Nýtt öryggisstjórnunarkerfi fyrir fiskiskip, Alda, er nú í prófun um borð í Páli Jónssyni GK og verður í framhaldinu prófað í öðrum skipum Vísis hf., skipum Skinneyjar-Þinganess og Gjögurs næstu þrjá mánuði. Um er að ræða hugbúnað sem er einfaldur í notkun í snjallsímum og tölvum og heldur utan um helstu öryggisatriði hvers skips fyrir sig, nýliðaþjálfun, björgunaræfingar, neyðaráætlun og áhættumat, svo fátt eitt sé nefnt. Stefnt er að því að kerfið verði fullbúið til notkunar næsta haust.

Alda er gagnadrifið öryggisstjórnunarkerfi sem einfaldar allt utanumhald á öryggismálum sjómanna og útgerða á stafrænan máta. Það samræmir áherslur í öryggismálum um borð í öllum skipum í samræmi við íslenskar og alþjóðlegar kröfur um öryggismál fiskiskipa og sjómanna.

Draumateymið

Teymið á bak við Öldu býr samtals yfir 50 ára reynslu í öryggisstjórnun, nýsköpun og hugbúnaðargerð. Sýn þeirra er að nútímavæða öryggisstjórnun til sjós með nýsköpun og stafrænum lausnum í samvinnu við íslenska sjómenn. Gunnar Rúnar Ólafsson og Gísli Níls Einarsson hafa lengið brunnið fyrir öryggismálum sjómanna og fóru báðir ungir til sjós og hafa starfað í bráðageiranum í yfir 25 ár. Gunnar sem slökkviliðsmaður, bráðatæknir, og var á sínum tíma fyrsti öryggisstjóri hjá Samherja. Gísli Níls sem bráðahjúkrunarfræðingur, öryggissérfræðingur og vann lengi við ráðgjöf á sviði öryggismála sjómanna hjá tryggingafélaginu VÍS en hann er jafnframt hugmyndasmiðurinn á bak við ATVIK-Sjómenn, rafræna atvikaskráningu til sjós.

Síðasta vor fengu þeir félagar til liðs við sig öfluga og reynslumikla aðila í nýsköpun og hugbúnaðargerð, þá Guðmund Grétar Sigurðsson, hugbúnaðarsérfræðing með sérfræðiþekkingu í uppsetningu og þróun sérhæfðra upplýsingakerfa, og Höskuld Þór Arason, rafmagnsverkfræðing með sérfræðiþekkingu á gagnasöfnun og vinnslu gagna. Gísli Níls segir að á þeim tímapunkti hafi myndast „draumateymið“ í kringum þróun Öldunnar.

Á annað hundrað slysa á sjó

„Það hefur einstakur og eftirtektarverður árangur náðst í fækkun banaslysa til sjós sem má að stórum hluta rekja til frábærs starfs Slysavarnaskóla sjómanna undir forystu Hilmars Snorrasonar skólastjóra. Enn verða þó á annað hundrað slys á sjómönnum ár hvert með tilheyrandi samfélagskostnaði og oft óafturkræfanlegu heilsutjóni,“ segir Gísli Níls, en Slysavarnaskóli sjómanna er einn af þróunarsamstarfsaðilum Öldunnar ásamt Fisktækniskólanum og Tækniskólanum.

Banaslysum  til sjós hefur stórlega fækkað en enn verða þó á annað hundrað slys á sjómönnum ár hvert. MYND/AÐSEND
Banaslysum til sjós hefur stórlega fækkað en enn verða þó á annað hundrað slys á sjómönnum ár hvert. MYND/AÐSEND

Endurgjöf frá sjómönnum

Prófanirnar um borð í Páli Jónssyni GK hjá Vísi hf., hafa þegar skilað sér í endurgjöf frá sjómönnunum sjálfum sem Ölduteymið nýtir til að betrumbæta stöðugt öryggisstjórnunarkerfið enda svífur nýsköpunarandinn yfir Vísis útgerðinni sem Öldu teymið hefur notið góðs af. Þeir félagar lögðu strax mikla áherslu á náið samstarf við sjómenn og tóku yfir 30 notendaviðtöl áður en frumgerð Öldunnar leit dagsins ljós. Gunnar Rúnar segir öryggistjórnunarkerfið stuðla að öflugri öryggismenningu með virkari þátttöku sjómanna í öryggismálum um borð. Það styður við forvirkar aðgerðir og forvarnir í öryggismálum sjómanna s.s. björgunaræfingum, reglubundnum úttektum og áhættumati til að fækka slysum á sjó. Gagnagrunnur öryggisstjórnunarkerfisins mun mynda mælikvarða um stöðu og virkni útgerða og sjómanna í öryggismálum til sjós á landsvísu. Slíkur mælikvarði yrði einstakur og leiðandi á heimsvísu enda hyggst Ölduteymið ekki láta staðar numið á Íslandi heldur eru áform uppi um að markaðssetja það líka erlendis.

Vandfundinn er sá sjómaður sem ekki er með snjallsíma. Öldu appið er aðgengilegt í snjallsímanum, með eða án nettengingar. Einnig mun Alda vera aðgengilegt stjórnendum útgerðarfyrirtækja, jafnt í tölvum og símum, sem gerir þeim kleift að fylgjast með stöðu öryggismála um borð í sínum skipum. Í notendaviðtölunum lögðu sjómenn mikla áherslu á að Öldu-appið yrði í upphafi einfalt og notendavænt. Í dag er hægt að skrá æfingar, hverjir tóku þátt og fá hugmyndir að æfingum í æfingabankanum. Einnig er hægt að gera vikulegar, mánaðarlegar og aðrar reglubundnar eigin skoðanir um borð í skipunum t.d. sjónskoðun á léttbát eða úttekt á öllum slökkvitækjum. Nýliðaþjálfunin byggir á öryggisplani skipsins og tryggir að allir fái sömu nýliðaþjálfunina. Í „Lestinni“ þar sem verðmætin eru geymd er neyðaráætlun skipsins, klefafyrirmæli, öryggishandbók og áhættumat ásamt fræðsluefni frá Samgöngustofu og Slysavarnaskóla sjómanna.

Næstu skref

„Stofnendur Öldu lögðu til eigið fé í upphafi til að kaupa sérfræðiþjónustu erlendra hugbúnaðarsamstarfsaðila og fengu vorið 2022 styrk frá Siglingaráði sem skipti sköpum í gerð frumgerðar Öldu. Þetta var mikil hvatning og viðurkenning til stofnendanna um nýsköpun og þróun á öryggisstjórnunarkerfinu,“ segir Gísli Níls. Nú eru þeir í viðræðum við alla hagsmunaðila í öryggismálum sjómanna um fjárhagslegan stuðning við gerð Öldunnar til að klára þróunina á öryggisstjórnunarkerfinu og eru fullvissir um að allir muni leggjast saman á árarnar í þeim efnum.

Samhliða gerð Öldunnar ætlar teymið að þróa app fyrir smábátaflotann sem byggir á sömu grunnatriðum. Appið kallast Agga, sem þýðir smáalda og er hugmyndin að Agga verði aðgengilegt öllum smábátasjómönnum endurgjaldslaust.