KAPP kynnti nýja OptimICE krapavél fyrir smábáta á sjávarútvegssýningunni í Barcelona sem er hönnuð fyrir smábáta. Vélin hefur verið hönnuð upp á nýtt frá grunni með því markmiði að þjóna öllum þörfum smábáta bæði í stærð, afköstum og aðgengi. Breiddin á nýju krapavélinni er einungis 59 cm og kemst því inn um allar hurðir. Hæðin er 100 cm og dýptin 78 cm.

,,Við hjá KAPP erum afar ánægð og stolt að geta boðið upp á sérhannaða OptimICE krapavél fyrir smábáta. Með vélinni er krapinn framleiddur úr sjó um borð í bátnum og leysir af flöguís. Krapinn umlykur fiskinn og kælir hann mjög fljótt niður undir 0°C og heldur honum í um -0,5°C allan veiðitúrinn, í löndun og flutningum. Við þetta aukast gæðin til muna og hillutíminn lengist um 5-7 daga. Þetta er mikil bylting fyrir smábátaeigendur að geta haft krapavél um borð hjá sér," segir Freyr Friðriksson, eigandi KAPP.

OptimICE krapavélarnar eru hannaðar, framleiddar, seldar og þjónustaðar af KAPP ehf. OptimICE vélarnar hafa verið seldar um allan heim síðan árið 1999.