Matsferli vegna tjónsins sem varð á NSL-3 vatnslögninni í Vestmannaeyju í nóvember 2023 hefur staðið yfir síðustu mánuði án þess að niðurstaða liggi fyrir en áætlað var að hún yrði tilbúin 1. nóvember síðastliðinn.

Bæjarráð Vestmannaeyja segir þetta mat nauðsynlegt til að fá greiddar tryggingabætur og afmarka fjárhæð tjónsins.

Krefja Vinnslustöðina áfram um fullar bætur

„Áttu matsmenn að skila matsgerð þann 1. nóvember sl. en það hefur því miður dregist sem ekki varð við ráðið. Þegar matsgerð liggur fyrir standa væntingar til að VÍS, tryggingafélag tjónvaldsins, greiði skaðabætur sem nema í kringum kr. 370 milljónir. Sú fjárhæð mun hins vegar ekki tryggja nema lítinn hluta raunverulegs tjóns af völdum skemmdanna á NSL-3. Eins og fram hefur komið hefur verið tekin ákvörðun um að fara í skaðabótamál til að sækja fullar bætur úr hendi tjónvaldsins,“ segir í fundargerð bæjarráðs sem vísar þar til þess að það hafi verið einn af togurum Vinnslustöðvarinnar sem olli skemmdunum á vatnslögninni.

„Eins og staðan er í dag er áætlað heildartjón á bilinu 1.380-1.485 milljónir króna,“ sagði í fundargerð bæjarráðsins í júní í sumar.

Þurfa að leggja út 200 milljónir til að fá nýja lögn keypta

„Forvalsferli vegna fyrirhugaðra kaupa á nýrri vatnslögn til Vestmannaeyja, svokallaðri almannavarnalögn (NSL-4), var lokið 20. nóvember sl. Tveir aðilar tóku þátt í forvalinu en aðeins annar þeirra uppfyllir öll skilyrði um hæfi og getu til að útvega lögn á tilsettum tíma. Verður í framhaldinu gengið frá formlegum kaupsamningi um nýja lögn af þessum aðila og standa vonir til að það klárist á allra næstu vikum. Mun Vestmannaeyjabær þurfa að inna fyrstu greiðslu þann 20. desember nk. til að tryggja afhendingu lagnarinnar sumarið 2026. Verður sú greiðsla að fjárhæð DKK 10 milljónir eða í kringum kr. 200 milljónir. Þar af mun íslenska ríkið greiða kr. 100 milljónir í samræmi við skuldbindingu þess efnis,“ segir í fundargerð bæjarráðs Vestmannaeyja.

Samþykkti bæjarráðið fyrir sitt leyti að gengið verið frá samningi um kaup á nýrri vatnslögn, svokallaðri almannavarnarlögn NSL-4, sem lögð verði sumarið 2026.