Barði NK kom til Neskaupstaðar í gær með 1.300 tonn af loðnu. Aflinn fer til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Síldarvinnslan segir frá.

Rætt er við Runólf Runólfsson skipstjóra og á vef Síldarvinnslunnar og spurt fyrst hvar veitt hefði verið.

„Við vorum austur af Glettingi. Aflinn fékkst í þremur holum og var dregið í 3 til 6 ½ tíma. Í fyrsta holinu fengust 470 tonn, 390 í því næsta og 440 í lokaholinu. Þetta er fínasta veiði og í fyrra þurfti að draga miklu lengur til að fá sambærilegan afla. Þetta er fínasta loðna og hentar ábyggilega vel til frystingar. Það eru 40 – 42 stk. í kílóinu. Grænlensku skipin Polar Ammassak og Tasiilaq voru líka að fiska vel og héldu þau til Færeyja með aflann,“ segir Runólfur.

Geir Sigurpáll Hlöðversson, rekstrarstjóri fiskiðjuversins, segir að frystingin gangi vel. „Nú erum við að frysta hænginn á Austur – Evrópumarkað og þetta er úrvalshráefni. Það er ekki verið að frysta á fullum afköstum ennþá en um mánaðamótin verður fiskiðjuverið fullmannað og þá hefst vinnslan af fullum krafti,“ segir Geir Sigurpáll.