Vilhelm Þorsteinsson EA kom með fyrsta makrílfarm vertíðarinnar til Neskaupstaðar í morgun. Farmur skipsins var 1.040 tonn og hófst löndun strax. Makríllinn er unninn í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar og hafði heimasíða fyrirtækisins samband við Geir Sigurpál Hlöðversson rekstrarstjóra fiskiðjuversins og spurði hvernig fiskurinn væri og hvernig vinnslan færi af stað.

Vinnsla á makrílnum hófst í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar strax í morgun. Mynd/Geir Sigurpáll Hlöðversson
Vinnsla á makrílnum hófst í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar strax í morgun. Mynd/Geir Sigurpáll Hlöðversson

„Fiskurinn lítur býsna vel út. Þetta er hinn fallegasti Smugufiskur. Vinnslan fer bara vel af stað en fiskurinn er heilfrystur og hausaður. Auðvitað tekur alltaf svolítinn tíma að fá allt til að snúast eðlilega í upphafi vertíðar en þetta gengur vel og ég á von á að allt verði komið á fullt síðar í dag. Nú vonum við að veiðin verði jöfn og góð og eins vonum við að makríll finnist fljótlega innan íslenskrar lögsögu. Þetta byrjar bara ágætlega og það er virkilega gaman að vertíð skuli vera hafin,” sagði Geir Sigurpáll.