungumál og skilja eðli nýsköpunar.“

Hann segir það ákveðið vandamál að fyrirtæki hafi ekki „aðgengi að þekkingu til að byggja undir nýsköpun innan fyrirtækjanna.“

Krísustjórnun

„Það er svolítið þannig að íslenskur sjávarútvegur er ekki staðlaður iðnaður, í grunninn erum við að tala um krísustjórnun. Við vitum stutt fram í tímann. Það eru margar breytur. Fólkið sem velst þarna inn er gott í snöggum ákvörðunum og bregðast við breyttum aðstæðum.“

Þetta sé nokkuð sem sjávarútvegsfyrirtæki þurfi að bæta úr og hafi verið að bæta úr hjá sér, þau þurfi þá hreinlega „að búa til eigin þekkingu til að geta stundað eigin nýsköpun. Svo þarftu að hafa eitthvað tengslanet og þú þarft að byggja upp bakland innan fyrirtækjanna.“

Trúin á að þetta geti skilað árangri þurfi síðan að vera fyrir hendi innan fyrirtækisins, allt frá efstu yfirstjórn og niður úr. Auk þess verði fyrirtækin að „geta komið með þolinmótt fjármagn inn í þetta og svo þurfa þau að þora að ráðast á hlutinn.“

Svolítið sósíalískt

Þeir Guðmundur og Sindri minntust báðir á Félag uppsjávariðnaðarins, sem er samstarfsvettvangur uppsjávarfyrirtækjanna um rannsóknar- og þróunarstarf.

„Þar er kannski verið að reyna að setja á blað verkefnapakka sem samanstanda jafnvel af mörgum verkefnum hver, en þau eiga síðan alveg eftir að mótast í einhverjar áttir,“ sagði Sindri. „Verkefnið sem slíkt bara teiknað upp mjög gróft en undir því geta svo verið mörg verkefni. Ég held að svona verkefnapakkar með flóru af fyrirtækjum gefi mjög góða línu út í bæði háskólasamfélagið og þetta rannsóknarsamfélag.“

Hann segist gera sér vonir um að þetta form geti ýtt þessari þróun eitthvað lengra á veg.

„Þá er það líka spurningin hvað eiga fyrirtækin sjálf að vera að rannsaka þegar samgangur milli fyrirtækja er er í raun dálítið mikill. Ef þú tekur bara fiskimjölsverksmiðjur, þær eru átta eða níu. Eiga þær allar að fara að rannsaka sama hlutinn? Það eru svona praktískt atriði sem þarf að fara í. Það er hægt að búta niður svona verkefni og það er þá hægt dreifa þeim þá á milli fyrirtækjanna og sérhæfa. Þá njóta allir í raun og veru ávaxtanna. Þetta er svolítið sósíalískt en ef þetta virkar þá hagnast þjóðfélagið í raun miklu meira heldur en ef allir eru að velta sér upp úr sömu körfunni.“