Samkvæmt ráðstöfunarskýrslum frá Hagstofu Íslands hefur útflutningur á óunnum fiski aukist undanfarin ár og er nú í kringum 50 þúsund tonn á ári. Arnar Atlason, formaður Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda segir þetta skekkja mjög samkeppnisstöðu innlendrar vinnslu og vísar þar líka í umsögn Samkeppniseftirlitsins um sama mál. Arnar er jafnframt framkvæmdastjóri Tor ehf. sem er sjálfstæð fiskvinnsla sem fær hráefni sitt á fiskmörkuðum.
„Í hráefni, hvers kyns sem það er, felast tækifæri. Frjálsum hrávörumarkaði með fisk á Íslandi sem fiskmarkaðirnir eru, hefur hinsvegar verið haldið niðri og þeir verið skortmarkaðir frá stofnun. Áhrif þess er að verulegu leyti rekstrarstöðvanir fjölda sjálfstæðra fiskvinnslna á landinu í gegnum árin. Það yrði mikil stefnubreyting ef samþættu fyrirtækin drægu verulega úr sinni vinnslu, eins og þau hafa hótað að gera, og hluti þess hráefnis færi til sjálfstæðra vinnslna í gegnum fiskmarkaði. Ég hef aldrei talað fyrir því að allur fiskur fari á markað heldur einungis því að það sé samkeppnismarkaður á Íslandi fyrir fisk og að allir greiði sama verð fyrir sambærilegan fisk,“ segir Arnar.

10-30 milljarða aukning útflutningsverðmæta
Hann segir að mun meira megi beita sér fyrir því að fiskur af Íslandsmiðum sé unninn á Íslandi. Væru þessi 50 þúsund tonn unnin á Íslandi en færu ekki óunnin úr landi, gætu útflutningsverðmæti aukist um 10-30 milljarða króna á ári. „Mér finnst mikið á sig leggjandi til þess að tryggja að svo geti orðið.“
Arnar kveðst skilja sjónarmið manna sem halda fram mikilvægi viðskiptafrelsis en á sama tíma verði að benda á það að vinnslur í Evrópu eru ríkisstyrktar. Um leið og stofnað sé til viðskipta við þessar ríkisstyrktu vinnslur gildi ekki lengur lögmál viðskiptafrelsis. Þarna sé byggt á viðskiptafrelsi á röngum forsendum. Sé það svo að útflutningur á óunnum fiski komi til vegna ríkisstyrktrar landvinnslu í Evrópu þurfi að bregðast við því hér innanlands til þess að tryggja þjóðinni betri afkomu af auðlindinni. „Mér finnst að stjórnvöld hefðu átt að getað varið störf innan fiskvinnslunnar mun betur hérna heima.“
Hráefnisverð 200 kr. dýrara á kíló
Arnar minnir á að fjöldi sjálfstæðra fiskvinnslna í landinu hafi lagt upp laupana og það megi rekja til ójafnrar samkeppnisstöðu við fyrirtæki í samþættri útgerð og vinnslu. Stór fyrirtæki með um 100 manns í vinnu, eins og Sjófiskur, Toppfiskur og Frostfiskur, hættu starfsemi. Eftir standi ennþá á bilinu 20-30 minni sjálfstæðar fiskvinnslur. Mörg af þessum fyrirtækjum eru gömul og gróin og hafa fundið sér sérstakar hillur til að komast af. Almennt sé ekki vöxtur í starfsemi þeirra heldur fremur kyrrstöðurekstur. Yfirleitt eru þau mjög sérhæfð til dæmis í undirmálsfiski, flatfiski eða með einhvers konar sérkunnáttu og sérþekkingu. Yfirleitt séu þau ekki að keppa á markaði fyrir dýrustu þorskafurðirnar þótt það þekkist líka, eins og til dæmis hjá Íslensku sjávarfangi í Kópavogi og Erik the Red í Keflavík og Sandgerði. Hjá þessum vinnslum er hráefnisverð engu að síður oft 200 krónum hærra kílóið en verðlagsstofuverð eða samningsverð.
Kvótaálag á útflutning á óunnum fiski
Það er ekkert nýtt við það að fiskur sé fluttur út í gámum óunninn. Á tíunda áratug brugðust stjórnvöld við því með því að setja 5% kvótaálag á útflutninginn. Í frétt á RÚV í mars 2010 segir að útflutningur á ferskum fiski í gámum til Bretlands hafi minnkað um nærri helming í tonnum talið frá áramótunum miðað við sama tímabil 2009. Um áramótin þá tóku gildi reglur um að 5% álag lagðist á kvóta vegna fisks sem fluttur var út ferskur og óvigtaður. Arnar kveðst sjálfur frekar vera hlynntur ívilnun en þvingunum á þessu sviði. Þeim útgerðum sem veldu frekar að afsetja sinn fisk á innlendum mörkuðum í stað þess að flytja hann út óunninn yrði ívilnað með einum eða öðrum hætti eins og t.a.m. með línuívilnun og undirmálsívilnun. „Þar sem við þurfum að glíma við ríkisstyrktan sjávarútveg í Evrópu ættum við frekar styrkja íslenskar útgerðir eða ívilna þeim frekar en að refsa þeim fyrir að flytja út óunninn fisk.“
Afsláttarverð
Arnar segir að hjá sjávarútvegsfyrirtækjum með samþættar veiðar og vinnslu hafi verið stuðst við afsláttarverð á þorski og ýsu og samningsverð í öðrum tegundum en ekki markaðsverð. „Þetta er algjör skekkja í alla staði. Að því leyti fagna ég öllu í frumvarpsdrögum ríkisstjórnarinnar sem miðar að því að jafna samkeppnisstöðuna. En ég vona um leið að þetta verði ekki banabiti fyrirtækja sem eru eingöngu í útgerð og hafa ekki möguleika á afslætti á launum sjómanna eins og þessi samþættu fyrirtæki í útgerð og vinnslu. Ég hef ekki áhyggjur af stóru fyrirtækjunum sem stjórnvöld eru einkum að líta til, fyrirtækja með milljarðahagnað og hafa ekki verið að greiða veiðigjöld í takt við það sem þau ættu að vera,“ segir Arnar.