Togarinn Sturla GK frá Þorbirni hf. kom til Grindavíkur í morgun og landaði þar. Er það fyrsta löndunin í höfninni frá því bærinn var rýmdur fyrir tuttugu dögum. Sigurður Kristmundsson hafnarstjóri segir þetta fagnaðarefni.
„Auðvitað lifum við og hrærumst í sjávarútvegi sem er risastór þáttur í okkar samfélagi. Það er notalegt að fá þessi skip inn. Þeir vilja koma og höfðu frumkvæði að því að koma. Það var leyst með því að þeir væru undir sama hatti og allir aðrir að þeir kæmu klukkan sjö og færu út aftur fyrir klukkan fimm,“ segir hafnarstjórinn og undirstrikar að höfnin sé aðeins opin í samræmi við tilskipun aðgerðastjórnar Almannavarna.
„Þetta er ákveðinn vísir auðvitað en landið er áfram að rísa og atburðurinn er enn í gangi þannig að menn vilja fara hægt í sakirnar með allar opnanir,“ segir Sigurður.
Jól í Hafnarfirði ekki ólíkleg sviðsmynd
Eins og fram kom í viðtali Fiskifrétta við Lúðvík Geirsson, hafnarstjóra í Hafnarfirði, þá reiknar hann með að mörg skip og bátar verið í Hafnarfirði yfir hátíðirnar. Þrír starfsmenn Grindavíkurhafnar muni starfa í Hafnarfirði. Staðan er enn óbreytt hvað þetta varðar á meðan skipin mega ekki vera nema yfir daginn höfn í Grindavík.
„Þeir verða vonandi eitthvað meira hjá Lúðvíki af því að það er náttúrlega ekki nóg að sinna einu og einu skipi í Grindavík af og til. Þannig að þeir hafa skjól í Hafnarfirði,“ segir Sigurður um starfsmenn sína.
Hafnarstjórinn segir enn hugsanlegt að skipin úr Grindavík verið í Hafnarfirði yfir hátíðirnar. „Það er ekki gott að segja hvernig staðan verður um jólin, mögulega verður búið að breyta þessu öllu,“ bendir hann á. „En það er ekki ólíkleg sviðsmynd að skipin verið í Hafnarfirði yfir jólin. Smærri bátarnir verða kannski í Sandgerði en stærri skipin í Hafnarfirði eða öðrum höfnum.“