Bæjarráð Vesturbyggðar segist fagna framkomnum drögum að nýrri stefnumótun varðandi uppbyggingu á umgjörð lagareldis. Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra kynnti drögin 4. október síðastliðinn og hefur ráðuneytið óskað eftir umsögnum sveitarfélaga.

„Markmið stefnumótunarinnar eru í takt við vilja sveitarstjórnarfulltrúa á Vestfjörðum sem hafa kallað eftir aðgerðum af hálfu stjórnvalda um árabil. Bæjarráð Vesturbyggðar fagnar því að fjölga eigi störfum til rannsókna á áhrifum fiskeldis á lífríkið og til miðlunar fræðslu um umhverfisleg, efnahagsleg og samfélagsleg áhrif sjókvíaeldis á Íslandi og leggur áherslu á að opinber störf er tengjast þjónustu og eftirliti með sjókvíaeldi skuli vera þar sem starfsemin fer fram,“ segir í bókun bæjarráðsins sem fól bæjarstjóranum að skila inn umsögn um málið.