Í tengslum við Seafood Expo sjávarútvegssýninguna í Barcelona fer fram samkeppni um bestu vörulínuna í flokki sjávarafurða. Næra frá Fáskrúðsfirði var eina íslenska fyrirtækið sem komst í úrslit í samkeppni um bestu vöruna inn á smásölumarkað fyrir Næra fiskisnakk og þurrkaða loðnu með hrognum. Hörður Kristinsson, stofnandi Næru, kvaðst sáttur við að hafa komist í úrslitin með vörulínuna þótt hann hafi orðið af verðlaunum að þessu sinni.

„Við erum að lyfta harðfiskinum upp á nýtt plan. Við þurrkum fisk og blöndum honum saman við íslenskan ost og smjör og kryddum á mismunandi máta. Þetta eru stökkir og litlir bitar og henta hverjum sem er,“ segir Hörður um harðfiskinn sem á ensku kallast Fish Jerky Crunch og er 55% prótein.

Stefnt á erlenda markaði

Næra stefnir á erlenda markaði með harðfiskinn og beinir fyrirtækið sjónum sínum einkum að bandarískum markaði. Hörður segir að svo hafi komið skemmtilega á óvart hve mikinn áhuga asískir aðilar hafi sýnt á framleiðslunni á Seafood Expo sýningunni. Margir hafi á orði að það finni lítið fiskibragð og þetta henti vel sem snakk nema hvað það er umtalsvert heilnæmari fæða, í raun ofurfæða.

„Þannig ætlum við að reyna að fá harðfisk ofan í fleiri munna. Við erum með töluverða framleiðslugetu og ætlum okkur að vaxa. Við erum líka að heilþurrka loðnu með hrognum sem er fyrst og fremst hugsuð fyrir Asíumarkað innan landa utan Asíu. Venjuleg þurrkuð loðna er hörð undir tönn en með okkar tækni þurrkum við hana á innan við klukkustund og höldum strúktur fisksins og hann verður mjúkur en samt stökkur undir tönn. Japanir sem eru vanir þurrkaðri loðnu hafa hrifist mjög af þessari framleiðslu,“ segir Hörður.

Hvort tveggja eru nýjar afurðir og Næra er nýlega komið með vinnsluleyfi á Fáskrúðsfirði. Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði er fjárfestir í Næru og hráefnið kemur þaðan. Byggð var ný vinnsla fyrir fyrirtækið mitt á milli frystihússins og uppsjávarvinnslunnar. Fyrirtækið er með aðra vinnslu í Reykjavík þar sem framleitt er osta- og skyrnasl.

„Miðað við viðbrögðin sem við höfum fengið hjá sýningargestum erum við mjög bjartsýn á framhaldið,“ segir Hörður.

Nú er verið að undirbúa prufusendingar til nokkurra landa, mest í Asíu en einnig í Evrópu. Aðilar hafa einnig komið að máli við fyrirtækið með fyrirspurnir um magnkaup til að umpakka og selja undir eigin vörumerkjum. Hörður segir að Næra sé alveg opin fyrir þess háttar viðskiptum.

„Aðalmarkmið okkar er engu að síður að ná sem mestum virðisauka úr hráefninu. Nú höfum við lyft loðnunni alveg upp á nýtt plan með okkar framleiðslutækni. Íslendingar eru ekki vanir að borða loðnu en þeir sem hafa prófað okkar vöru hafa verið hæstánægðir.“