Sjó­mannadag­ur­inn verður hald­inn hátíðleg­ur um allt land í dag. Mikil spenna ríkir í herbúðum þeirra sem skipuleggja daginn í Reykjavíkurhöfn en það eru Brim, Faxaflóahafnir og Sjómannadagsráð sem standa að skemmtuninni við Reykjavíkurhöfn á Granda.

„Við ætlum að tjalda öllu til eins og í fyrra og bjóða upp á tvö svið, annað við Brim og hitt á miðjum Grandagarði. Þar stíga á stokk meðal annarra tónlistarfólkið Gugusar, Daniil, GDRN og sjálfur Jón Jónsson tekur ekki bara lagið heldur er skemmtanastjóri Sjómannadagsins í Reykjavík. Lalli töframaður verður á litla sviðinu þar sem þau Begga og Mikki, sem margir þekkja úr Krakkakvissi og Krakkaskaupinu, stýra „sjó-inu” og svo harmonikkuleikarar og BMX brós á því stóra. Þá er koddaslagurinn, sigling með varðskipinu Freyju, bryggju sprellið, klifur- og kraftakeppni og fiskisúpusmakk að sjálfsögðu á boðstólnum í ár sem endranær og margt, margt fleira”, segir Aríel Pétursson, formaður Sjómannadagsráðs.

Sjómenn heiðraðir og óskalög sjómanna

Dagurinn hefst klukkan 10 í Fossvogskirkjugarði með minningarathöfn um sjómenn sem hafa drukknað eða týnst í sjó þegar lagður verður blómsveigur á leiði týnda sjómannsins. Klukkan 11 verður allsherjar lúðrablástur frá höfninni þegar skipin þeyta flauturnar og setja hátíðina þar með. Skemmtidagskráin hefst með skrúðgöngu frá Hörpu kl. 12.30 og endar á Granda þar sem við tekur fjölbreytt dagskrá fyrir alla fjölskylduna.

Heiðursveitingar sjómanna fyrir farsæl félags- og sjómannsstörf og björgun mannslífa fer fram í Hörpu kl. 14 og verður sú athöfn í beinni útsendingu á Rás 1. Einn vinsælasti útvarpsþáttur allra tíma, Á frívaktinni (óskalög sjómanna) verður síðan endurvakinn kl. 15, en það er sjálf Svanhildur Jakobsdóttir sem hefur umsjón með þættinum.

„Það er gaman að RÚV ætli að endurvekja þennan geysivinsæla þátt aftur í ár og vonum við að hann slái í gegn eins og í fyrra. Annars mælum við með að fólk kynni sér dagskrána vel á sjomannadagurinn.is eða á Fésbókarsíðu Sjómannadagsins í Reykjavík. Öll fjölskyldan ætti að finna eitthvað við sitt hæfi”, segir Elísabet Sveinsdóttir, markaðskona og kynningarstjóri Sjómannadagsins í Reykjavík.

Sjómennirnir sex sem verða heiðraðir af Sjómannadagsráði fyrir langan og farsælan starfsferil til sjós eru:

Andrés Hafberg vélstjóri.

Björgvin Jónasson vélstjóri.

Guðmundur Bjarnason skipstjóri.

Ívar Bjarnason bátsmaður.

Kristján Lúðvík Ásgrímsson háseti.

Markús Alexandersson skipstjóri.