Í rannsóknarstöð Hafrannsóknastofnunar að Stað við Grindavík er verið að setja upp búnað til þess að rannsaka áhrif súrnunar hafsins á lífverur þess. Súrnun er einn af fylgifiskum losunar koltvísýrings og hefur mælst hraðari hér við Ísland en víðast annars staðar í heimshöfunum.

„Við erum að koma þessari rannsóknarstöð á laggirnar af því það er svo lítið vitað um áhrif súrnunar sjávar á svæði sem er samt að súrna tiltölulega hratt. Hérna á norðurslóðum gerist þetta hratt af því kaldur sjór getur tekið við meiri koltvísýringi heldur en hlýsjór,“ segir Einar Pétur Jónsson, líffræðingur á Hafrannsóknastofnun.

„Við erum að setja upp tilraunaaðstöðu núna þar sem við getum sýrt sjóinn, þ.e. bætt kolsýru í sjóinn, og líkt eftir framtíðaraðstæðum. Í aðstöðunni er líka hægt að breyta hitastiginu og þannig er mögulegt að framkvæma tvíþættar tilraunir til að rannsaka afleiðingar þeirra öru breytinga sem eiga sér stað í sjónum. Þetta eru tveir umhverfisþættir sem eru að breytast mikið í heimshöfunum og kjörið tækifæri að gera ýmsar tilraunir, meðal annars með loðnuna.“

Tókst að ala loðnu

Hann segir liggja nokkuð beint við að byrja á loðnunni vegna þess að Tómasi Árnasyni og Agnari Steinarssyni, sérfræðingum á Stað, hefur tekist það sem engum öðrum í heiminum hafði tekist: að ala loðnu í eldisstöð, allan lífsferil hennar frá hrogni til hrygningar og frjóvgunar.

„Núna erum við bara að fara að afla okkur meiri loðnuhrogna, villtum af sjó. Erum að undirbúa það núna og förum svo af stað með tilraunir á næstu mánuðum.“

Einar Pétur Jónsson, líffræðingur á Hafrannsóknastofnun. Aðsend mynd
Einar Pétur Jónsson, líffræðingur á Hafrannsóknastofnun. Aðsend mynd

Mislangt verður þangað til niðurstöður fást, en þær úr fyrstu hitatilraun væntanlega innan fárra vikna

„Svo getur það gerst að áhrif tilraunar sjáist ekki strax á lífverunum, heldur koma þau kannski ekki fram fyrr en þær eru orðnar fullvaxta. Þannig að þá munu sumar tilraunirnar verða lengri. Við munum ala þær áfram.“

Áhrifin misjöfn

Hann segir breytilegt hver áhrif súrnunar hafsins muni hafa á lífríkið, en þó séu ákveðnir angar þess þar sem nú þegar blasir við hver áhrifin muni verða.

„Það eru sérstaklega þær lífverur sem mynda kalkskel einhvers konar. Þar er algengt að rannsóknir sýni neikvæð áhrif. En svo er mjög mismunandi hvað rannsóknir sýna varðandi aðrar lífverur, eins og fiskungviði. Sumt fiskungviði virðist ætla að hafa það mjög slæmt, og annað bara fínt. Svo er jafnvel breytileiki á rannsóknum innan sömu tegundar. Það er loðið hver áhrifin munu verða með sumar lífverur og svo eru jafnvel sumar lífverur sem virðast ætla að verða sigurvegarar, ef svo má segja, að koma vel undan því.“

Mikilvægt sé þó að horfa ekki bara á eina tegund í einu heldur skoða heildarsamhengið með vistfræðilegri nálgun. Til dæmis geti það komið sumum lífverum vel ef afræningjar þeirra ná ekki að spjara sig í súrum sjó.

„Svo geta sumar skeljar lifað í mjög súrum sjó eins og við suma djúpsjávarstrompa, en þær geta það af því þær fá svo mikið æti þar og krabbinn kemst ekkert nálægt þeim. Þannig geta þær verið með þunna og lélega skel, en spjarað sig ágætlega.“

Kalkþörungarnir næstir

Hugmyndin er því að nýta aðstöðuna til þess að kanna áhrif súrnunar sjávar á fleiri lífverur. Einar Pétur segir að næst verði líklega horft til kalkþörunga, sem er að finna meðal annars víða í Ísafjarðardjúpi.

„Kalkþörungar eru rauðþörungar sem mynda kalkskel. Það eru mjög flókin og falleg búsvæði sem þeir mynda fyrir fjölda lífvera. Við ætlum að skoða áhrif tveggja þátta á vöxt og kalkmyndun þeirra, súrnun sjávar og ljós. Af því alltaf er þetta spurning um orku þegar lífvera er að takast á við stress. Hjá kalkþörungnum er það ljós sem veitir orkuna, og við ætlum að skoða hversu lítið ljós hann kemst af með þegar tekist er á við þetta stress sem súrnunin er.“

Hann segir rannsóknastofuna henta vel til þess að stunda tilraunir af þessu tagi. Auðvelt verði að breyta þáttum á borð við hitastig, sýrustig og ljósmagn eftir því hvað sé verið að skoða hverju sinni.

Breytt eftir þörfum

„Langtímahugsunin er að geta sett upp þær tilraunir sem okkur eða öðrum dettur í hug, hér á Íslandi eða í alþjóðasamstarfi. Við breytum þá bara rannsóknarstofunni eins og við þurfum.“

Rannsóknarstofan er hönnuð með hliðsjón af og í samstarfi við aðrar slíkar erlendis. Þó er ákveðin nýjung í því hvernig farið verður að því að sýra sjóinn.

„Við erum með kerfi sem kemur til með að geta sýrt frekar mikið magn af sjó, og þar af leiðandi getur umfang tilrauna verið meira en algengt er. Yfirleitt er það slanga með koltvísýringi sem fer í kerið, en við búum í raun til meira magn af súrum sjó, með koltvísýringsþrýstingi eins og í Sodastream tæki. Svo er honum blætt út í venjulegan sjó í innflæðinu í kerið eins og þörf gerir ráð fyrir, til að fá sýrustigið sem óskað er eftir.“