Um það bil 400-500 metra langur brimvarnagarður út frá út Sjávarbraut á móts við athafnasvæði útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækisins Einhamars er efstur á óskalista Grindvíkinga. Sigurður A. Kristmundsson hafnarstjóri segir brýnt að bætt verði úr öryggi við innsiglinguna að Grindavíkurhöfn og mörg dæmi séu um að fiskiskip sem annars hefðu landað í Grindavík fari til löndunar í aðrar hafnir vegna aðstæðna.

Umsvif hafa verið með minna móti í Grindavíkurhöfn það sem af er þessu ári sem rekja má til kvótaskerðingar en þó ekki síður þrálátrar brælutíðar allan febrúarmánuð. Þetta leiddi til þess að heimabátar og aðrir lönduðu mikið í öðrum höfnum. Þetta sé nánast árviss staða í upphafi vertíðar í Grindavík í janúar og febrúar.

Fyrirgefur ekki mistök

Sigurður segir breytt viðhorf ríkjandi hjá sjómönnum og skipstjórnendum og menn séu mun öryggismiðaðri en áður var. Það geti viðrað vel til löndunar tiltekinn dag en skipstjórnendur gaumgæfa vel veðurspá fyrir komu til hafnarinnar og við brottför. Sé hún slæm koma þeir jafnvel alls ekki inn til löndunar í blíðuveðri. Þetta er ekki óþekkt staða og skemmst að minnast þess þegar heilu fyllurnar köstuðust inn fyrir innsiglinguna og ollu stórtjóni í frystihúsi Vísis í aftakaveðri 6. janúar 2022.

Sigurður A. Kristmundsson hafnarstjóri. FF MYND/GUGU
Sigurður A. Kristmundsson hafnarstjóri. FF MYND/GUGU

Höfnin og með framkvæmdasvið Vegagerðarinnar í fararbroddi hefur sett í gang vinnu við frumhönnun á ytri sjóvarnargarðs við innsiglinguna sem myndi draga stórlega úr líkum á atburðum sem þessum auk þess sem öryggi sjófarenda batnaði til muna.

Það var brakandi blíða í Grindavík þegar sest var niður með Sigurði á dögunum. Hann benti á að við svona aðstæður væri barnaleikur að sigla inn og út úr innsiglingunni. En um leið og veðrið versnar umtalsvert er innsiglingin þeirri náttúru gædd að hún fyrirgefur ekki mistök. Hún er 70 metra breið og í mikilli öldu og öldufrákasti er svigrúm fyrir mistök lítið. Tillögur Vegagerðarinnar ganga út á það að ytri innsiglingin verði breikkuð úr 70 m í 150 m og skjólgarðurinn byggður alla leið að suðvesturenda ytri rennunnar. Þessa nálgun á hafnabótum eru reyndustu skipstjórar samhljóða um að geti skilað umtalsvert betri og öruggari innsiglingu.

Sjávarafurðir landleiðina frá Grindavík

Á næsta ári er væntanlegur til Grindavíkur nýr togari Þorbjarnar sem nú er verið að smíða á Spáni. Skipið verður 58 metrar á lengd og 13,6 metrar á breidd. Sigurður segir að gert sé ráð fyrir því að skipið landi í Grindavík í hverri viku. Þau áform setji enn meiri þrýsting á það að hafist verði handa við að bæta innsiglinguna. Núverandi Tómas Þorvaldsson GK kom tólf sinnum í röð inn til löndunar en varðandi landanir hans og álíka skipa er gerð sú krafa að ölduhæð við innsiglinguna fari ekki yfir 4,5 – 5,5 metra. Undanfarnar tvær landanir hafa farið fram í Hafnarfirði vegna aðstæðna við Grindavíkurhöfn.

Það er þó langt því frá að í Grindavík sé afla ekki landað. Fyrirtæki í sjávarútvegi á staðnum ráða yfir 10% aflahlutdeildar í botnfiski og árlegur landaður afli er á bilinu 35-50 þúsund tonn. Aflaverðmætin eru á bilinu 12-13 milljarðar króna á ári og ekki óvarlegt að áætla að útflutningsverðmætin séu 24-26 milljarðar króna. En öllum sjávarafurðum sem verða til í Grindavík er ekið þaðan til annarra hafna til útflutnings og verður Grindavíkurhöfn þar með af umtalsverðum tekjum sem fylgja þeim útflutningi.

Í hjarta landeldis

Mikil uppbyggingaráform eru í landeldi í Ölfusi á vegum Geo Salmo, Landeldis og Fiskeldis Ölfuss þar sem framleiðsla á eldislaxi gæti orðið 100 þúsund tonn á ári nái ítrustu áætlanir fram að ganga. Þá hefur Samherji áform um uppbyggingu á 40 þúsund tonna landeldi við Reykjanes skammt vestan Grindavíkur. Höfnin í Grindavík er miðsvæðis hvað þessa starfsemi varðar en til þess að geta sinnt verkefnum á þessu sviði þurfa að koma til umfangsmiklar hafnabætur sem auðvelda skipstjórum og útgerðum að tryggja öryggi áhafna og skipa.

Siglingasvið Vegagerðarinnar vinnur að hönnun brimvarnagarðsins sem talinn er geta gert innsiglingarrennuna að höfninni mun öruggari með því að brjóta niður suðvestanöldu og öldufrákast. Samkvæmt hafnarreiknilíkani myndi ytri brimvarnargarðurinn veita álíka mikið skjól og brimvarnargarðarnir við innri innsiglinguna veita núna. Í garðinn færu 350.000 rúmmetrar efnis. Miklar framkvæmdir eru framundan í tengslum við landeldi Samherja við Stað og Reykjanesi og líklegt að mikið efni falli til við jarðvegsframkvæmdir þar sem gætu hugsanlega nýst í garðinn. Áætlaður kostnaður við brimvarnargarðinn er um einn milljarður króna.

Auk brimvarnargarðs hefur Vegagerðin teiknað upp stækkun snúningssvæðis innan hafnar svo allt að 140 metra löng skip geti athafnar sig þegar búið er að dýpka þar. En höfnin hefur gott svigrúm til hafnabóta fyrir allt að 200 metra löng skip miðað við núverandi umhverfi hafnarinnar og mögulega enn stærri skip ef farið yrði í stórkostlegar hafnabætur. Þannig að í sjálfu sér er lítið sem takmarkar getu hafnarinnar til þess að vaxa í takti við aukin umsvif næstu áratugina.

Málið er í skoðun og þróun hjá Vegagerðinni og hefur sveitarfélagið sent inn beiðni um að verkefnið verði tekið inn á samgönguáætlun en fjármögnun framkvæmda af þessu tagi skiptist þannig að ríkið greiðir 60% kostnaðar og sveitarfélagið 40%.

Teikning af nýjum, 400-500 metra löngum brimvarnagarði.