Á fyrstu tveimur mánuðum ársins er útflutningsverðmæti eldisafurða komið í rúma 13,3 milljarða og er það langhæsta upphæð á þessu tímabili frá upphafi, að því er segir í frétt á radarnum, vefriti Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Útflutningsverðmæti eldisafurða í janúar og febrúar er þannig er 35% hærri en frá fyrra ári í krónum talið og rúmlega 39% á föstu gengi. Nýliðinn febrúarmánuður er þriðji stærsti útflutningsmánuðurinn frá upphafi og janúar er sá fjórði.

Aukið hlutfall alls vöruútflutnings

Í fréttinni segir að samhliða auknum útflutningi hafi hlutfall eldisafurða af verðmæti alls vöruútflutnings aukist til muna. Vægi eldisafurða í vöruútflutningi var þannig 8,4% í janúar og febrúar. Síðustu ár hefur vægi þeirra verið í kringum 6% á fyrstu tveimur mánuðum ársins og var 6,4% á síðasta ári. Þetta má lesa úr bráðabirgðatölum Hagstofunnar um vöruviðskipti sem birtar voru í síðustu viku. Þar eru ekki birt útflutningsverðmæti eða magn niður á einstaka tegundir, en þær tölur verða birtar í lok þessa mánaðar. Gera má fastlega ráð fyrir að yfir 90% þessara 13,3 milljarða megi rekja til útflutnings á laxi, en hlutfall lax var um 92% í janúar.

w_1260
w_1260

Samdráttur á síðasta ári

Aukinn útflutningur í byrjun árs eru afar jákvæðar fréttir, sérstaklega í ljósi þess að samdráttur var í framleiðslu og þar af leiðandi útflutningi eldisafurða á síðasta ári.  Rekja má þann samdrátt að mestu leyti til veirusmits og viðbragða vegna þess á Austfjörðum í lok árs 2021. Fiskur sem annars hefði komið til framleiðslu árið 2023 var þannig fjarlægður úr kvíum en rúmlega 60% minni framleiðsla var á Austfjörðum á síðasta ári miðað við árið áður. Góður gangur var hins vegar á Vestfjörðum þar sem um 20% aukning var á framleiðslu á eldisfiski, þar sem lax leikur lykilhlutverk.
Aukning var milli áranna 2022 og 2023 í framleiðslu og útflutningi á bleikju og Senegalflúru, en örlítið minna var framleitt af regnbogasilung. Þessar þrjár tegundir, auk lax, eru þær einu sem framleiddar voru á síðasta ári.
Þessa þróun má sjá í nýuppfærðum tölum á Radarnum. Þar má einnig sjá ótal gröf um króka og kima fiskeldis, hvort sem það er um framleiðslu, útflutning eða vinnumarkað.