HPP Solutions, sjálfstætt starfandi dótturfélag Héðins hf., sem áður hét Vjelsmiðjan Hjeðinn og var stofnuð árið 1922 í Aðalstræti 6, fyrsta iðnaðarhverfinu í Reykjavík og þar sem seinna reis Morgunblaðshöllin, er í útrás á alþjóðamarkaði og kynnir nú lausnir að fullvinnslu sjávarafurða fyrir sunnanverða Evrópu á Seafood Expo í Barcelona.

Fiskifréttir hittu á Ragnar Sverrisson framkvæmdastjóra og Pétur Jakob Pétursson sölu- og markaðsstjóra fyrirtækisins á fremur hógværum bási þess á stærstu sjávarútvegsýningu heims. Þeir segja óplægðan akur fyrir lausnir fyrirtækisins á sviði fiskmjöls- og lýsisvinnslu sjávarútvegsfyrirtækja í Suður-Evrópulöndum.

Trukkað til bræðslu á Jótlandi

„Mikið af því sem fellur til í fiskvinnslu hér um slóðir er trukkað langar leiðir í stóru fiskmjölsverksmiðjurnar norðar í Evrópu, þar á meðal í Skagen í Danmörku. Af því hlýst að sjálfsögðu mikið kolefnisspor og hér syðra er tækifæri fyrir fyrirtæki að setja upp minni einingar eins og við erum að framleiða og bjóða og henta til staðbundinnar fullvinnslu á hráefninu,“ segir Ragnar.

Ragnar Sverrisson, framkvæmdastjóri HPP lausna.
Ragnar Sverrisson, framkvæmdastjóri HPP lausna.

Þar vísar hann til eininga eins og hafa verið settar upp á Íslandi, m.a. hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað, og jafnvel þaðan af minni einingar, eins og t.d. í skip eins og var gert í Sólbergi ÓF 2017. Fiskmjölsverksmiðjur HPP Solutions eru af mörgum stærðum, allt frá afkastagetu upp á tíu tonn á sólarhring upp í 300 tonn á sólarhring. Svo eru engin takmörk frá fjölda eininga með mismunandi vinnslugetu sem fyrirtæki geta sett upp.

Verðhækkanir

„Hráefnið er líka verðmætt og sérstaklega hefur orðið mikil verðhækkun á lýsi undanfarið. Verðhækkanir á mjöli og lýsi má rekja til aukinnar eftirspurnar frá fiskeldi og um leið hafa aðrar olíur, eins og jurtaolía, hækkað mikið í verði.“

Nýlega var sett upp 150 tonna próteinverksmiðja frá HPP Solutions hjá Meitmel í Kaskinen í Finnlandi sem vinnur aðallega síld í mjöl og lýsi. Síldin þar um slóðir er ekki manneldishæf vegna díóxiðmengunar og fer því öll til mjöl- og lýsisvinnslu. Verksmiðjan er nú komin í rekstur og framleiðir mjöl og lýsi til fóðurframleiðslu, einkum fyrir loðdýrabændur.