Stangveiðimenn ræða nú myndir af meintum eldislöxum sem sjást og veiðast þessa dagana. NASF á Íslandi birti til dæmis á mánudag færslu á Facebook um meintan eldislax sem veiddist í Hópinu inn af Húnaflóa.

„Fiskurinn var vigtaður tæp sjö kíló sem vill svo til að er sama stærð og laxarnir sem
voru í netapoka Arctic Fish í Kvígindisdal í Patreksfirði, þar sem tvö göt fundust fyrir um viku síðan,“ segir í færslunni. Götin sem um ræðir uppgötvuðust 20. ágúst.

Myndum hefur verið deilt úr fiskateljara í Laugardalsá í Ísafjarðardjúpi þar sem menn telja sig greina eldislaxa. „Uggarnir vísa til sjókvíaeldisuppruna, þar með talin sporðblaðkan,“ segir Jóhannes Sturlaugsson fiskifræðingur til að mynda í
athugasemdum.

Hægt að rekja til upprunans

„Við erum að fá myndir og tilkynningar um nokkra meinta eldislaxa,“ segir Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri hjá Hafrannsóknastofnun.

„Við höfum verið að kalla eftir að fá sýni til að setja í erfðagreiningu til að geta staðfest
hvort um eldislax sé að ræða en síðan getum við líka rakið þá til uppruna,“ segir Guðni. Hægt sé að rekja fiska að ákveðnum kvíum og til einstakra atburða ef um þá sé að ræða.

„Við fengum fiska í hús sem Fiskistofa náði í fyrir vestan en það er ekki búið að greina neina af þessum fiskum enn þá,“ segir Guðni. Það taki frá um tíu dögum upp í fjórar vikur.

Spurður hvort aukning hafi orðið á tilkynningum um meinta eldislaxa eftir að gat kom á
kvína í Patreksfirði segir Guðni svo vera.

Eldislaxar koma yfir hafið

„Maður vill hafa eitthvað hlutlægt í höndunum til að meta en ekki bara sögusagnir. Við höfum verið að heyra af því að það hafi verið að sjást fiskar fyrir vestan í kjölfar þessara gata en við höfum það ekki staðfest,“ segir Guðni. Betur megi meta hversu margir fiskar hafi sloppið þegar lokið hafi verið við slátrun úr kvínni. Eftir að rætt var við Guðna birti MAST fréttum það mál.

„Það sluppu út ansi margir fiskar í Arnarfirði 2021 og mögulega gæti eitthvað af þeim verið að skila sér núna. Það á eftir að koma í ljós þegar við arfgerðagreinum þessa fiska hvaðan þeir eru að koma,“ segir Guðni og bendir á að fyrir nokkrum árum hafi veiðst
tveir eldislaxar á Austurlandi sem ekki voru úr eldi á Íslandi.

„Annar þeirra var væntanlega frá Færeyjum og hinn frá Noregi. Þótt Atlantshafið hljómi stórt þá ferðast fiskar um allt.“